10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Þ. Guðbjartssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég held að hún sé þörf og ég held að það verði tekið eftir þessari umræðu úti í þjóðfélaginu. Ég spyr hæstv. forseta að því hvort hann telji þau vinnubrögð forsvaranleg að fá t.d. í hendur hér, 10. des., frv. upp á 340 síður, flókið mál, og á að keyra það í gegn fyrir jólahlé. Ég fullyrði að það er útilokað að menn hafi miðað við önnur störf möguleika á að lesa þetta yfir, bara möguleika á að lesa það yfir hvað þá að athuga hvaða áhrif þetta hefur.

Ég er líka þakklátur formanni fjvn., sem fór nokkra hringi í ræðustól áðan, fyrir hans ræðu. Það var athyglisvert sem hann sagði í raun og veru. Það lá í orðum hans: Hvað kemur þm. við hvernig skipting er á þessum liðum? Við fengum að vita það kl. 7 í gærkvöld og það átti að klára það í hvelli. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Ég er að verða undrandi á því að forsetar Alþingis skuli una þessum vinnubrögðum. Ég er alveg orðinn undrandi. Ég held að það liggi helst fyrir núna að það þurfi að fresta jólum og áramótum fram undir páska ef þetta á að verða skaplegt. Hafi einhvern tíma verið ástæða til þess, þá er það nú.

Og sú fyrirlitning sem kom fram í ræðu formanns fjvn. Öllum fórst frekar en honum sem hefur og gert upphlaup hvað eftir annað á þinginu sem mun verða í minni á meðan íslensk tunga verður töluð. Svo er hann að tala um að þetta séu ótímabærar, ástæðulausar umræður. Þvílíkt! Þvílíkt!

Nei, ég ætla ekki að lengja þessar umræður. Ég vil taka tillit til þess tíma sem hér er. En ég endurtek að ekki þarf að búast við því að stjórnarandstaðan, miðað við það sem hefur komið hér fram, greiði fyrir málum. Það er ekki til þess að ætlast. Og ríkisstjórnin hefur ekki staðið þannig að málum. Eða upplýsingaskylda hennar. Hún hefur ekki verið á þann veg að því sé hægt að una.

Það gefst sjálfsagt tími til að ræða þessi mál betur í sölum Alþingis, en ég yrði ekkert hissa á því þó að hv. þm. Albert Guðmundsson tæki upp Víga-Glúms sögu og læsi hana eina nóttina. Það hefur verið gert annað eins hér áður af mönnum sem hafa stutt þessa ríkisstjórn. Það væri hægt meira að segja að lesa upp úr þeirra ræðum í nokkra tíma.

Þessu er ekki hægt að una. Ég hef verið hér í rúm 20 ár og þó að oft hafi verið allt í vitleysu hér á Alþingi fyrir jólaleyfið er þetta svo gersamlega það vitlausasta sem ég a.m.k. þekki. Ég vildi bara spyrja hæstv. forseta hvort hann gæti nefnt það í Íslandssögunni að nokkurn tíma hafi komið upp að 10. des. komi fram frv. upp á 340 blaðsíður sem er tilkynnt að eigi að ljúka með öllu öðru. — Ef það væri nú bara þetta eitt. Það væri hugsanlegt. Hvað eru menn að hugsa? Og ætlar hæstv. forseti ekki að mótmæla þessum vinnubrögðum?