10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

174. mál, málefni óperusöngvara

Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur orðið afar ánægjuleg þróun á ýmsum sviðum tónlistarmála hérlendis. Einna mesta eftirtekt hefur eflaust vakið sú mikla gróska sem verið hefur í flutningi óperutónlistar bæði á vegum Íslensku óperunnar og Þjóðleikhússins.

Við Íslendingar höfum löngum átt óperusöngvara sem skarað hafa fram úr og haslað sér völl á erlendum óperusviðum með miklum glæsibrag. Hafa þeir áunnið sér aðdáun og virðingu allra Íslendinga. Undanfarin ár hefur bæst í hóp söngvara hér á landi fjöldi vel menntaðs ungs fólks sem stundað hefur alvarlegt söngnám heima og erlendis og hefur hug á því að lifa á list sinni hér á landi. Samt er það þannig að óperusöngvarar, sem hafa með sér sérstaka óperudeild innan Félags íslenskra leikara, búa nú einir sviðslistamanna við algert öryggisleysi um atvinnumál sín, enda vinna þeir flestir fulla vinnu á öðrum vettvangi en stunda sönglistina í aukavinnu.

Engu að síður hefur óneitanlega verið lyft grettistaki í þessum málum á undanförnum árum, mestmegnis með fórnfúsu starfi fjölmargra einstaklinga, ekki síst söngvaranna sjálfra. En meðal þessara aðila hefur undanfarin missiri mikið verið rætt um hvernig unnt sé að skipa þessum málum til framtíðar þannig að framhald geti verið sem glæsilegast á þessari merku menningarstarfsemi. Í framhaldi af þeim umræðum beitti óperudeild Félags íslenskra leikara sér fyrir ráðstefnu dagana 15.–16. nóv. 1986 um framtíðarskipulag óperumála á Íslandi og í framhaldi af þeirri ráðstefnu skipaði þáverandi hæstv. menntmrh. Sverrir Hermannsson sérstaka nefnd til að huga að þessum málum og gera tillögur um hvernig unnt sé að skipa þessum málum til framtíðar og um það hvernig starfstilhögun og atvinnuöryggi óperusöngvara gæti verið betur tryggt en nú er.

Því hef ég borið fram eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh., með leyfi forseta: „Hvað líður störfum nefndar sem skipuð var fyrr á þessu ári og fékk það verkefni að gera tillögur um bætta starfsaðstöðu og atvinnuöryggi óperusöngvara?"