10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

17. mál, leiðbeinendur og stundakennarar í grunnskólum og framhaldsskólum

Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 17 leyfi ég mér að spyrja hæstv. menntmrh. um kennara og leiðbeinendur í skólum landsins. Á undanförnum árum hefur mikið verið fjallað um skólamál á Íslandi og á sl. ári bárust nokkrar skýrslur sem sýna fram á alvarlegt ástand í menntunarmálum þjóðarinnar.

Árið 1985 voru 19,6% stöðugilda við grunnskóla landsins skipuð leiðbeinendum, en í sumum landshlutum fór hlutfallið niður í 40%. Það vekur athygli mína í öðru svari sem mér hefur borist skriflega frá menntmrn. að einmitt í þeim landshlutum ná nemendur slökustum árangri á grunnskólaprófi. Þó ég vilji ekki fullyrða eða alhæfa í þessu máli gefur þetta trúlega einhverja vísbendingu um að óstöðugleiki sem skapast vegna örra kennaraskipta geti haft sín áhrif á nám nemendanna og árangur.

En sá skortur sem er á kennurum er auðvitað fyrst og fremst vegna þeirra slöku kjara sem þeim er boðið upp á og það er sérstaklega erfitt að fá kennara til starfa úti á landi. Það vekur auðvitað spurningarnar um jafnrétti barna þessa lands til náms. Það líður vart sú vika að ekki birtist í dagblöðum auglýsingar um lausar kennarastöður eða þá að umsóknarfrestur er lengdur.

Til að fá heildarmynd af stöðu mála leyfi ég mér að bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. menntmrh.:

„1. Hvert er hlutfallið milli grunnskólakennara og leiðbeinenda í fræðsluumdæmum landsins miðað við fullt stöðugildi annars vegar og fjölda kennara hins vegar?

2. Hvert er hlutfallið milli framhaldsskólakennara og leiðbeinenda í fræðsluumdæmum landsins miðað við fullt stöðugildi annars vegar og fjölda kennara hins vegar?

3. Hve margir stundakennarar á hvoru skólastigi fyrir sig starfa án kennsluréttinda?

4. Hve margir hinna réttindalausu stundakennara á hvoru stigi ná lægsta launaflokki kennara?

5. Hefur umsóknum fyrir leiðbeinendur verið synjað? Ef svo er, þá hversu mörgum?"