20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

12. mál, umhverfismál

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka að hér eru á döfinni mjög miklar breytingar á skipulagi og stjórnun umhverfismála til þess að gera þá stjórnun skilvirkari en hún hefur verið. Á hinn bóginn er ljóst að það er ekki verið að stofna nýtt ráðuneyti og færa báknið á þann veg út, en breytingin mun fela í sér að tilteknu ráðuneyti verður falin yfirstjórn þessara mála. Einhver verkefnatilflutningur verður vafalaust, en áfram þurfa mjög mörg ráðuneyti að huga að umhverfismálum. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. fyrirspyrjandi vilji þrengja svo þetta hugtak og þetta verksvið að það eigi einungis að vera verkefni eins ráðuneytis að huga að þessum málum. Þvert á móti held ég að ástæða sé til þess að gera kröfur um umhverfisvernd og umhverfisaðgæslu mjög víða í stjórnkerfinu og að allir aðilar í því hafi þar hlutverki að gegna en ekki bara eitt ráðuneyti.