10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

169. mál, atvinnuleyfi erlendra leiðsögumanna

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Til mín hefur verið beint á þskj. 183 fsp. um atvinnuleyfi erlendra leiðsögumanna á Íslandi sem er í tveim töluliðum. Varðandi 1. tölul. fsp. vil ég taka fram eftirfarandi:

Framkvæmd laga nr. 26/1982, um atvinnuréttindi útlendinga, er að sjálfsögðu sú hin sama gagnvart erlendum leiðsögumönnum og viðhöfð er í sambandi við aðra útlendinga sem þurfa atvinnuleyfi hér á landi eftir því sem við getur átt. Á gildistíma laganna, þ.e. frá miðju ári 1982 til loka októbermánaðar sl., hefur ráðuneytið alls veitt 18 atvinnuleyfi vegna erlendra leiðsögumanna eða að meðaltali fjögur á ári. Umrædd atvinnuleyfi hafa verið veitt innlendum aðilum sem ýmist efna til hópferða fyrir erlenda ferðamenn á eigin vegum og kjósa af einhverjum ástæðum að nota erlenda leiðsögumenn eða eru umboðsmenn erlendra ferðaskrifstofa sem efna til hópferða hingað til lands.

Samkvæmt gildandi lögum um atvinnuréttindi útlendinga á Íslandi er hverjum manni, félagi eða stofnun, sem rekur atvinnu eða starfrækir fyrirtæki hverju nafni sem það nefnist, óheimilt að taka útlendinga í þjónustu sína gegn kaupgreiðslu í peningum eða hlunnindum, hvort heldur er um langan eða skamman tíma, án leyfis félmrh. Augljós tilgangur laganna er sá að koma í veg fyrir að einstaklingar, félög eða stofnanir starfandi hér á landi ráði í sína þjónustu útlendinga án leyfis stjórnvalda.

Skv. 9. gr. umræddra laga getur félmrh. veitt útlendingi leyfi til að starfa sjálfstætt eða starfrækja atvinnufyrirtæki, þ.e. svonefnt atvinnurekstrarleyfi, og er útlendingur, sem slíkt leyfi fær, að sjálfsögðu bundinn af ákvæði laganna hvað snertir ráðningu útlendinga í sína þjónustu. Sé starfsemin rekin samkvæmt sérstakri löggildingu eða leyfi annars stjórnvalds þarf leyfi félmrh. ekki að koma til.

Það sem hér hefur verið rakið gildir um útlendinga, þ.e. einstaklinga sem ekki hafa íslenskan ríkisborgararétt. Um réttindi lögaðila til atvinnustarfsemi hér á landi fer hins vegar eftir lögum um einstakar atvinnugreinar og félagalögum, einkum hlutafélagalögum, sem ekki heyra undir félmrn. að öðru leyti en því að ráðuneytið hefur talið sér skylt að veita lögaðila, sem fengið hefur leyfi annars stjórnvalds til starfsemi sinnar, atvinnuleyfi fyrir útlendinga með sama hætti og sömu skilmálum sem innlendum aðilum.

Eins og fram kom í máli mínu um veitt atvinnuleyfi vegna erlendra leiðsögumanna hafa flest leyfin verið veitt innlendum ferðaskrifstofum eða innlendum umboðsmönnum erlendra ferðaskrifstofa. Nokkur brögð eru talin vera að því að erlendar ferðaskrifstofur efni til hópferða hingað án samstarfs við innlendar skrifstofur né umboðsmenn. Þessar erlendu ferðaskrifstofur koma með eigin leiðsögumenn, en kaupa hér þjónustu af hótelum og flutningsfyrirtækjum. Reynt hefur verið að leita lausnar á þessu vandamáli í samvinnu félmrn. og samgrn. sem fer með ferðamál. Í því skyni var m.a. haldinn fundur í félmrn. með fulltrúum frá Félagi leiðsögumanna þann 27. nóv. sl. þar sem það var sameiginleg niðurstaða að lagður hefði verið grundvöllur að lausn málsins.

Að lokum skal tekið fram að ljóst er að það er alls ekki á valdi félmrn. að veita lögaðilum atvinnurekstrarleyfi, sbr. 9. gr. laganna. Jafnljóst er að þurfi erlendar ferðaskrifstofur atvinnurekstrarleyfi og verði þeim veitt slík leyfi af þar til bærum stjórnvöldum verða þær að sækja um atvinnuleyfi fyrir erlenda starfsmenn sem þær kjósa að hafa í þjónustu sinni hér á landi, leiðsögumenn sem aðra.

Í 2. tölul. fsp. er spurt: Hvernig er gengið úr skugga um að erlendir leiðsögumenn, sem hér starfa, þekki lög og reglur sem gilda um umgengni við landið? Því er til að svara að þessi síðari hluti fsp. fjallar um efni sem ekki fellur undir verksvið félmrn. heldur samgrn. með vísan til laga nr. 60 31. maí 1976, um skipulag ferðamála.