10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er jafnan svo þegar dregur að jólaleyfi þm. að þá reynir mjög á samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu. Að þessu sinni má með nokkrum sanni segja að meira reyni á þetta samstarf en jafnan áður fyrir þá sök að með fjárlagafrv. nú fylgja fleiri og viðameiri tekjuöflunarfrumvörp sem tengjast fjárlagagerðinni sjálfri. Hér er um að ræða kerfisbreytingar í skattamálum sem tengjast tillögugerð í ríkisfjármálum og fjárlagafrv.

Það hefur komið fram af hálfu hæstv. fjmrh. í umræðum í þinginu að það sé að sönnu rétt að frumvörp svo umfangsmikil þyrftu, ef vel ætti að vera, að koma fram fyrr og hið háa Alþingi að hafa rýmri tíma. Ég tek undir þetta sjónarmið hæstv. fjmrh. og tel að sú gagnrýni sem fram hefur komið af hálfu stjórnarandstöðunnar um þetta efni sé um margt réttmæt. Á hitt er að líta að það hefur auðvitað tekið allnokkurn tíma að undirbúa slík frumvörp og það er skýringin á því hversu seint þau koma fram. En ég ítreka: að þessu sinni reynir meira á samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu en oft áður fyrir það hve hér eru umfangsmikil mál á ferðinni.

Það er venjulegt við afgreiðslu fjárlaga að ýmis mál, sem fjvn. hefur til meðferðar, koma til umfjöllunar í ríkisstjórn. Það er algilt gagnvart ýmsum liðum, sem hv. fjvn. fjallar um, að meiri hluti stjórnarflokka óskar eftir afstöðu ríkisstjórnar þegar slík mál eru til meðferðar. Ég ætla ekki að leggja dóm á hvort það hafi verið í ríkara mæli nú en oft áður, en jafnan hefur það verið svo að ríkisstjórn hefur sent fjvn. og óskað eftir því að meiri hluti stjórnarflokka kæmi fram ákveðnum breytingum eða héldi sig innan tiltekinna marka við breytingar á frv. Það er ekki nýlunda.

Hitt get ég tekið undir að það voru auðvitað mistök, þegar ríkisstjórnin um sl. helgi fjallaði um slík mál, að í einstökum atriðum var þar tilgreint hver tilmæli ríkisstjórnarinnar væru, að upplýsingar þar um í einstökum liðum voru tilgreindar í viðtölum við fjölmiðla áður en hv. fjvn. fékk þær upplýsingar. Undir gagnrýni um þetta get ég tekið. Hæstv. fjmrh. hefur fyrir sitt leyti þegar tekið undir þessa gagnrýni og beðist velvirðingar á því gagnvart forustumönnum stjórnarflokkanna í fjvn. á fundi sem við þrír ráðherrar áttum með þeim. Það er bæði rétt og skylt að koma þeirri afsökun á framfæri við hið háa Alþingi því að auðvitað er það rétt að eðlilegt hefði verið að slík tilmæli bærust fyrst hv, fjvn. áður en einstakar tölur í þeim bærust út.

Hitt er svo annað að ríkisstjórnin hefur ekki komið að því verki að skipta einstökum liðum niður á afmörkuð verkefni né heldur birt tölur þar um og því mega menn ekki rugla saman í þeim umræðum sem hér fara fram. En ég vildi vegna þeirra ummæla sem hér hafa átt sér stað koma þessu sjónarmiði á framfæri. Það er eðlilegt að viðhalda trúnaði í samskiptum þings og fjvn., ríkisstjórnar og fjvn. og ekki annað en sjálfgefið að viðurkenna mistök sem verða að þessu leyti til. Hitt er annað að það er fullkomlega eðlilegt að meiri hluti stjórnarflokka í fjvn. óski eftir afstöðu ríkisstjórnar, sem ber ábyrgð á fjárlagafrv., til einstakra útgjaldaliða og það er ekki nýlunda heldur hin almenna regla.

Varðandi tekjuáætlun kannast hv. þm. við að Þjóðhagsstofnum hefur metið tekjuáætlunina. Þær upplýsingar hafa jafnan komið fyrir 3. umr. fjárlaga. Fyrr sleppir Alþingi ekki hendi af frv. Það er engin nýlunda að þessar upplýsingar liggi ekki fyrir við 2. umr. Það er jafnan svo að endurmat Þjóðhagsstofnunar á þjóðhagsforsendum komandi árs liggur fyrir um miðjan desember og það endurmat hefur auðvitað áhrif á spár um tekjur ríkissjóðs og þær spár liggja jafnan fyrir áður en kemur til 3. umr. Það mun ekki verða neinn undandráttur á því að um leið og þær upplýsingar liggja fyrir fá hv. þm. þær í hendur. Auðvitað má segja að það sé óþénugt að slíkar upplýsingar liggi ekki fyrr fyrir, en þannig hefur vinnulagið verið um langa tíð og það vita hv. þm. að oft getur verið erfitt að meta með löngum fyrirvara hverjar eru líklegustu horfur um efnahagsþróun á komandi ári og verðlagsbreytingar.

En ég ítreka að af hálfu ríkisstjórnarinnar verður allt gert til að koma upplýsingum fram um leið og þær eru tiltækar og hv. þm. stjórnarandstöðunnar munu fá þær um leið og aðrir. Hér er ekki um að ræða að upplýsingum um þetta efni hafi verið haldið leyndum fyrir þm. stjórnarandstöðu en þm. stjórnarflokka haft þær undir höndum. Svo er ekki. Ef einhver misskilningur hefur verið uppi um það efni, sem ég trúi varla, er ástæða til að leiðrétta það.

Að lokum vil ég, herra forseti, ítreka það, sem ég sagði í upphafi, að auðvitað er það svo að nú mun mjög reyna á samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu um framgang mála. Það er ekki til þess ætlast að stjórnarandstaðan taki á nokkurn hátt ábyrgð á málum ríkisstjórnar, en svo sem venja er er vænst góðs samstarfs um framgang þessara mála og það reynir meira á það nú en oft áður vegna þess hversu umfangsmikil þau mál eru sem fylgja fjárlagafrv.