10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

196. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér fyrr í dag, um það leyti sem hæstv. fjmrh. tók til máls til að mæla fyrir þessum skattlagningarfrv. Alþfl., óskuðum við eftir því, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, að það yrði rætt um þessi mál með býsna aðgreindum hætti samkvæmt þingsköpum, enda þótt við gerum okkur það ljóst að þessi mál tengjast með ýmsum hætti, en þá töldum við að það væri eðlilegt að fara yfir málin hvert fyrir sig.

Nú hefur það hins vegar gerst að hæstv. fjmrh. hefur kosið að halda sömu ræðu og hann hefði ella haldið, vera ekki neitt að hlusta á röflið í stjórnarandstöðunni, ganga yfir hana í þessu efni. Í tilefni af því og öðrum tíðindum sem eru að gerast í þinghúsinu á þessum klukkutímum óskum við eftir því, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í hv. Ed. Alþingis, að umræðum um þetta mál verði frestað, fundinum verði frestað og skapað svigrúm til þess að okkar fulltrúar í hópi formanna þingflokka og forseta þingsins geti rætt um þinghaldið áfram þannig að hér verði ekki haldið áfram með þeim hætti sem gerst hefur á undanförnum klukkutíma þegar hæstv. fjmrh. hefur virt þær óskir, sem við höfum borið fram, að vettugi. Þess vegna fer ég fram á það fyrir hönd stjórnarandstöðunnar í þessari virðulegu deild við hæstv. forseta að hann fresti nú þegar fundi og kveðji saman fund formanna þingflokkanna og forseta þingdeilda til að fjalla nánar um störf þingsins.