10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlan mín að teygja úr þessum umræðum, en ég lagði eina spurningu fyrir hæstv. forseta. Ég tel að það sé algerlega útilokað að klára þessi mál á þeim tíma sem er fram að jólum. Þm. ætla seinni partinn á morgun til forseta Íslands, að ég hygg, og það eru svo fáir dagar eftir að jafnvel þó að þetta yrði fram undir Þorláksdag er ekki nokkur leið að afgreiða mál eins og tollamálin nema þá að ríkisstjórnin og hæstv. forseti ætlist til þess að við gerum það alveg án þess að athuga þessi mál. Þá er alveg eins gott að senda þingið heim og láta ríkisstjórnina afgreiða þessi mál ef á að vinna þannig að það sé engin leið að skoða málin. Ég fullyrði að það er engin leið.