10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

172. mál, fræðsluútvarp Ríkisútvarpsins

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Vesturl. hefur beint til mín eftirfarandi fsp.: „Hvaða áætlanir eru um starfrækslu fræðsluútvarps Ríkisútvarpsins í samvinnu við fræðsluyfirvöld?"

Því er til að svara að ég óskaði eftir því að fá frá útvarpsstjóra umsögn um þessa fsp. og frá honum hefur borist svofellt svar:

„Í útvarpslögum nr. 68/1985 segir svo í 16. gr.: „Ríkisútvarpið skal starfrækja fræðsluútvarp í samvinnu við fræðsluyfirvöld og skal veita til þess fé á fjárlögum.“

Fyrrv. menntmrh. Sverrir Hermannsson skipaði í febrúar 1986 nefnd til að kanna hvort hagkvæmt væri að hefja fjarkennslu hér á landi og ef svo væri, með hvaða hætti. Nefndin skilaði áliti sínu í febrúar 1987 og lagði til í fyrsta lagi að skipuð yrði framkvæmdanefnd til þess að koma á skipulegri fjarkennslu hér á landi. Í öðru lagi var nefndin sammála um að tímabært væri og æskilegt að hefja fjarkennslu hér á landi á eftirfarandi sviðum:

a. Kennaramenntun. Hér yrði um að ræða endurmenntun fyrir grunn- og framhaldsskólakennara og réttindanám kennara í samvinnu við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla.

b. Móðurmálskennslu fyrir almenning.

c. Fræðslu um tölvur fyrir almenning.

d. Fræðslu um vinnslu og meðferð sjávarafla. Framkvæmdanefnd um fjarkennslu var skipuð í júní 1987. Í bréfi formanns nefndarinnar, Jóns Torfa Jónassonar lektors, til undirritaðs dags. 13. okt. segir m.a.:

„Fjölmargir aðilar hafa hugmyndir um nýtingu útvarps og þá einkum sjónvarps til fjarkennslu og sumir þeirra hafa þegar tiltækt efni sem hentar til sýningar í sjónvarpi í tengslum við kennslu. Aðrir hafa slíkt efni á prjónunum eða hafa fullan hug á að gera slíkt ef ljóst er að farvegur er fyrir efni. Meðal þessara aðila eru Námsgagnastofnun, Háskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands og Fræðslumiðstöð iðnaðarins. Ástæða er til að ætla að margir fleiri kæmu til sögunnar ef hægt væri að opna tiltölulega greiða leið fyrir myndefni. Sem dæmi má nefna hugmyndir um fjarkennslu í íslensku á framhaldsskólastigi, kennslu í stærðfræði á sama stigi og kerfisbundna tölvufræðslu sem yrði einnig tengd framhaldsskólunum.“

Í bréfi Jóns Torfa Jónassonar lektors segir enn fremur:

„Nefndin telur eftirsóknarvert að menntastofnanir fái aðgang að sjónvarpi en þó einkum sjónvarpi til útsendinga utan þess útsendingartíma sem nú er notaður, t.d. 2–4 tíma á viku frá næsta vori. Nefndin óskar eftir afstöðu Ríkisútvarpsins til þessarar hugmyndar og óskar jafnframt eftir viðræðum um það með hvaða hætti mætti skipuleggja samstarf um fjarkennslu í útvarpi og hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla svo að af því gæti orðið.“

Á fundi útvarpsráðs hinn 30. okt. sl. var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

„Útvarpsráð fagnar því að undirbúningur að fjarkennslu er hafinn og lýsir sig reiðubúið til viðræðna um með hvaða hætti best verði að henni staðið, m.a. með hliðsjón af þeirri greinargerð um fræðsluútvarp sem Ríkisútvarpið hefur þegar látið vinna um þessi mál í samræmi við ákvæði útvarpslaga. Útvarpsráð vill jafnframt vekja athygli á að í útvarpslögum er tekið fram að til starfrækslu fræðsluútvarps skuli koma sérstakar fjárveitingar af hálfu Alþingis þannig að fjármagn til almennrar dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins skerðist ekki.“

Ríkisútvarpið er reiðubúið til samstarfs við framkvæmdanefnd um fjarkennslu, en af hálfu stofnunarinnar er talið henta að nýta útsendingartíma í dreifikerfi Rásar 2 að kvöldlagi eða að degi til um helgar og í sjónvarpinu eru miklir möguleikar til nýtingar dreifikerfisins utan venjulegrar dagskrárútsendingar.

Að endingu skal áréttað ákvæði útvarpslaga þar sem kveðið er á um sérstaka fjárveitingu á fjárlögum til fræðsluútvarps og telur Ríkisútvarpið útilokað að bæta á sig þjónustu vegna fræðsluútvarpsreksturs öðruvísi en að því verði ætlað sérstakt viðbótarfjármagn til að standa undir þessum kostnaði.“

Undir þetta bréf til mín ritar Markús Örn Antonsson sem hann samdi, eins og ég gat um, í tilefni af þessari fsp.

Við svar útvarpsstjóra er því að bæta að í fjárlagafrv. fyrir árið 1988 er gert ráð fyrir 6 millj. 335 þús. kr. fjárveitingu til fjarkennslu og er sá liður settur undir Háskóla Íslands þar sem fjarkennslunefndin hefur starfað á hans vegum, en það hefur skýrt verið tekið fram að þessi fjárveiting er til fjarkennslu og getur farið til stofnana sem slíka fjarkennslu munu annast, þar á meðal til Ríkisútvarpsins.

Ég hef fylgst með starfi framkvæmdanefndar um fjarkennslu og látið í ljós vissar óskir um forgangsröðun verkefna. Sjálfur hef ég áhuga á að kennsla í íslensku eða móðurmálskennsla hafi forgang. Ég tel að grundvöllur sé fyrir því, ef fjárlagafrv. nær fram að ganga með þessum lið, að hefja fjarkennslu þegar á næsta hausti og að því verður unnið.