20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

13. mál, framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin lýsi ég þeirri skoðun minni að ég tel að mjög illa hafi tekist til í þessu máli. Það liggur fyrir að engu munaði í raun á kostnaðaráætlun Almennu verkfræðistofunnar og hugmyndum þeim sem fram komu og bókaðar voru í áðurnefndri gjörð beggja aðila 23. sept. sl., þ.e. að semja um þessa framkvæmd fyrir 45 millj. kr. Það er tala sem Samstarfsfélagið nefnir og það er tala sem kemur fram í kostnaðaráætlun Almennu verkfræðistofunnar fyrir verkið. Það er í rauninni með öllu óskiljanlegt hvers vegna flugmálastjóri vill slíta þessum viðræðum þegar aðilar hafa nálgast með þessum hætti sem liggur fyrir. Auðvitað var það hins vegar spurning um pólitískan vilja til þess að ná samningum og sá vilji var greinilega ekki til staðar hjá þeim samgrh. sem tók við af hæstv. fyrrv. samgrh. Því er það svo að komið verður fram á hávetur þegar líklegt er að framkvæmdir hefjist samkvæmt almennu útboði sem stendur yfir.

Halda menn að tilhögun af þessu tagi verði til þess að lækka kostnaðinn við gerð Egilsstaðaflugvallar? Framkvæmd unnin um hávetur og Lagarfljót ísi lagt og það á að leggja m.a. veg um bakka þess og styrkja bakkann. Maður hlýtur að spyrja: Hvers konar afglapaháttur er hér á ferðinni? Hér er hætt miklu til varðandi opinbert fé, en það er ekki síður alvarlegt, herra forseti, að hér er í reynd verið að hverfa frá þeirri eðlilegu stefnu að leita eftir samkomulagi við aðila heima fyrir með ákveðnum viðmiðunum varðandi verk. Á Austurlandi er sáralítið um opinberar framkvæmdir. Þær hafa dregist mjög saman. Stórframkvæmdir sem þar voru eitt sinn ráðgerðar, m.a. við kísilmálmverksmiðju, eru hvergi í sjónmáli. Tækjaeigendur, vinnuvélar og tæki og mannafli bíða heima í fjórðungi eftir verkum. Auðvitað munu þeir spreyta sig í almennu útboði, vafalaust, og vona ég að þeir fái verkið þrátt fyrir það sem hefur gerst. En þarna er rangt að málum staðið.

Herra forseti, að lokum: Ég ætla ekki að fara að lesa upp úr dagblaðabunka sem ég er með, úrklippur varðandi þetta mál, en ég er með Morgunblaðið frá 6. okt. sl. þar sem koma fram yfirlýsingar tveggja þm. Austurlands, annar er ráðherra, hinn fyrrv. ráðherra. Hæstv. sjútvrh. segir þar: „Matthías átti að semja við heimamenn“, en hv. þm. Sverrir Hermannsson segir: „Ráðherra gerir rétt.“ Sínum augum lítur greinilega hver á silfrið, en ég tel að orðið hafi hrapalleg mistök varðandi þetta mál þó að við vonum að það verði ekki framkvæmdinni í heild til varanlegs tjóns.