10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

164. mál, Löggildingarstofa ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Á þskj. 178 flyt ég litla fsp. til dómsmrh. um þjónustu Löggildingarstofu ríkisins. Hún hljóðar einfaldlega þannig:

„Hvaða reglur gilda um ferðakostnað af þjónustu Löggildingarstofu ríkisins?"

Ég vil rekja með örfáum orðum ástæður þess að fsp. er flutt.

Löggildingarstofan er mikilvægt þjónustufyrirtæki. Eitt af verkefnum hennar er m.a. að sjá um viðhald og eftirlit á hafnavogum í eigu sveitarfélaga víða um land, en hafnavogir eru jafnnauðsynlegar og hafnirnar sjálfar. Það hefur verið kvartað mikið undan því hjá sveitarfélögum víða úti um land að ferðakostnaður vegna þessarar þjónustu sé himinhár. Þess vegna er spurt um hvaða reglur gildi um þennan kostnað þar sem það er líka kvartað undan því að þetta sé mjög mismunandi og sá kostnaður sé jafnvel enginn á suðvesturhorninu.

Ég hef undir höndum upplýsingar um að hjá einu litlu sveitarfélagi, sem þurfti að láta líta eftir hafnarvog sinni, voru vinnulaun vegna þessa eftirlits um 25 þús. kr., en þetta sveitarfélag þurfti að borga flugfargjald austur á land í þessu tilfelli og bílaleigubíl á staðinn og var sá kostnaður meiri en sá sem til féll vegna verksins sjálfs. Þess vegna er spurt hvaða reglur gildi um þennan kostnað, hvernig honum sé jafnað niður á þá aðila sem Löggildingarstofan hefur þjónustu fyrir, en þetta er ríkisfyrirtæki sem veitir þjónustu sem skylt er að veita skv. lögum.

Þetta er vissulega ekki stórmál og hér er ekki um miklar fjárhæðir að ræða e.t.v. á þann mælikvarða sem við erum að tala um þessa dagana í fjárlögum og öðrum lögum sem væntanlega eru til umfjöllunar hér, en eigi að síður er þetta lítið dæmi um aðstöðumun sveitarfélaga sem skapast af því að þjónustustofnanir ríkisins er staðsettar hér á þessu landshorni. Þess vegna hef ég flutt þetta mál inn í hv. Alþingi.