20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

13. mál, framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 13 hef ég borið fram svofellda fsp. til hæstv. samgrh. um undirbúning framkvæmda við Egilsstaðaflugvöll:

„1. Hvers vegna var ekki gengið til samninga við heimamenn um framkvæmdir við fyrsta áfanga nýs flugvallar á Egilsstöðum?

2. Hvernig er gert ráð fyrir að haga framkvæmdum við þennan áfanga, m.a. við verkbyrjun og verklok?

3. Hvenær gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að lokið verði framkvæmdum við Egilsstaðaflugvöll?"

Þetta er fsp. Ég rifja það upp að á síðasta þingi var samþykkt þáltill. sem heimilaði lántöku vegna framkvæmda við Egilsstaðaflugvöll og það var Austfirðingum og væntanlega landsmönnum öllum ánægjuefni að loks skyldi ákveðið að ráðast í þær framkvæmdir. Því miður er það svo að nú er komið haust og senn vetrarbyrjun og framkvæmdir eru ekki hafnar.

Hæstv. fyrrv. samgrh., Matthías Bjarnason, ákvað áður en hann lét af embætti að leitað skyldi samninga við heimamenn um 1. áfanga verksins. Sá sem við tók, hæstv. núv. samgrh. Matthías Á. Mathiesen, breytti þessari stefnu að því leyti a.m.k. að lyktir málsins urðu þær að hann hætti samningaumleitunum við heimamenn. Ég hef hér, herra forseti, fyrir framan mig fundargerð frá sameiginlegum fundi Flugmálastjórnar og fulltrúa Samstarfsfélags bíla- og tækjaeigenda á Héraði sem haldinn var í Hótel Valaskjálf 23. sept. 1987. Hún er örstutt og ég leyfi mér að vitna til hennar til glöggvunar a þessu máli. Þar segir:

„Samstarfsfélag bíla- og tækjaeigenda á Héraði hefur gert tilboð í framkvæmd L áfanga Egilsstaðaflugvallar sem hljóðar á 54 millj. kr. Samstarfsfélaginu er kunnugt um niðurstöðutölur í umfjöllun Almennu verkfræðiskrifstofunnar um fyrrgreindan verkþátt þar sem gert er ráð fyrir í markaðsspá að framkvæma megi 1. áfanga Egilsstaðaflugvallar fyrir 42–45 millj. kr. Enn fremur er gert ráð fyrir í fyrrgreindri umfjöllun að verkið gæti kostað um 48 millj. kr. ef notaðir eru taxtar Vegagerðar ríkisins og 54 millj. kr. ef notaðir eru taxtar vinnuvélaeigenda. Fulltrúar Samstarfsfélagsins lýsa því yfir að til greina geti komið að framkvæma 1. áfanga Egilsstaðaflugvallar fyrir 45–50 millj. kr. og leggja áherslu á að þeir eru reiðubúnir til frekari skoðunar og umfjöllunar á forsendum verksins og að kanna til hlítar hvort Samstarfsfélagið geti frekar nálgast forsendur þær sem Almenna verkfræðistofan hefur byggt á. Flugmálastjóri lýsir þeirri skoðun sinni að þessum hluta viðræðnanna við heimamenn samkvæmt bréfi fyrrv. samgrh. dags. 7. júlí 1987 sé nú lokið. Flugmálastjóri mun því á morgun [þ.e. 24. sept.] kynna niðurstöður þessa fundar bréflega fyrir samgrh. og óska ákvörðunar hans um hvort ganga eigi til samninga við heimamenn á fyrrgreindum forsendum, hvort bjóða eigi verkið út á almennum markaði.“

En hér fáum við væntanlega svar hæstv. starfandi samgrh.