20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

18. mál, viðskipti við Suður-Afríku

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda höfum við Íslendingar tekið þátt í samnorrænum aðgerðum til þess að gera okkar til aðkoma í veg fyrir framhald mannréttindabrota Suður-Afríku. Þannig var á fundi utanrrh. 17.–18. okt. 1985 undirrituð áætlun þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Norðurlöndin hafa ákveðið að beita sér fyrir eftirfarandi einhliða ráðstöfunum:

Að hvetja norræn fyrirtæki sem eiga verslunarviðskipti við Suður-Afríku að leita annarra markaða í þeim tilgangi að draga úr viðskiptum milli Norðurlanda og Suður-Afríku.“

Þetta var framkvæmt hér með bréfi frá þáv. viðskrh. dags. 7. apríl 1986 og sömuleiðis fóru fram viðræður við verkalýðssamtök sem gerðu sitt til að koma í veg fyrir viðskipti við Suður-Afríku.

Nú er það staðreynd sem hv. þm. benti a að það hefur orðið nokkur aukning á viðskiptum við Suður-Afríku á fyrri hluta þessa árs og veldur það mér áhyggjum ekki síður en hv. fyrirspyrjanda. Að vísu er kannski of mikið að segja að aukningin sé mjög mikil, a.m.k. í hundraðshlutum reiknað. Mér er tjáð að hlutfall útflutnings á fyrstu 8 mánuðum ársins sýni að útflutningur sé óbreyttur eða 0,07 þúsundustu af útflutningi okkar Íslendinga. Hins vegar er innflutningurinn 0,5 þúsundustu og hefur þá aukist úr 0,4 þúsundustu. Þetta eru þær hundraðshlutatölur sem ég hef fengið. Að sjálfsögðu hefur orðið töluverður vöxtur í erlendum viðskiptum okkar í heild og krónutölurnar sýna því eitthvað meiri aukningu á milli ára. Engu að síður vil ég taka fram að ég hefði kosið að sjá þessar tölur fara minnkandi.

Ég vil svo geta þess að í viðræðum sem fram hafa farið á milli Norðurlandanna hefur verið rætt um þessa þróun og að því er virðist lítil áhrif viðskiptatakmarkana eins og leitað hefur verið eftir. Norðurlöndin ákváðu því að setja viðskiptabann. Við Íslendingar höfum aldrei skrifað undir neitt samkomulag um slíkt. Því hefur fyrst og fremst valdið að við höfum ekki almennt verið hlynntir því, hvorki að fá á okkur viðskiptabann eða beita aðra viðskiptabanni. Ég vil þó taka það skýrt fram að persónulega tel ég að við eigum að gera allt sem við teljum að raunhæft sé til þess að a.m.k. sýna andstöðu okkar við þau grófu mannréttindabrot sem þarna eru framin. Ég hefði langhelst kosið að það yrði gert á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Á fundum, sem ég sem forsrh. átti með forsrh. Norðurlandanna um þessi mál, studdi ég mjög eindregið þá stefnu Svía að beita sér fyrir samþykkt í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í þessa veru. Því miður tókst aldrei að fá slíka samþykkt gerða. Svíar hafa því horfið að því ráði að setja á viðskiptabann með lögum.

Ég vil taka það fram að persónulega tel ég slíkt koma til greina, en þó verður maður að viðurkenna að það er sorglegt að horfa á hvernig slík lög eru þverbrotin í okkar nágrannalöndum. Ég hygg að allir viti að Norðmenn, þrátt fyrir lög, stunda víðtæk viðskipti við Suður-Afríku, flytja olíu fyrir Suður-Afríku, kaupa þaðan hráefni í sinn stóriðnað o.s.frv. og svipað er manni sagt að eigi sér einnig í raun stað í Svíþjóð. Ég hef því hugsað mér að skynsamlegra væri að fara þá leið að ítreka tilmæli okkar til inn- og útflytjenda, tilmælin frá 1986, og ræða á ný við verkalýðssamtökin um að draga nú myndarlega úr ef ekki loka alveg fyrir öll viðskipti við Suður-Afríku. Ég er fylgjandi því að loka alveg fyrir þau, vil heldur gera það með slíkum frjálsum samtökum en með lögum, og alveg sérstaklega ekki setja lög ef þau verða svo meira eða minna brotin og sniðgengin. Það má ekki eiga sér stað.