10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Við skulum vænta þess að sú langa þingskapaumræða sem hér hefur orðið verði til þess að málin liggi fyrir með öðrum og skilmerkilegri hætti fljótlega af hálfu forustu þingsins og ráðandi meiri hluta hér því að það er alveg ljóst að við þau vinnubrögð, sem er lagt upp með í byrjun þessa dags, verður ekki unað af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Ég ætla ekkert að fara að endurtaka af því sem ég sagði í fyrri ræðu minni um stöðu þessara mála. Það hafa komið fram ákveðin iðrunarmerki og yfirlýsingar frá hæstv. forsrh. og svo langt sem þær ná ber að þakka það og einnig frá formönnum í nefndum eins og hv. þm. Karvel Pálmasyni. En það reynir á það að skipuleggja þingstörfin með allt öðrum hætti og taka tillit til þess tíma sem við höfum til umráða.

Ég vil svo aðeins nefna það hér, sem kom fram í fyrri ræðu minni og var ein af mínum athugasemdum, að þm. hefur verið mismunað í sambandi við störf fjvn. Einstökum kjördæmahópum hefur verið mismunað í því efni og hafa verið gefnar rangar upplýsingar um það svigrúm sem menn hefðu til að skoða fram komnar tillögur af hálfu nefndarinnar síðdegis í gær, gert ráð fyrir því og krafist afgreiðslu í gærkvöld, en þessi mál eru enn þá á flugferð og til umræðu og ég hef óskað eftir því í hóp minna samþm. af Austurlandi að við njótum þar sama réttar og aðrir til að skoða mál og taka á þeim málum sem gert er ráð fyrir að við fjöllum um sérstaklega.

En ég vænti þess, herra forseti, að sá langi tími sem hefur farið í þessa umræðu leiði til bættra vinnubragða hér á næstu dögum.