20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

12. mál, umhverfismál

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég verð að segja að þar fór heldur í verra það sem ég heyrði frá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur og hæstv. forsrh. nú síðast. Mér finnst það því miður ekki bera vott um þann skilning og þá sýn til þessara mála sem ég hafði vonað að lægi að baki þess sem stendur í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar um þessi mál.

Hafa menn ekki litið til reynslu nágrannalanda okkar í þessum efnum? Var ekki hæstv. forsrh. að segja að hann ætlaði að láta nefndina um að móta tillögur? Ætlar hann ekki að fylgja þeim tillögum? Eigum við að trúa því að þessi nefnd, skipuð valinkunnu fólki, komi með eitthvert frv. sem breytir sáralitlu í þessum efnum? Ég vona að svo verði ekki og ég vænti þess að það sé kannski einhver fyrirstaða hjá samstarfsflokki hæstv. forsrh. varðandi slíkt og minni á það og þær tillögur og þær tilraunir sem hv. þm. Alexander Stefánsson hafði uppi sem félmrh. til þess að taka á þessum málum og þá till. til þál. sem framsóknarmenn fluttu hér í Sþ. síðla á síðasta þingi til þess að reyna að bjarga ærunni í þessum efnum.