10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

176. mál, staðgreiðslulán vegna sauðfjárafurða

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykn. beinir til mín spurningum um staðgreiðslulán vegna sauðfjárafurða.

Staðgreiðslulán sauðfjárafurða 1985 voru 450 millj., 1986 510 millj. Það liggur ekki enn þá fyrir útreikningur á því kjötmagni sem veita á lán út á á þessu hausti. Það hefur enn þá staðið á upplýsingum frá sláturleyfishöfum til þess að hægt væri að reikna það til fulls, en það liggur fyrir að þau verði afgreidd með sama hætti nú og undanfarin ár.

Lánin voru veitt árin 1985 og 1986 þegar er þær upplýsingar lágu fyrir sem ég nefndi, útreikningur á því magni sem lána þurfti út á, og það mun einnig verða gert svo nú á þessu hausti. En það er ekki enn þá ljóst hvenær þessir reikningar liggja fyrir vegna þess að upplýsingar vantar eins og ég sagði eða hafa gert það alveg fram að þessu.

Upphæð staðgreiðslulánanna var umsamin í upphafi þannig að þau ásamt afurðalánum gerðu sláturleyfishöfum kleift að greiða bændum fullt grundvallarverð og standa undir þeim hluta sláturkostnaðarins sem þeir höfðu ekki fjármagn til sjálfir.

Á síðasta verðlagsári hefur innheimta staðgreiðslulána farið í gegnum þá banka sem veita afurðalán vegna kindakjötsbirgða og þau gjaldfalla þá á sama hátt og afurðalánin. Lán þessi eru vaxtalaus fram að þeim degi sem þau gjaldfalla þar sem þar með lækkar vaxtakostnaðurinn sem ríkið hefur greitt niður. En út frá því var gengið við ákvörðun þessa máls í upphafi.

Tryggingar fyrir staðgreiðslulánunum eru að sjálfsögðu það kjöt sem lánað er til, en síðan er það rétt, sem kemur fram í 7. spurningunni, að sé ekki að fullu búið að standa við endurgreiðslu þeirra er þeim skuldajafnað þannig að sláturleyfishafa, sem ekki hefur gert upp að fullu, eru þá að sjálfsögðu aðeins greiddar viðbætur í samræmi við það sem hann á að fá miðað við það afurðamagn sem hann hefur undir höndum.