10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

162. mál, fangelsisvist geðsjúkra

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 13. þm. Reykv. fyrir að vekja athygli á þessu máli sem hefur, eins og hæstv. dómsmrh. gat um réttilega, lent á milli stóla í kerfinu. Þetta er gamalt þrætumál. Það versta við málið er að það hefur líka verið gamalt þrætumál á milli heilbrrn. og dómsmrn. Menn hafa ekki komið sér saman og það er mjög alvarlegur hlutur þegar um svo viðkvæma einstaklinga er að ræða. Ég hygg að málið liggi þannig að það eigi ekki að bíða eftir því að byggt verði ríkisfangelsi. Ég tel að málið liggi þannig að taka eigi um það ákvörðun að sú deild sem lagt var til í áliti ákveðinnar nefndar að koma á fót og hæstv. heilbrrh. vitnaði til áðan geti tekið til starfa hið fyrsta í sérstöku húsnæði sem yrði útvegað í þessu skyni. Það er ekki sæmandi lýðræðislegu mannúðarþjóðfélagi að koma þessum hlutum fyrir eins og gert hefur verið um árabil.

Ég vil benda hæstv. ráðherrum á að þegar ég fór með heilbrigðismál fór ég fram á það við landlækni og hæstv. þáv. dómsmrh., sem setti í málið fulltrúa sinn úr dómsmrn., að farið yrði yfir þetta mál og skilað um það sérstökum tillögum. Nefndin klofnaði. Landlæknir gerði tillögur sem ég tel að hafi verið mjög brúklegar. En ég tek það fram að þær tillögur voru að sumu leyti í blóra við yfirstjórn geðspítala ríkisins, sem hefur satt að segja ekki verið allt of lipur í þessum efnum.

Ég vil fyrir mitt leyti fagna því að málið er komið hér upp og ég hygg að ég geti talað fyrir hönd okkar þm. Alþb. þegar ég segi að við séum tilbúin til að hjálpa til við að á þessu máli verði tekið. Það mætti hugsa sér að gera það strax á fjárlögum ársins 1988 því að tíminn er naumur séð frá sjónarhorni þess fólks sem býr við óviðunandi aðstæður í þessu efni.