10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist, hafandi þó verið í starfi hingað til sem krefst mikillar vinnu og óreglulegs vinnutíma rétt fyrir jólin. Þó stend ég hér alveg orðlaus nú þar sem manni er uppálagt þessa dagana að standa frammi fyrir vali um hvort maður ætli að starfa í nefndum þingsins eða inni á þingfundum. Mér finnst ekki hægt að leggja slíkt vinnulag upp í hendur hvers og eins að þurfa að velja á hverjum degi hvaða verkefnum af skyldustörfunum hann ætlar eða getur sinnt. Ég gerði mér vonir um að fá í dag svar við fsp. minni frá 10. okt. og gekk þess vegna út af sameiginlegum fundi sjávarútvegsnefnda beggja deilda hins háa Alþingis til að fá þau svör, en ég frétti það síðar að aðrir þm. hefðu knúið fram frestun á fundi í sjútvn. í bili. En ég skora á þá sem hér ráða að skipuleggja það starf betur sem hv. þm. eiga fram undan þannig að það verði raunhæft.