10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Það hafði ekki verið ætlun mín að standa upp til að ræða þingsköp, en orð hv. 5. þm. Vestf. urðu til þess. Ég tel að það sé ekki þm. sæmandi að fara með rangt mál. Hann gerði það í tveimur tilfellum. Í fyrsta lagi sagði hann að tveir þingmannahópar hefðu ekki getað fundað í gærkvöld. Það er rangt. Reyknesingar funduðu í gærkvöld, en það náðist ekki í hv. formann fjvn. til þess að hann gæti útskýrt það sem þm. ætluðu að fjalla um. Þm. Reykjaness voru því boðaðir á fund kl. 10 í morgun til að fá hv. formann fjvn. til að ræða þessi mál. Ég tel að það sé betra að hv. 5. þm. Vestf. fari með rétt mál.

Hitt var það að hann sagði að enginn fjárveitingarnefndarmaður úr stjórnarandstöðu hefði tekið undir mótmæli þau sem hv. 6. þm. Suðurl. hóf. Það var líka rangt að því leyti til að það hafa verið gerðar athugasemdir af hv. þm. í nefndinni að því er okkur hefur verið sagt.

Ég tel að sá gorgeir og mannfyrirlitning sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Vestf. sé einstakt. Honum finnst ekkert að því að þingheimur fái ekki upplýsingar um helstu og stærstu mál þingsins. Tekjuöflunarkerfið sem er verið að gerbreyta og er rætt um að geti aukið tekjur ríkisins á bilinu frá milljarði til þriggja milljarða eða það eru skattaálögur sem aukast á þjóðina, og ef það er ekki gerð krafa um að þm. fái upplýsingar um þetta og útreikninga frá hv. Þjóðhagsstofnun og hagsýslu er illa komið. Þetta er krafa sem þm. hljóta að gera.

Hitt var það að í morgun sat hv. sjútvn. að störfum og hafði boðað til sín menn til álits. Þeir komu of seint á fund nefndarinnar vegna þess að hæstv. sjútvrh. hafði boðað þá fyrst á fund sinn til að kynna drög að reglugerð sem þingnefndin hafði beðið um daginn áður og kynnti þeim fyrst reglugerðina. Þeir komu því of seint á fund nefndarinnar vegna þess að þeir voru að skoða þessa reglugerð. Ég tel það virðingarleysi af hálfu hæstv. sjútvrh. að bjóða sjútvn. upp á að hún skyldi kynnt, þessi reglugerð, sérstaklega þessum mönnum áður en þeir komu á fund hjá sjútvn. án þess að nefndin gæti tekið afstöðu. Ég vonast til að hæstv. sjútvrh. virði Alþingi meira en þetta.

Ég vil í þessu sambandi ítreka að það er ekki hægt að ættast til þess að alþm. taki afstöðu til þeirra málaflokka sem hér liggja fyrir og núna hefur verið hent yfir þingheim í sveru upplagi af pappír. Þetta eru svo viðamikil mál að það tekur töluverðan tíma að fara í gegnum þau. Hagsmunamál þessi sem varða þjóðina hvað mestu. Það er ekki hægt að ætlast til þess að alþm. afgreiði þau fyrir jól með þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið hafin. Hæstv. ríkisstjórn hefði átt að standa betur að málatilbúnaði. Hún hefði átt að leggja málið miklu fyrr fyrir þingið og gefa þm. kost á að ræða þau og fara yfir þau hér. Því verður ekki unað að hæstv. ríkisstjórn telji forsvaranlegt að tilkynna á blaðamannafundum um mál sem ætti að leggja fyrir þingið áður og jafnframt krefjast þess að þm. séu svarnir trúnaðareiði um að segja ekki öðrum þm. frá málunum. Þetta gengur ekki. Það verður að vera einhver vinnuregla sem menn fara eftir og þeir geta ekki haft það á þennan hátt.