10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

162. mál, fangelsisvist geðsjúkra

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Miðvikudaginn 25. nóv. sl. gat að líta frétt í einu dagblaðanna, nánar tiltekið DV, þar sem skýrt var frá því að fyrir kæmi að mjög erfiðir geðsjúklingar væru hafðir í fangageymslum lögreglunnar. Var fréttin staðfest af tveimur embættismönnum ríkisins, Tómasi Helgasyni, yfirlækni og prófessor, og Bjarka Elíassyni yfirlögregluþjóni.

Í tímaritinu Mannlífi, 7. tölubl. þessa árs, er ítarleg grein um nokkra geðsjúka menn sem framið hafa alvarleg afbrot en voru dæmdir ósakhæfir á sínum tíma. „Skógarmenn okkar tíma“ kallar greinarhöfundur þá, menn sem allir sitja í fangelsum án þess að hafa verið dæmdir til afplánunar og engar horfur eru á að þeir losni úr prísund sinni. Heilbrigðiskerfið neitar að veita þeim skjól eða þjónustu svo að fangelsin eru eina athvarf þeirra. Getur hver og einn gert sér angist þessara manna í hugarlund. Í umræddri grein kallar landlæknir þetta smánarblett á íslensku samfélagi og styðst vafalítið við þau hegningarlög sem Alþingi Íslendinga hefur sett.

Rannsóknarlögregla ríkisins hefur fyrir reglu að biðja um úrskurð um geðrannsókn á mönnum grunuðum um öll alvarlegri afbrot. Slíkur úrskurður hvílir á 15. gr. hegningarlaganna þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þeim mönnum skal eigi refsað sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma er þeir unnu verkið til að stjórna gerðum sínum.“

Landlæknir kynni einnig að styðjast við lög um heilbrigðisþjónustu nr. 59 frá 1983 sem hið háa Alþingi hefur einnig sett. 1. gr. þeirra hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita, til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Heilbrigðisþjónustan tekur til hvers kyns heilsugæslu, heilbrigðiseftirlits, lækningarannsókna, lækninga og hjúkrunar í sjúkrahúsum, læknisfræðilegs endurhæfingarstarfs“ o.s.frv., herra forseti.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu kemur einnig fram að landlæknir sé ráðunautur ráðherra um allt er varðar heilbrigðismál og annast hann framkvæmd tiltekinna málaflokka fyrir hönd ráðherra samkvæmt lögum, reglum og venjum er þar um gilda.

Í umræddu viðtali í tímaritinu Mannlífi segir landlæknir, með leyfi forseta: „Fram að þessu hafa því lög verið brotin á þessum sjúklingum. Það er okkur engin afsökun þótt í hópi ósakhæfra fanga finnist nokkrir sem sökum skapgerðarveilu séu taldir ólæknandi eða á mörkum þess að vera sjúkir.“

Árið 1979–1980 flutti þáv. hv. þm. Helgi Seljan ásamt fulltrúum allra þingflokka till. til þál. um úrbætur í geðheilbrigðismálum. Þar var m.a. lagt til í 6. lið þeirrar till. að í stað fangelsisvistar geðsjúkra kæmi viðeigandi umönnun á sjúkrastofnun. Till. hlaut samþykki þingsins, þó svo breytt að ekki voru tiltekin þau ákvæði sem í upphaflegu till. voru, (Forseti hringir.) heldur var samþykkt að skipa skyldi nefnd til að gera tillögur um úrbætur. — Ég skal stytta mál mitt, herra forseti.

Vissulega var skipuð nefnd fyrir tilstilli þáv. hæstv. heilbrrh., Svavars Gestssonar, m.a. var skipuð nefnd til að sinna sérstaklega þessu ákveðna verkefni, að finna lausn á vistunar- og þjónustumálum geðveikra afbrotamanna. Til þess veitti Alþingi á sínum tíma 2 millj. kr. og tillögum var skilað en þær hafa síðan aldrei verið notaðar til neins. Ég hef þess vegna, herra forseti, leyft mér að bera fram fsp. þær sem hér liggja fyrir á þskj. 175 til hæstv. heilbrrh. og hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. Telur ráðherrann það samrýmast lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 59/1983, að geðsjúkt fólk sé vistað í fangelsum eins og tíðkað er?

2. Hve margir geðsjúkir einstaklingar eru nú vistaðir í fangelsum þó að þeir hafi verið úrskurðaðir ósakhæfir vegna geðveiki?

3. Eru einhverjar aðgerðir fyrirhugaðar til þess að geðsjúkir einstaklingar, sem gerast brotlegir við lög vegna sjúkdóms síns, fái nauðsynlega læknismeðferð?"