10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Allt það sem hér hefur komið fram snertir á einhvern hátt afgreiðslu fjárlaga og að sjálfsögðu störf þingsins. Síðast kom hæstv. sjútvrh. upp og talar um tímaskort og biður fólk um að afgreiða kvótafrv. þrátt fyrir þennan tímaskort. Ég get ekki með nokkru móti séð að það sé hægt. Bara frá Borgarafl. einum eru ótal athugasemdir og koma brtt. Það koma brtt. um gildistímann. Mér skilst að hann sé fjögur ár að ósk ráðherra. Við getum aldrei sætt okkur við meira en eitt ár Það kemur brtt. við 9. gr. sem snertir smábátaeigendur. Og við viljum fá umræður um norður-suður línuna sem ekki er í frv. en er þó í gildi. Það er alveg útilokað á síðustu stundu fyrir jólafrí og fyrir áramót að við í nafni tímaskorts hlaupum til og afgreiðum mál að vilja ráðherra. Það kemur ekki til mála. Það hefur ekki verið neinn tímaskortur. Málið hefur verið tafið af ráðherra til að skapa tímaskort, til þess að málið verði afgreitt, verði þrýst í gegn á síðustu stundu. Forsendurnar eru falskur tímaskortur og ekkert annað. Það hafa verið tvær nefndir starfandi í málinu og sú þriðja sem skipuð var núna fyrir skömmu, þingmannanefnd þeirra sem eru í sjávarútvegsnefndum var þriðja nefndin sem hefur starfað frá því að ríkisstjórnin tók við og jafnvel sumar áður en hún tók við.

Iðnrh. á eftir að svara mér. Ég á eftir að hefja langar umræður um upplýsingar um uppgjör Sjöefnavinnslunnar sem mér er ekki nokkur leið að skilja af fréttum og hélt ég nú að ég væri sæmilega vel inni í málinu. Ég geri ekki ráð fyrir að einn einasti þm., jafnvel ekki sá sem tók við af mér sem iðnrh., hafi hugmynd um hvað er að ske. Eða hvernig á að útskýra það við gerð fjárlaga núna að fyrirtæki sem er eina rannsóknarfyrirtæki þjóðarinnar er selt og ríkissjóður tekur á sig yfir 500 millj. eða meira og fyrirtækið gefur út 150 millj. kr. skuldabréf sem á að greiðast með 71/2% . . . (Forseti: Forseti vill vekja athygli á því að það eru til umræðu hér þingsköp en ekki efnisatriði einstakra mála.)

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fá botn í þetta mái. Þetta eru umræður sem eiga sér stað í sambandi við fjárlögin. Og ég vil þá spyrja: Hvernig ætlar fyrirtæki sem aldrei hefur sýnt hagnað í rekstri að borga 150 millj. kr. til ríkissjóðs fyrir sjálft sig gegn því að Hitaveita Suðurnesja, sem er nýbúin að taka við 1000 millj. kr. fyrirtæki frá Rafmagnsveitum ríkisins án þess að greiða pening, standi í skilum? Hvað er að ske þarna?

Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um hvers vegna á fjárlögum er ekki gert ráð fyrir tapi í sambandi við Útvegsbankann sem nú á að hætta við að selja. En sömu menn og bjóða, ekki sína eigin peninga, heldur peninga annarra, stjórna bankanum í dag, ekki samkvæmt ákvörðun Alþingis eins og áður var heldur samkvæmt ráðherraákvörðun, samkvæmt ákvörðun eins alþm. Þetta eru fíflalegar ráðstafanir! Og sá maður sem stendur í að kaupa fyrirtækið, kaupa Útvegsbanka Íslands hf. fyrir annarra peninga, er stjórnarformaður í dag. (Forseti: Forseti ítrekar að það er ekki leyfilegt að ræða neitt hér í þessum umræðum nema um þingsköp.) Já, þetta tilheyrir þingsköpum að mínu mati, hæstv. forseti, en ég skal koma mér út úr þessum umræðum og í þær umræður sem hér hafa verið og komið frá öðrum.

Hv. formaður fjvn. talaði um að fjárveitinganefndarmenn hafi ekki brotið trúnað. Ég sagði ekki að þeir hafi brotið trúnað. Ég ítrekaði að þeir hafa haldið trúnað þannig að jafnvel formenn flokka og samþm., sem þeir eru fulltrúar fyrir, hafi ekki fengið þær upplýsingar sem þeir hafa þurft til að vinna sem þm., en ríkisstjórnin hefur birt þessi trúnaðarmál í fjölmiðlum þjóðarinnar. Það er það sem ég var að geta um. Og hvaða trúnaðarmál eru þetta? Eftir að Alþingi er búið að fá frv. til fjárlaga til afgreiðslu, hefur afgreitt það til þingnefndar, tekur framkvæmdarvaldið að sér löggjafarvaldið og breytir frv. sem er í meðferð Alþingis um 1000 millj. og þessar 1000 millj. skipta ekki meira máli en svo að það er samt sem áður hallalaus ríkissjóður. Er það einhver furða þó að fram komi fsp. í fjvn., sem er að deila niður á kostnaðarliði tekjum ríkisins, um það hve við höfum miklar tekjur úr að spila? En nefndarmenn fá ekki svar. Er það ekki ábyrgt að vilja vita hverju við megum eyða áður en við förum út í eyðsluna?

Fsp. er ekki til að tefja framgang mála, eins og kom fram hjá hv. formanni fjvn. Hún er til þess að hraða málum því að á meðan ekki liggja fyrir upplýsingar fer ekkert mál í gegn. Ekkert! Ef stjórnarliðið ekki vill samstarf skal það fá andstöðu. Ef það vilI samstarf skulu þeir gefa upplýsingar sem þurfa að koma fram til þess að við getum starfað sem ábyrgir aðilar. Öðruvísi fá þeir ekkert samstarf og þá verður töf á afgreiðslu mála langt umfram það sem stjórnin ræður við.

Ég skal gera það fyrir hv. þingheim að lesa ekki Íslendingasögurnar. Þær eru líklega leiðinlegur lestur fyrir þm. sem hér hafa talað. Ég skal þá lesa upp frv., sem var verið að leggja hér fram, hægt og rólega þannig að allir geti skilið það þegar ég hef lokið því.

Það er rétt hjá hv. formanni fjvn. að stjórnarandstaðan leggur á sig mikla vinnu og það er stjórnarliðinu nauðsynlegt að hafa gott samstarf, en til þess verður stjórnarliðið að sýna samstarfsvilja. Það er ekkert annað sem liggur í fsp. borgaraflokksþm., sem borin er fram af okkar fulltrúa í fjvn., en að hafa þau gögn í höndum sem við þurfum að hafa til að geta veitt ykkur samstarf að svo miklu leyti sem hægt er að eiga við ykkur samstarf.

Virðulegur forseti. Ég gat um þrjú mál sem öll snerta afgreiðslu fjárlaga en eru ekki á dagskrá þessa fundar. Ég bið afsökunar á því að hafa komið að þeim. En þau eru stórmál og enginn þeirra ráðherra sem þau snerta sleppur við að svara fyrir afgreiðslu fjárlaga, hvað það þýðir að hundruð ef ekki þúsundir milljóna í þessum þremur málum koma á ríkissjóð plús 1000 millj. sem ríkissjóður hefur bætt við í meðförum fjárlaga núna án þess að halli verði á ríkissjóði.