10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég átti ekki von á því að hæstv. forseti gæfi tilefni til þess að sömu umræður hæfust á ný, en ég sé fulla ástæðu til að mótmæla því sem kemur fram hjá forseta þegar hann gefur í skyn að það sé eðlilegt að ríkisstjórnin kalli fjárlagafrv. til baka inn til sín til að gera á því breytingar sem samkvæmt blaðafregnum eru upp á 1000 millj., að hluta til ákveðið af ríkisstjórninni, að hluta til skömmtun til fjvn., og tilkynnir um leið að þessar 1000 millj. kr. breytingar skipti engu fyrir niðurstöðutölur fjárlaga eða halla eða hallalausan ríkissjóð. Ég tel að það sé rétt hjá hæstv. forseta að ríkisstjórn geti gert tillögur til fjvn., en hún getur ekki tekið frv. frá löggjafarvaldinu sem framkvæmdarvald og breytt því að geðþótta. Því mótmæli ég og hæstv. forseti hlýtur að vera mér sammála. Ríkisstjórnin er ekkert annað en samtíningur af þm. í einn starfshóp og hefur ekkert meiri rétt, eftir að frumvörp eru komin á dagskrá og í þingnefndir, en hver annar þm. til að gera brtt. Hún hefur heldur ekki minni rétt. Ég vil að það komi fram að ríkisstjórn sem slík, sem framkvæmdarvald, hefur brotið af sér.