10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

171. mál, landshlutaútvarp Ríkisútvarpsins

Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. greinargóð svör hans og fagna því að það skuli vera í bígerð að efla þessa starfsemi úti á landsbyggðinni. Það kom reyndar fram að það á að senda út eftir dreifikerfi Rásar 2, en fyrr í haust kom fram í fsp. sem ég bar fram að það eru ekki nærri nógu margir sem ná þeim útsendingum. Það eru um 2000 notendur um landið, einkanlega þá úti á landi, t.d. bæði á Norðurlandi eystra og í Dalasýslu. Þar verður vonandi ráðin bót á. En með því að færa starfsemi Ríkisútvarpsins að hluta til út fyrir borgarmörkin er þessi mikilvægi menningar- og fréttamiðill okkar kominn nær íbúum landsbyggðarinnar. Með stofnun landshlutaútvarps er öruggt að Ríkisútvarpið mun ná betur þeim markmiðum sínum sem um er getið í 15. gr. núgildandi laga, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Útvarpsefnið skal miða við fjölbreytni íslensks þjóðlífs. Veita skal alla þjónustu sem unnt er með tækni útvarpsins og þjóðinni má að gagni koma.“

Þá er í lögunum einnig ákvæði um að Ríkisútvarpið skuli halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana og það er öruggt að með því að færa útvarpið nær fólkinu má betur ná fram þessum markmiðum.

Kvennalistinn lagði á síðasta kjörtímabili fram frv. til útvarpslaga. Í því var gert ráð fyrir að stórefla og styrkja stöðu Ríkisútvarpsins og tryggja því einkarétt til útsendinga. Mikilvægan lið í því töldum við vera að setja upp svæðisbundnar stöðvar og sérstaka notendarás. Hvað svo sem fólki finnst nú um frjálsa fjölmiðlun verður æ ljósara að full þörf var á að styrkja Ríkisútvarpið áður en flóðbylgja frelsisins reið yfir. Það er áhyggjuefni hve illa gengur að afla fjár til reksturs Ríkisútvarpsins þannig að það geti sinnt hinu mikilvæga hlutverki sínu. Frændur okkar í nágrannalöndunum voru forsjálli en við og stóðu vel að uppbyggingu ríkisfjölmiðlanna áður en frjálsar stöðvar voru leyfðar.

Í DV 2. des. sl. kemur fram að fjármálastjóri Ríkisútvarpsins telur reksturinn þungan meðan forsvarsmenn annarra stöðva láta vel af sínum. Það veldur því áhyggjum að nú skuli fyrirhugað að skerða markaða tekjustofna Ríkisútvarpsins. Ekkert getur komið í stað Ríkisútvarps okkar sem menningar- og fréttamiðils allra landsmanna. Í svæðisbundnum stöðvum er hægt að fjalla um staðbundin mál og miðla ákveðnum upplýsingum til íbúa á einstökum svæðum, auk þess sem þeir eiga meiri möguleika á að leggja fram sitthvað til dagskrárgerðarinnar. Því vil ég vona að áfram verði haldið mjög ötullega við þessa uppbyggingu og einskis látið ófreistað til að gera veg Ríkisútvarpsins sem mestan.