10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

171. mál, landshlutaútvarp Ríkisútvarpsins

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Vesturl. hefur beint til mín eftirfarandi fsp.: „Hvenær má vænta þess að búið verði að setja á stofn útibú frá Ríkisútvarpinu í þeim landshlutum sem enn hafa ekki sitt eigið landshlutaútvarp?"

Ég vísaði fsp. þessari til útvarpsstjóra og vil nú lesa upp svar hans um þetta mál:

„Í útvarpslögum nr. 68/1985 segir svo í 16. gr, um landshlutaútvarp á vegum Ríkisútvarpsins: „Ríkisútvarpið skal stefna að því að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og hljóðvarps í öllum kjördæmum landsins.“

Þegar í ársbyrjun 1985 voru hafnar tilraunasendingar í svæðisútvarpi til Eyjafjarðabyggða og næsta nágrennis á vegum Ríkisútvarpsins á Akureyri. Þessi starfsemi hefur gefið góða raun, mælst mjög vel fyrir meðal notenda og er útvarpað tvisvar á dag á dreifikerfi Rásar 2, 30 mínútur að morgni og ein klukkustund síðdegis virka daga, en nokkru lengur síðdegis á laugardögum og á sunnudagsmorgnum.

Ríkisútvarpið á Akureyri hefur frá því 1982, er reglubundin starfsemi var hafin nyrðra, lagt drjúgan skerf af mörkum til dagskrárgerðar fyrir Ríkisútvarpið í heild og mun halda því áfram. Hjá Ríkisútvarpinu á Akureyri eru níu starfsmenn.

Árið 1985 var hafinn undirbúningur að því að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar á Egilsstöðum, leigt húsnæði fyrir hana og ráðinn starfsmaður til dagskrárgerðar og fréttaöflunar á Austurlandi. Útsendingar í svæðisútvarpi fyrir Austurland hófust hinn 19. nóv. sl. og eru fyrst um sinn 30 mínútur tvo daga í viku. Sent er út á dreifikerfi Rásar 2.

Árið 1986 var starfsmaður ráðinn til dagskrárgerðar og fréttaöflunar á Vestfjörðum með aðsetri á Ísafirði og húsnæði tekið á leigu. Unnið hefur verið að því að afla nauðsynlegustu tækja til dagskrárgerðar vestra. Hjá Ríkisútvarpinu er ráð fyrir því gert að svæðisútvarp fyrir Vestfirði verði næst á verkefnaskrá þó að tímasetningar séu óráðnar vegna mikillar óvissu um fjárhagsstöðu stofnunarinnar í næstu framtíð. Af þeim sökum eru heldur engar áætlanir uppi um uppbyggingu svæðisútvarps í öðrum landshlutum. Áhersla verður hins vegar lögð á að fá framlag úr öllum landshlutum í aðaldagskrá Ríkisútvarpsins, einkanlega á Rás 1, og annast lausráðið dagskrárgerðarfólk þá þáttagerð.

Sú stefna hefur verið mörkuð að dreifikerfi Rasar 2 verði notað til svæðisbundinnar útsendingar á jafnlangri dagskrá og á sömu tímum dagsins í öllum landshlutum. Allverulega breytingu þarf að gera á núverandi dreifikerfi til að markmiðum svæðisútvarps sé náð miðað við kjördæmaskipun í landinu. Skipulag dreifikerfisins hefur mótast af hagkvæmustu tæknilegum úrlausnum en ekki félagslegri samstöðu íbúanna í kjördæmum eða landsfjórðungum.“

Undir þetta ritar Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri og hef ég engu við þetta svar hans að bæta.