10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

196. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir góðar undirtektir við þau tilmæli sem hér hafa verið flutt og sömuleiðis hv. 2. þm. Norðurl. e. fyrir góðar undirtektir og vænti þess að þessi viðbrögð séu til marks um að okkur takist sem best að klóra okkur í gegnum þann frumskóg sem málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar er orðinn á þessu þingi. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er hluti af stóru skattadæmi sem nú er til meðferðar. Hæstv. fjmrh. kaus í umræðunum fyrir kvöldmatinn að fara nokkuð vítt yfir sviðið og er kannski eðlilegt að svara því með því að fara nokkuð vítt yfir sviðið líka hér af minni hálfu, ræða almennt um skattheimtuna. Ég áskil mér þó rétt til að ræða um vörugjald og tolla í einstökum atriðum undir síðari dagskrárliðum, en mun efnislega fjalla almennt um þessi skattheimtumál og um söluskattinn sérstaklega.

Ég vil byrja á því að vekja athygli á eftirfarandi staðreyndum um skattahækkanir ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar:

1. Þegar ríkisstjórnin var mynduð var ákveðið að leggja á skatta sem námu 1000 millj. kr. á árinu 1987 og 3700 millj. kr. á árinu 1988.

2. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram var þessum forsendum breytt og bætt við 2000 millj. kr. Samtals voru skattar ríkisins þá taldir nema 24,8% af landsframleiðslu eða 59 milljörðum 564 millj. kr.

3. Nú er talið samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá Þjóðhagsstofnun í dag að skattar á næsta ári verði 26% af landsframleiðslu og hækki því frá því að fjárlagafrv. var lagt fram um 2880 millj. kr. til viðbótar við það sem áður var komið. Heildarskattlagning ríkisstjórnarinnar, sem ákveðin hefur verið frá 8. júlí sl., nemur því samtals á verðlagi fjárlaga 8580 millj. kr.

Frá því að ríkisstjórnin tók við, herra forseti, eru liðnir rétt um fimm mánuðir. Þannig nema skattar frá því að stjórnin tók við um 1716 millj. kr. á mánuði eða 57 millj. á dag frá því að ríkisstjórnin tók við.

En það má líka hafa annan hátt á til samanburðar. Segjum að launamaður hafi hálfa milljón króna í árstekjur. Þá þarf liðlega 17 þúsund launamenn til að vinna fyrir þeirri skattahækkun sem núv. ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun um frá því að hún tók við. Þannig lítur þetta dæmi út: 8580 millj. kr., hæsta hlutfall skatttekna af vergri landsframleiðslu sem um getur á 19 ára bili sem ég hef fengið tölur um.

Mér hafa í dag borist upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um heildartekjur ríkissjóðs 1978–1988. Þar er miðað við greiðslugrunn og verðlag hvers árs og fyrir árið 1988 er miðað við forsendur fjárlaga eins og þær liggja núna fyrir. Þar kemur fram að 1979 voru skatttekjur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 24,2%, 1980 23,4%, fór hæst 1982 í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens í 24,5%, síðan í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 22,1%, 22,5%, 21,7%, 21,9% og á næsta ári munu skatttekjur sem hlutfall af landsframleiðslu verða 24,7%, þ.e. þær munu slá það met sem ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens setti á árinu 1982 við mikið erfiðari aðstæður í þjóðarbúskapnum en nú er um að ræða. Á því ári var um að ræða verulegan samdrátt í tekjum ríkisins, verulegt efnahagslegt áfall sem þjóðin varð fyrir. Núna, eftir þetta mikla góðæri, liggur það fyrir að fyrstu skattatillögur Alþfl., sem hér er verið að ræða um, hækka skattana í landinu upp í hæsta hlutfall af vergri landsframleiðslu sem verið hefur á 18 ára tímabili. Það er ástæða til að óska Sjálfstfl. sérstaklega til hamingju með þann mikla árangur í því að lækka skatta og draga úr samneyslu sem hér birtist og það er einnig ástæða til að veita þeim hamingjuóskum til Alþfl. líka vegna þess að talsmenn Alþfl. og Sjálfstfl. hafa á undanförnum árum og áratugum eða allt frá því í viðreisnarstjórninni lagt á það höfuðáherslu í efnahagsmálum að það bæri að draga úr skattheimtu. (HBl: Sem rétt er. ) Sem rétt er, segir hv. 2. þm. Norðurl. e. og formaður fjh.- og viðskn. Ed., og væntanlega mun hann vinna samkvæmt því þegar málið kemur til meðferðar í þeirri hv. nefnd.

Hér er m.ö.o. um að ræða kaflaskipti og ég tel að þær byrðar, sem með þessum sköttum er verið að leggja á almenning í landinu, séu í rauninni beinlínis hættulegar vegna þess að hér er verið að ganga lengra á skömmum tíma en við þekkjum nokkur dæmi um áður þegar kaupmáttur kauptaxta t.d. af því að ég nefndi árið 1982 er mun lægri en hann var á því ári.

Þessar tölur nefndi hæstv. fjmrh. ekki í ræðu sinni áðan. Hann lagði ekki saman skattatillögur núv. ríkisstjórnar og skattaákvarðanir. Hann greindi ekki frá því hvað matarskatturinn þýðir fyrir ríkissjóð á næsta ári. Það komu engar upplýsingar fram um það í hans annars löngu ræðu. Ræða hans fjallaði mest um tæknilegar útfærslur, ýmiss konar tæknilegar útfærslur á söluskatti, tollum og vörugjaldi. Það er athyglisvert hvað þessi annars vaski stjórnmálamaður hefur á skömmum tíma tekið mikinn lit af hinu þurra embættismannakerfi sem hefur aðeins eitt svar við vandamálum, einföldun, samræming, einföldun, samræming, burtséð frá því hvað það kostar almenning. Hver er matarskatturinn á næsta ári? Hver er hann? Af hverju sagði hæstv. fjmrh. ekki frá því hver matarskatturinn er? Heildarhækkun á matvörum vegna söluskattsbreytingarinnar í tíð núv. ríkisstjórnar nemur á næsta ári 5750 millj. kr. Þetta er tala sem ég bar undir hæstv. fjmrh. uppi í fjmrn. fyrir nokkrum dögum og hana féllst á. Þetta er sá skattur sem lagður er beint á allar matvörur í landinu. Og allir þurfa að borða. Líka lágtekjufólk, aldraðir og öryrkjar svo að dæmi séu nefnd. Og það breytir engu í þessu sambandi þó að hæstv. ráðherra reyni að bjarga sér á hundasundi með því að tala um einföldun og samræmingu. Það sem blasir við þessu fólki er að það er verið að hækka stórkostlega og sérstaklega skattana á þeim sem þurfa að eyða stærstum hluta tekna sinna í matvörur og það er láglaunafólkið í landinu. Svo þykjast þessir menn vera í jafnaðarmannaflokki.

Með þessari ákvörðun um matarskattinn er verið að taka um það ákvörðun að taka til baka ákvörðun vinstri stjórnarinnar haustið 1978 um að afnema að fullu söluskatt af matvælum. Ég tel að hér sé um að ræða ákaflega varasama ákvörðun. Ég tel að út af fyrir sig geti það verið rétt og skynsamlegt að einfalda hluti og fækka undanþágum, en ég segi: Forustumaður í jafnaðarmannaflokki á að byrja á fyrirtækjunum. Hann á að byrja á því að fella niður frádráttarliði fyrirtækjanna. Það gerir hann ekki. Það eru engar tillögur uppi um það hér enn af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. fjmrh.: Hvenær kemur frv. um fyrirtækjaskattana til hv. Alþingis til meðferðar?

Hvernig lítur þetta dæmi út gagnvart almenningi á fyrri hluta ársins 1988? Það lítur í fyrsta lagi þannig út að söluskattur er lagður á matvörur sem nemur 5750 millj. kr. Allar matvörur hækka að jafnaði að sögn ríkisstjórnarinnar um 7%. Söluskatturinn sem átti að vera 22% verður 25%. Af hverju er það? Það er m.a. vegna þess að hæstv. viðskrh. er þeirrar skoðunar að það taki því ekki að lækka söluskatt úr 25 í 22%. Það muni svo litlu í verðlaginu að enginn taki eftir því og það verði ekki nokkur leið að fylgja því eftir. Þetta var yfirlýsing hæstv. viðskrh. í fjölmiðlum í gærdag. Hann telur að þessi lækkun muni ekki skila sér. En ég kem nánar að því hér á eftir, hvað þá með allt hitt, allar hinar lækkanirnar, allar hinar breytingarnar, vörugjaldið, tollurinn á öllum mögulegum vörum og ómögulegum sem meiningin er að breyta verði á samkvæmt frumvörpunum sem hér verða á dagskrá í kvöld.

Í fyrsta lagi lítur þetta þannig út gagnvart almenningi: söluskattur á matvörum.

Í öðru lagi liggur fyrir að skattabyrði beinna skatta sem hlutfall af tekjum greiðsluárs mun hækka um nærri því 1/4 milli áranna 1987 og 1988 samkvæmt opinberum tölum sem fyrir liggja og enginn hefur vefengt.

Í þriðja lagi liggur það fyrir samkvæmt upplýsingum fjmrh. að útsvör sveitarfélaganna munu hækka að raungildi á árinu 1988, ef svo fer fram sem horfir, um allt að 10%.

Í fjórða lagi liggur fyrir að fasteignamat á öllum íbúðum í landinu hækkar milli áranna 1987 og 1988 um 100 milljarða kr., þar af 50 milljarða kr. umfram hækkun byggingarvísitölu. Taki sveitarfélögin fasteignagjöld af þessari umframhækkun á sama hátt og þau taka nú þýðir það mörg hundruð millj. kr., kannski um 500 millj. kr., í aukin fasteignagjöld. Fasteignagjöld eru sem kunnugt er a.m.k. hér í Reykjavík innheimt í tveimur áföngum, í janúar og maímánuði ef ég man rétt, og er alveg ljóst að ráðstöfunartekjur heimilanna munu af þessum ástæðum öllum skerðast mjög verulega frá því sem er á þessu ári.

Í fimmta lagi mun það einnig hafa áhrif á fjárhag almennings og ráðstöfunartekjur heimilanna að það hefur verið ákveðið að taka upp staðgreiðslukerfi skatta og verður byrjað að taka af mönnum strax í janúarmánuði, sama mánuði og á að greiða hærri fasteignagjöld en áður. Þeir sem skulda, þeir sem hafa lent í húsnæðiserfiðleikum, t.d. á undanförnum árum, hafa notið verulegs vaxtafrádráttar, hefðu dregið þann vaxtafrádrátt með sér frá árinu 1986 yfir á árið 1988 samkvæmt gamla kerfinu. Núna fer þetta fólk ekki að njóta vaxtaafsláttar frá sínum sköttum fyrr en á síðari hluta ársins 1988.

Þetta eru fimm atriði, fimm efnisleg rök sem fjmrh. í ræðu sinni áðan annars mjög langri kom ekki inn á, en þau sýna að ráðstöfunartekjur heimilanna á árinu 1988 munu skerðast verulega frá árinu 1987, sérstaklega á fyrri hluta ársins 1988. Ég skora á hæstv. fjmrh. í umræðunum á eftir að svara þessum röksemdum efnislega. Ég er tilbúinn til að hafa í þessu efni eins og öðrum það sem sannara reynist, en ég hef tekið eftir því að þegar stjórnarliðar eru að kynna þessar skattlagningartillögur, sem hér liggja fyrir, reyna menn alltaf að tala út frá kerfisbreytingunni, kerfið, kerfið, kerfið, samræming, einföldun, en að menn tali út frá almenningi í landinu, sem verður að vinna fyrir þessum ósköpum, kemur ekki fyrir.

Hæstv. fjmrh. sagði áðan að sú einföldun sem hér er verið að gera tillögu um mundi þýða 2000 millj. kr. í bættri skattheimtu og vitnaði þar til álits skattanefndarinnar. Mér fannst þetta býsna athyglisvert og í samræmi við þessa yfirlýsingu mun ég fyrir mitt leyti beita mér fyrir því að þessar álögur, sem hér standa á blaði, verði lækkaðar um sömu upphæð vegna þess að í þessum tölum er hvergi gert ráð fyrir betri innheimtu söluskattsins. Hann er allur framreiknaður eins og hann hefði verið lagður á eftir gamla kerfinu án þeirrar margumtöluðu samræmingar og einföldunar sem núna er verið að setja geislabaug á í fjmrn.

Þegar þessi mál eru skoðuð í heild eru rökin bara ein, einföldun, samræming. Í þessum frumvörpum er hvergi gert ráð fyrir auknum jöfnuði lífskjara í landinu, hvergi, vegna þess að það liggur fyrir samkvæmt frv. um tekju- og eignarskatt, sem liggur fyrir Nd., að það er gert ráð fyrir að hátekjumenn lækki meira í sköttum en þeir sem eru með miðlungstekjur.

Í þessum tillögum og frumvörpum eru engin ákvæði sem benda til þess að ríkisstjórnin ætli með myndugum hætti að tryggja að þessar verðlækkanir skili sér til neytenda. Hvaða tryggingar höfum við fyrir því? Ætli við þekkjum ekki tilraunirnar sem gerðar hafa verið í þessum efnum á liðnum árum og hvernig það hefur komið út? Þar hefur það ekki gerst að þessar verðlækkanir hafi skilað sér til almennings í landinu. Og það eru engar tillögur um það af hálfu hæstv. fjmrh. Hann viðurkennir ekki einu sinni þennan möguleika í sinni framsöguræðu sem þó er gert í greinargerð með frv. sem embættismennirnir hafa samið. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. og þar með ríkisstjórnina í þessu máli: Hvað á að gera til að tryggja þetta? Ég treysti því ekki að verslunin skili lægra vöruverði sjálfkrafa án verulega herts eftirlits. Ég er þar ekki að fara með illu orði að þeim sem starfa við verslun í þessu landi. Reynslan sýnir ósköp einfaldlega að þegar um svona margvíslegar, flóknar mismunandi og oft mjög litlar hreyfingar er að ræða á einstökum vörum í verðbólguástandi kemur þetta ekki til fólksins. Því vil ég segja við hæstv. fjmrh.: Ég treysti ekki tölum hans um að hækkun framfærsluvísitölu verði núll við þessar ákvarðanir. Það mætti út af fyrir sig ræða í þessu samhengi líka, en ég get gert það síðar í kvöld: Hvaða áhrif hefur þessi ákvörðun á stöðuna á hinum almenna vinnumarkaði í landinu? Hvaða áhrif hefur það á stöðuna á hinum almenna vinnumarkaði þegar verið er að taka matarskatt upp á 5750 millj. kr.? Ætli það verði auðveldara fyrir verkalýðshreyfinguna að gera samninga nema þá hún geri samninga um það í janúar eða febrúar að taka þessa vitleysu alla af, en það hefur hún iðulega gert, rekið menn til baka með svona endileysu. Ég er sannfærður um það að þessi vinnubrögð Alþfl. hafa mjög slæm áhrif á stöðuna á hinum almenna vinnumarkaði og þau gera það svo að segja útilokað að hægt sé að semja um kaup og kjör fyrr en séð er hvaða áhrif þessar ráðstafanir hafa úti í þjóðfélaginu. Ég hef ekki orðið var við það að fjmrh. hefði nokkrar áhyggjur af því, ekki milligram, ekki talaði hann um það í þessari býrókratísku embættismannaræðu sem hann flutti hérna áðan.

Í þessum frumvörpum er fullyrt að margvíslegar hliðarráðstafanir séu gerðar. Það á að leysa vandann með því m.a. að halda áfram niðurgreiðslum og stórauka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðir upp á 1250 millj. kr. Ég segi það alveg eins og er að ég skil alla umræðu um þessi mál núna síðustu dagana þannig að núv. ríkisstjórn líti á þessa niðurgreiðsluhækkun sem tímabundna ráðstöfun og það sé ætlunin að skerða þessar niðurgreiðslur. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt í tilefni af þessu fyrir þá sem þykjast bera hag bænda fyrir brjósti, eins og núv. ritari þessarar deildar og fyrrv. ritari Nd. þykjast gera, þá tel ég óhjákvæmilegt að á það verði látið reyna að það niðurgreiðslustig, sem verið er að bæta við í tengslum við þetta söluskattsfrv., verði lögfest. Ég mun bera upp till. um það að þessir bændavinir fái að sýna hug sinn í verki með því að standa þannig að málum að þessi niðurstaða verði lögfest. Ég veit að þeir treysta núv. fjmrh. nákvæmlega jafnilla og ég í þessu efni og vita að það dugir ekkert á hann nema böndin, lagaböndin í þessu efni. Við skulum sjá hvað þeir gera þá. En ætli þeir viti ekki eins og er að það á að taka þetta aftur. Þess vegna er búið svona losaralega um þessa hluti. Og það er líka sagt: Það á að hækka barnabætur og hækka ellilífeyri. Engar tillögur liggja fyrir um útfærsluna á því af hálfu ríkisstjórnarinnar og ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. upplýsi þegar í umræðunni um þetta fyrsta mál hvernig ríkisstjórnin hyggst útfæra hækkun barnabóta og ellilífeyris skv. þessum yfirlýsingum.

Ég gæti sagt margt fleira um þetta mál, herra forseti, m.a. það að framkoman við þingið er alveg ofboðsleg. Hún er alveg yfirgengileg. Hæstv. ráðherra baðst að vísu afsökunar á sjálfum sér hér áðan í þessu efni. Það er út af fyrir sig gott að hann hafi sómatilfinningu að þessu leytinu til a.m.k., sem ég dreg svo sem ekkert í efa að hann hafi. En þessi framkoma á sér að mínu mati engar hliðstæður í þingsögunni að reynt sé að breyta svo að segja öllu skattakerfi ríkisins með afgreiðslu hér í þinginu á sjö dögum eða svo. Það eru engin dæmi um það. Engin. Það kann vel að vera að menn hugsi sem svo: Látum stjórnarandstöðuna bara fá þetta í hausinn. Keyrum yfir hana. Rúllum yfir hana og göngum frá henni hér í þinginu á næstu dögum. En skyldi það ekki vera þannig að þessir menn eins og formaður Alþfl. ættu að bera virðingu fyrir lýðræðinu og þingræðinu og verða hugsað til þess að einn góðan veðurdag og sennilega fljótt, ef hann heldur eins áfram og hann hefur gert til þessa, þá mun hann lenda í stjórnarandstöðu á nýjan leik? Þá verður hans þjónusta í Arnarhvoli afþökkuð af þjóðinni. Skyldi það ekki vera þessum mönnum, sem eru núna svona uppfullir af valdasperringi eins og ráðherrar Alþfl. eru þessa dagana, skyldi það ekki vera hollt fyrir þá að hugsa um það að einn góðan veðurdag lýkur þessu nú og þá verða þeir að taka tillit til hinna almennu leikreglna sem venjulegt fólk í landinu verður að sætta sig við? Og skyldi mönnum aldrei detta það í hug, þó að mönnum sé illa við stjórnarandstöðuna og í nöp við hana og þm. stjórnarandstöðunnar, kemur það þá ekki fyrir að mönnum detti það í hug að verið sé að ofbjóða þm. stjórnarflokkanna? Eru þeir sáttir við þessi vinnubrögð? Eru þeir ánægðir með þessa niðurstöðu? Telja þeir eðlilegt, þm. Sjálfstfl., að láta reka ofan í kokið á sér 8600 millj. kr. skattahækkun hér á nokkrum dögum? Segja menn bara amen og hallelúja og já takk? Er enginn maður með sjálfstæða hugsun eða a.m.k. virðingu fyrir leikreglum lýðræðisins í þingflokki Sjálfstfl., Alþfl. eða Framsfl.? Getur það verið að menn séu svo gjörsamlega heillum horfnir að þeir signi sig bara og segi já takk þegar svona löguðu er hellt yfir þá?

Ég hef orðið var við það hér í bakherbergjum og kaffistofum að vissir ágætir menn hér í þinginu í stjórnarliðinu eru með innantökur út af þessum ósköpum. En ætli það væri þá ekki rétt að menn tækju sig til og skoðuðu þessi mál aðeins betur? Hvaða læti eru þetta? Af hverju þarf að hvolfa þessu öllu yfir þjóðina núna á nokkrum dögum? Hún hefur haft þessi tollalög, sem við ræðum um seinna í kvöld, um nokkurt skeið. Skyldi hún ekki þola þau eins og í tvo til þrjá mánuði í viðbót? Ætli það verði héraðsbrestur og móðuharðindi þó að það yrði nú? Ja, þvílík áþján hafa þá ekki þessi lög verið ef menn þurfa endilega núna dagfari og náttfari fyrir jólin að steypa þessu hér yfir þingið!

Ég vil segja fyrir hönd okkar þm. Alþb.: Er það ykkar skoðun, hv. stjórnarliðar í þessari virðulegu deild, að það eigi að keyra málið í gegn núna á þessum dögum, allar þessar skattahækkanir án þess að málið fái eðlilega skoðun? — Vegna þess að ég segi við ykkur, þm. stjórnarflokkanna: Þið vitið ekki nákvæmlega hvað stendur í þessum plöggum. Þið vitið lítið um það sumt vegna þess að þið eruð nýbúnir að fá þetta, rétt eins og við fengum þetta hér á okkar borð í gær. Ætlið þið að láta þetta yfir ykkur ganga? Og ég segi af okkar hálfu þm. Alþb.: Við lýsum fullri ábyrgð á hendur ykkur í þessu efni, Jóns Helgasonar, Karvels Pálmasonar, Þorvaldar Garðars Kristjánssonar, Halldórs Blöndals, Eyjólfs Konráðs, Salome Þorkelsdóttur og Egils Jónssonar. Við lýsum fullri ábyrgð á hendur ykkar í þessu efni. (KP: Hvað með forseta vorn.) Ég gæti talið upp fleiri Karvel minn, hv. þm., ef nauðsyn krefur því það eru enn þá fleiri í Alþfl. en þú. Þið berið þessa ábyrgð. Þið eruð að leggja þetta á þjóðina. Þið eruð að leggja þessi vinnubrögð á þingið. Það er ykkar mál. Þið skuluð fá að bera þennan kross ein og hjálparlaust ef þið kjósið að gera það með þessum hætti.

Ég ætla þessu næst, herra forseti, að víkja aðeins sérstaklega að frv. um söluskatt, breyt. á l. nr. 10 1960, um söluskatt með síðari breytingum. Ég vík fyrst að nokkrum efnisatriðum þess.

Því er haldið fram að nú sé verið að fækka stórkostlega undanþágum, það sé verið að grisja þær og einföldunin, samræmingin tryggi skilvirkni. Það er nýtt slagorð Alþfl.: Skilvirkni x-A. Hvaða undanþágur eru þetta svo sem verið er að fella niður og hvaða undanþágur eru settar á áfram? Hvaða undanþágur ætli sé sérstaklega brýnt að hafa áfram í söluskattinum, herra forseti? Það eru afruglarar. Það er alveg sérstaklega nauðsynlegt að afruglarar séu áfram undanþegnir söluskatti. Það á auðvitað að leggja söluskatt á matvörur og einfalda og tryggja skilvirkni. En afruglarar skulu vera á sínum stað. Soðningin verður með söluskatti. Það verður fróðlegt þegar hæstv. ráðherra fer að setja upp búðarkassa hér hjá honum Birni vini mínum á Grímsstaðaholtinu sem stundum selur grásleppu niðri í miðbæ. Hann á að taka söluskatt. Fisksalarnir hérna í Reykjavík eiga að taka söluskatt. Sá sem selur manni fisk við bryggju á að taka söluskatt. Þetta skyldi þó ekki verða til þess að það yrði aðeins erfiðara fyrir hæstv. sjútvrh. að tryggja það að trilluhornin rói ekki eftir fiski? Menn hafa nú fundið leiðir til annars eins og þess að losa sig við söluskatt á soðningu hér í landinu. (Gripið fram í: Það held ég nú.) En það er nauðsynlegt að fella niður söluskatt á afruglurum. Ég ætla að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvaða skilvirknirök eru fyrir því að afruglarar verði áfram söluskattslausir þegar maturinn er með söluskatti? Hvaða rugl skyldu þeir hafa fundið upp í fjmrn. í þeim efnum?

Í þessu frv. er einnig gert ráð fyrir því að nokkrar vörur verði teknar undir söluskatt og þjónusta umfram það sem verið hefur og fleira en matvæli. Frá því greinir í þessari setningu, sem ætti skilið að komast í bókmenntirnar, á bls. 11 í frv. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þær undanþágur sem hafa verið við lýði en falla nú niður eru þessar: Aðgangseyrir að gufubaðsstofum, nuddstofum, ljósastofum, heilsuræktarstofum svo og að útisamkomum og að sýningum á íslenskum kvikmyndum svo og vélbinding heys.“

Við sem komum aðeins nálægt landbúnaði þekkjum það eins og hv. þm. Egill Jónsson að í seinni tíð er það þannig með bændur að ef það bilar bindivél á bæ þá fer maður til með bindivélina sína og bindur fyrir nágranna sinn og kemur rétt fyrir að menn taka nokkra aura fyrir bindinguna. Til að fræða fjmrh. kannski þá taka menn eins og nokkrar krónur á bagga. Samkvæmt þessu eiga þessir bindivélaeigendur allir að koma sér upp búðarkössum til að tryggja það að þetta skili sér í ríkissjóð. — Herra forseti, ég sóttist lengi eftir því í mínum þingflokki að komast í Ed. Herra forseti, ef ég mætti biðja mér hljóðs. (Forseti: Má ég biðja hv. þdm. að hafa hljóð.) (SkA: Þurfa þetta að vera færanlegir kassar?) Það sem ég ætlaði að segja, hv. 4. þm. Vesturl. er það að ég gerði lengi tilraun til þess að komast í Ed. í mínum þingflokki og það tókst naumlega. En ég sé að ég hef valið rétta deild. Ég finn það nú.

En þessir búðarkassar sem á að koma upp á heybindivélum skv. tillögu ríkisstjórnarinnar til að tryggja skilvirkni í söluskattsstigum, það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þetta hjá hæstv. fjmrh. og þess vegna spyr ég hann til viðbótar við afruglarana sem eiga að vera söluskattslausir: Af hverju á vélbinding heys að vera með söluskatti? Og af hverju á soðningin að vera með söluskatti? Er honum sérstaklega í nöp við þá starfsemi eða hvað á þetta að þýða? Gufubaðsstofur, nuddstofur, ljósastofur, heilsuræktarstofur. Hvað gefur þetta í ríkissjóð? Hæstv. ráðherra hlýtur að geta svarað því. Hvað gefur þetta í ríkissjóð? Og útisamkomur. Það er sjálfsagt feitur biti þó að þeir séu hættir að halda framsóknarmótin. Og sýningar íslenskra kvikmynda. Hvað gefur það í ríkissjóð? Ég legg þessar spurningar formlega fyrir ráðherra og ég óska eftir því að hann svari þeim á þessari kvöldstund.

Ég vil þessu næst víkja að öðru ákvæði frv. þar sem frá því er greint að fella eigi niður úr söluskattslögunum ákvæðin um það að tiltaka sérstaka prósentu í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Eins og kunnugt er hefur það verið í söluskattslögunum frá upphafi að það hefur átt að greiða 8% af söluskatti í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Nú er þetta ákvæði fellt niður og sagt að það sé nægilegt að hafa það inni, þetta ákvæði í lögunum um Jöfnunarsjóð. Ég er ósammála þessu. Ég tel að þetta mikilvæga atriði eigi að vera inni í lögunum um söluskatt áfram og mun kanna undirtektir við það í hv. nefnd hvort menn geta fallist á það að setja þetta inn í lögin um söluskatt svo sem verið hefur. En ég tel að það sé ekki nægilegt að búa svo um hnútana að þetta sé eingöngu inni í lögunum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Ég tel, herra forseti, að þetta frv. um söluskatt sé í fyrsta lagi ranglátt vegna þess að það leggst þyngst á þá sem minnst hafa launin. Í öðru lagi horfir það ekki til þeirrar einföldunar sem hæstv. fjmrh. vill vera láta vegna þess að hann er að undanþiggja alls konar hluti áfram skv. þessu frv. Í þriðja lagi tel ég að þessar ráðstafanir séu þannig að það sé ekki tryggt að þær skili sér í heild í lægra verðlagi. Þvert á móti tel ég að verðlag muni hækka. Þegar á heildina er litið þá er einnig ljóst að hæstv. fjmrh. hefur sjálfur ekki trú á því að þetta skili sér betur í ríkissjóð því að hann reiknar ekki með krónu í betri innheimtu í þessu plaggi eins og það lítur hér út þó hann segði sjálfur að þetta nýja kerfi gæti þýtt 2000 millj. kr. í viðbót í ríkissjóð í betri innheimtu. Hann hefur ekki meiri trú á því en svo að hann reiknar ekki með því í þessu plaggi.

Allt ber þetta því að sama brunni. Þetta er í rauninni ekki einföldun. Þetta er leitun að skattstofni sem fólk neyðist til að nota, það eru matvörur, ef það vill á annað borð lifa. Þetta þýðir ekki aukið réttlæti, þetta þýðir ekki aukna skilvirkni, vegna þess að áfram er undanþeginn fjöldi vara og þjónustugreina sem fjmrn. hefur engin tök á að tryggja. Hér er á ferðinni frv. sem er fyrst og fremst til marks um stjórnunargleði þeirra manna sem fyrir skömmu, eftir 17 ára útlegð, gengu inn í ríkisstjórn þessa lands. Þess vegna væri ríkisstjórninni helst sæmandi að draga þessi plögg öll til baka eða gefa þingheimi kost á því að ræða þau með eðlilegum hætti næstu daga, bera okkur saman um hvað þetta þýði, hvort þessar undanþágur séu endilega þær réttu, hvort það séu til atriði sem ætti að skattleggja, hvort ekki sé leið til að lækka skattprósentuna, fara yfir þetta lið fyrir lið. Það er engin ástæða til að vinna þessi mál með þeim hætti sem hér er lagt til. Þess vegna lýsi ég fyrir okkar hönd yfir andstöðu við þetta frv. eins og það er, og andstöðu við vinnubrögðin sem höfð eru í frammi vegna þess að ég tel að þau feli í sér lítilsvirðingu við þessa samkomu, Alþingi Íslendinga.