10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

144. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum og Kvikmyndaeftirlitið

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Kvikmyndaeftirlit ríkisins starfar samkvæmt lögum nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna, og lögum nr. 33/1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum. Við gildistöku seinni laganna bæði breyttist starfssvið Kvikmyndaeftirlitsins verulega og verkefni þess uxu mjög. Fram til þess tíma hafði skoðun kvikmynda eingöngu farið fram í kvikmyndahúsum en skoðun kvikmynda á myndböndum gerði það nauðsynlegt að eftirlitið fengi til umráða viðeigandi tækjakost og aðstöðu til myndbandaskoðunar. Skoðunarmönnum Kvikmyndaeftirlitsins er greitt beint fyrir skoðun í kvikmyndahúsum hverju sinni af kvikmyndahúsaeigendum. En fyrir skoðun myndbanda fá skoðunarmenn greitt tímakaup, þ.e. þannig að Kvikmyndaeftirlitið þarf að standa straum af þeim launum ásamt launum starfsmanns sem starfar í hálfu starfi við afgreiðslu og skrifstofustörf. Þar við bætist lágmarksskrifstofukostnaður, húsaleiga, símakostnaður, ræsting og fleira. Öllum kostnaði er þó haldið í lágmarki. Tækjakostur eftirlitsins er bágborinn. Flest húsgögn fengin að láni og ýmis smáútgjöld raunar greidd úr eigin vasa.

Vegna fjárskorts hefur Kvikmyndaeftirlit ríkisins ekki getað sinnt lögboðnum skyldum sínum eins og vera ber og starfsmenn vildu gjarnan. Á sama tíma er ólögmætur innflutningur, sala og dreifing myndbanda hérlendis svo mikil að Íslendingar eru taldir meðal þriggja mestu sjóræningjaríkja á myndbandamarkaði. Þessi ólögmæti innflutningur brýtur í bága við höfundaréttarlög, ákvæði hegningarlaga sem fjalla um bann við sýningu ofbeldiskvikmynda og klámmynda og lög um skil á söluskatti.

Í lögunum nr. 33/1983 er gert ráð fyrir að skoðun myndbanda standi undir sér fjárhagslega en í 2. gr. þeirra laga stendur, með leyfi forseta:

„Skulu innflytjendur, framleiðendur eða dreifingaraðilar og sýnendur kvikmynda kveðja skoðunarmenn til þess að skoða kvikmyndir áður en þær eru teknar til sýningar og greiða kostnað við skoðun þeirra samkvæmt reglum sem ráðherra setur.“

Af því sem ég áður sagði er ljóst að nokkur misbrestur virðist hafa orðið á framkvæmd þessara laga að því er varðar að fjármagna starfsemi Kvikmyndaeftirlitsins. Því hef ég gert fyrirspurn til hæstv. menntmrh. á þskj. 152:

„1. Hvernig hefur tekist til um framkvæmd reglugerðar um bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 800 1983, og reglugerðar nr. 235/1987, um skoðun kvikmynda hjá Kvikmyndaeftirliti ríkisins?

2. Hvernig eru fjárhagsástæður Kvikmyndaeftirlitsins?"