10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

196. mál, söluskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Þessar umræður hafa verið fróðlegar, athyglisverðar um sumt. Það vakti athygli mína að við upphaf umræðna virtist nokkur taugatitringur í mönnum og höfð voru uppi mótmæli við því að við reyndum að spara okkur tíma með því að ræða þessi mál nokkuð í samhengi og reynt að hafa uppi andmæli við því að eðli málsins samkvæmt væri rétt að ræða þau í samhengi. En sú kerfisbreyting sem hér er boðuð, breytingar á tollum, vörugjaldi og söluskatti, er að sjálfsögðu ein allsherjar kerfisbreyting á óbeinum sköttum og þess vegna ákaflega eðlilegt að hún sé rædd í slíku samhengi. Enda fór það svo að mótmælendur sáu að sér og hafa að sjálfsögðu farið út um víðan völl og rætt allt í einni bendu eins og ásakanir voru uppi um að fjmrh. hefði gert, þ.e. menn hafa kosið, eðlilega, að ræða hér öll frv. og ekki bara um tolla, vörugjald og söluskatt, heldur líka um virðisaukaskatt, sem boðaður er, þannig að um það virðist út af fyrir sig ekki lengur vera ágreiningur. (Gripið fram í: Nú mótmæli ég ráðherranum.) Það er alveg ástæðulaust að mótmæla því því að ég hef setið hér og hlýtt með athygli á þessar umræður og menn hafa í ræðum sínum haft þetta allt saman undir og reyndar margt annað. Og ég geri enga athugasemd við það. Ég er prýðilega ásáttur .... (Gripið fram í.) Ég var að tala um umræðurnar. Ég var ekki að tala við hv. þm.

Í annan stað er líka fróðlegt að hafa í huga að hverju hv. stjórnarandstæðingar beina sjónum sínum og hvað það er sem þeir kjósa að ræða ekki. Nú skal ég segja það enn og aftur að ég ber fulla virðingu fyrir þeim sjónarmiðum stjórnarandstöðu þegar hún gagnrýnir það hversu seint þessi mál eru fram komin, enda baðst ég velvirðingar í þessum ræðustól á mínum hlut í þeim málum. Tímaáætlunin raskaðist, það er staðreynd, við hvern sem er að sakast og fram undan er gífurlega mikið vinnuálag, meira en góðu hófi gegnir. Það hefur hins vegar líka komið fram hjá hv. ræðumönnum að þetta er ekki af forakt á þingræðum. Þetta er ekki af meinbægni við stjórnarandstöðuna eða illum vilja, enda kom það fram í máli nokkurra hv. ræðumanna að það væri í raun og veru líkt á komið með stjórn og stjórnarandstöðu að þessu leyti. Og rétt er það að þær ákvarðanir, sem liggja til grundvallar útfærslu þessarar kerfisbreytingar í heild, lágu ekki fyrir í endanlegri mynd fyrr en við lok síðustu viku og voru þá kynntar af þeim gögnum sem tiltæk voru liðsoddum stjórnarandstöðunnar sama morguninn og þær voru ræddar við forustumenn þingflokka stjórnarflokkanna. Hitt er svo annað mál að þingflokkar stjórnarliða höfðu tækifæri til að tilnefna menn til þess að fylgjast með þessari vinnu fyrr þannig að það er þá eina forskotið sem þeir hafa umfram hv. stjórnarandstæðinga. Að því leyti til erum við öll sameiginlega í þeim vanda að mikið verk liggur fyrir þingi, en það hefur ekki verið gert upp á milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu, þannig að sú tilfinning sem maður hefur af málflutningi þeirra að stjórnarmeirihlutinn sé hér af ásettu ráði að sýna stjórnarandstöðu fyrirlitningu eða yfirgang er ekki sanngjörn. Með þessum orðum er ég ekki að draga í land með það að auðvitað er sú staðreynd hversu seint málin eru fram komin vandi fyrir þingið og vítaverð vinnubrögð.

Þá skulum við, með leyfi hæstv. forseta, snúa okkur að nokkrum þeirra mála sem til mín var beint og sérstök ástæða er til að ræða. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í hv. deild, hv. 7. þm. Reykv., hóf mál sitt með því að ræða skattadæmið. (Gripið fram í: Var hann kosinn til þess af Alþfl.?) Nei, mér sýndist hann svona bera leiðtogahempuna einna skörulegast, með allri virðingu fyrir hv. þm. Hann hóf ræðu sína með því að ræða skattadæmið og fór með tölur um gríðarlega auknar skattaálögur og skattbyrði. Þær tölur voru í stórum dráttum sóttar í heldur óvandaða og hraksmánarlega frétt sem birtist á annarri síðu DV í dag. (SvG: Það er rangt, ráðherra.) Í stórum dráttum virðist mér, en ég ætla ekkert að fullyrða um að heimildin hafi verið sú, þá bara ber þeim saman. (SvG: Hagtölur mánaðarins og Þjóðhagsstofnun.) Dæmið lítur svona út:

Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir auknum skattaálögum sem nema 5700 millj. kr. Þar af vegna þeirra ráðstafana sem hún greip til við valdatöku sína í upphafi, yfir um eitt ár 3700 millj. og tekjuöflun skv. fjárlögum, sem ákvarðanir voru teknar um áður en fjárlagafrv. var lokið fyrir upphaf þings, um 2000 millj.

Eins og fram kemur af þeim gögnum sem hv. þm. nú hafa fyrir framan sig er aukin tekjuöflun vegna þeirrar kerfisbreytingar, sem nú er verið að kynna í þessum þremur frv., 2050 millj. kr. En þá ber að hafa það í huga að nákvæmlega þessari fjárhæð er varið til útgreiðslu úr ríkissjóði jafnharðan, 1250 millj. til niðurgreiðslna á þýðingarmestu búvörum og um 600 millj. kr. til hliðarráðstafana.

Þá er nefnt að auknar skattaálögur nemi 600 millj. kr. sem felist í hækkun tekjuáætlunar fyrir 2. umr. fjárlaga. Um það er það að segja að ævinlega er það svo í þjóðfélagi þar sem verðbólga er nokkur að tekjuhlið fjárlaga og tekjuáætlun eru endurskoðuð áður en fjárlögum er lokið. Þessi hækkun er til mikilla muna minni en verið hefur flest ár, hún endurspeglar aðeins verðlagsbreytingar en engar raunbreytingar. Öfugt við það sem hv. 7. þm. Reykv. sagði þá er í áætlun gert ráð fyrir 400 millj. kr. tekjuauka vegna bættra skattskila kerfisins. Það er ekki há upphæð en hún byggist ekki á auknum álögum heldur á bættum skattaskilum. Hún byggist á mjög varlegri áætlun um upprætingu á skattsvikum, að draga úr skattsvikum en ekki að leggja á aukna skatta. Við getum deilt um matið á því hvort það er varlegt eða ekki, en þannig er það.

Því næst má bæta inn í þetta hækkun útsvara sem fyrir liggur og menn meta einhvers staðar á bilinu 600–700 millj. kr. og því næst auknar álögur sem tengja má við álagningu fasteignagjalda upp á 1150 millj. kr. Þannig er kominn þessi 91/2 milljarður. En eftir stendur eftir sem áður að auknar skattálögur þessarar ríkisstjórnar frá því að hún tók við á miðju sumri eru nettó 5700 millj. kr. (SvG: Að frádregnum tilfærslum.) Það er nettótalan.

Þá er á það að líta hvort hér er eingöngu um að ræða að þessir skattar hafi verið lagðir á almenning í formi aukinna neysluskatta. Það er ekki svo. Ég rifja upp að þættir í skattálagningu, sem tekin var upp á miðju sumri, voru gjöld sem leggjast á fyrirtæki. Þar minni ég á hækkun á ábyrgðargjöldum vegna lánveitinga, vegna lántöku fyrirtækja og sjóða og enn fremur gjaldtöku á erlendar lántökur. Ég minni á þann þátt í tekjuáætlun fjárlaga sem gerir ráð fyrir auknum tekjum ríkissjóðs vegna breytinga á lögum um tekjuskatt lögaðila sem í þeirri áætlun er 150 millj. kr. Það var sérstaklega spurt um hvar það frv. væri statt og er rétt að svara því að það er þann veg statt að það var kynnt á næstsíðasta ríkisstjórnarfundi og var til umræðu á ríkisstjórnarfundi áðan og þar var samþykkt að vísa því til þingflokka stjórnarliða.

400 millj. kr. hafa verið lagðar á í formi launaskatts á fyrirtæki sem fyrirtækjaforsvarsmenn halda fram að þeir fái ekki velt út í verðlag af sér, a.m.k. ekki við óbreyttar aðstæður.

Gert er ráð fyrir sérstökum skatti á verktaka í þjónustu varnarliðs og tekjur af því áætlaðar um 50–100 millj. kr. Ef litið er á skattlagningu fyrirtækja í þessu heildardæmi af þessum 5700 millj. má segja að fyrirtæki og þá fyrst og fremst auðvitað fyrirtæki í einkarekstri og atvinnulífi en einnig opinber fyrirtæki með hliðsjón af áætlun um arðtöku opinberra fyrirtækja séu á bilinu 1600–1800 millj.

Því næst er því við að bæta að það eru megineinkenni fjárlagafrv. að dregið hefur verið mjög verulega úr millifærslum, tilfærslum, styrkjum og framlögum til atvinnuvega og stofnana sem þjónustað hafa atvinnuvegi oft og tíðum endurgjaldslaust eða með mjög lágri gjaldtöku. Ekki er því óraunsætt að ætta að í raun og veru hafi með fjárlagafrv., bæði á tekju- og gjaldahlið, verið lagðar byrðar á fyrirtækin í landinu sem eru einhvers staðar á bilinu frá 1800 millj. til 2600 millj. eftir því hvernig menn meta þetta á tekju- og gjaldahlið. En því hefur heyrst haldið fram að í tíð fyrrv. ríkisstjórnar hafi byrðum af fyrirtækjum verið létt um upphæð sem svarar 2 milljörðum á verðlagi síðasta árs. Það er m.ó.o. ekki rétt, að því er varðar þessa skatta, að þar hafi bara verið byrjað á öfugum enda og öllu saman velt yfir á neytendur. Af þessum heildarsköttum bera fyrirtækin sinn hlut. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að hlutur þeirra hafi verið of lítill. Ég tel þetta eðlilega breytingu. Ég tel að í stórum dráttum sé ekki verið að íþyngja þeim um of. Ég tel að fyrirtækin eigi að bera sinn hlut í skattheimtunni og önnur viðbótarrök fyrir þessu eru að sjálfsögðu þau að á undanförnum 2–3 árum hefur verið óvenjulegt góðæri í landinu þannig að það má gera ráð fyrir því að hagur fyrirtækja hafi þrátt fyrir allt batnað og um það höfum við óyggjandi tölur.

Þetta eru þá staðreyndirnar um skattana og þetta eru mín svör um það hvernig þessari skattbyrði er skipt. En þá er spurningin þessi: Til hvers erum við að leggja á þessa skatta? Var einhver nauðsyn á því? Um það geta verið skiptar skoðanir, en ég átti kannski ekki beinlínis von á því að heyra það frá talsmönnum Alþb. og kannski talsmönnum Kvennalistans að þeir fordæmdu það að reynt sé að rétta við hallarekstur ríkissjóðs sem ekki verður gert nema með tvenns konar hætti, þ.e. með lækkun útgjalda eða öflun tekna. Sér í lagi kemur mér kannski á óvart að heyra ef hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson er allt í einu orðinn talsmaður þess að skattar séu allt of lágir í landinu.

Nú er rétt að rifja upp að á miðju sumri var talið að það stefndi í hallarekstur hjá ríkissjóði upp á 3,4 milljarða. Sá hallarekstur minnkaði mjög verulega við fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem ætla má að hafi skilað við innheimtu milli 900 og 1000 millj. á yfirstandandi ári. En þrátt fyrir áformaðan tekjuauka upp á 3,7 milljarða á árinu 1988 stefndi í viðvarandi hallarekstur hjá ríkissjóði. Reyndar var sá hallarekstur, þegar lokið var smíði fyrstu gerðar fjárlaga í byrjun september, metinn 7500 millj. kr. Miðað við núverandi vaxtastig er það auðreiknanlegt dæmi hvernig slíkur halli, sem byggðist annars vegar á mjög veikum og götóttum tekjustofnum ríkisins, hefði orðið innbyggður halli í þessu kerfi með varanlegum hætti vegna þess að hann hefði að sjálfsögðu orðið að brúa með lántöku, og ég segi að við núverandi vaxtastig, hvort heldur er á að líta hér heima á innlendum lánamarkaði eða erlendum, hefði þessi hallarekstur fyrirsjáanlega orðið að illkynjuðu æxli, alvarlegri meinsemd, sem ég bið menn að staldra við og hugleiða, einkum þá sem kenna sig nú mjög við vinstri, félagshyggjuna, samneysluna, landsbyggðina og nauðsyn þess að ríkið auki útgjöld sín eða beiti áhrifum sínum til tekjutilfærslna til þess m.a. að hafa áhrif á tekjuskiptinguna, til þess að byggja upp almannatryggingakerfi, til þess að byggja upp heilbrigðiskerfi, til þess að ýta undir manneldisstefnu, til þess að halda uppi betra skólakerfi, til þess að halda uppi betri samgöngum o.s.frv. o.s.frv. Ég hef nefnilega upplifað það mjög sterklega undanfarna daga að það eru uppi mjög sterkar kröfur um aukin útgjöld á ýmsum sviðum. Ég heyri minna frá þeim hinum sömu sem hvað harðastir eru í kröfunni um aukin útgjöld um að það sé nauðsynlegt að afla tekna fyrir þeim og eðlilegt. Og ég er satt að segja í þeim hópi manna sem lætur ekki hugfallast þrátt fyrir að það kynni að vera rétt sem hv. þm. Svavar Gestsson fór með, að hlutur ríkisins í vergri landsframleiðslu kynni að vera kominn upp í 24,7% eða svipað hlutfall og var á velmektardögum ríkisstjórnar Gunnars heitins Thoroddsens, þ.e. 24,5%. Ég læt mér ekki bregða við það og minni á að þrátt fyrir allt er það nú svo að skatthlutur ríkisins og hins opinbera í þjóðartekjum Íslendinga er til mikilla muna minni en hann er í öllum grannlöndum okkar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hann megi ekki fá að vaxa endalaust, það eigi að reyna að hafa hliðsjón af því að halda honum í skefjum. Það eigi að gera með því að skilgreina hlutverk ríkisins. Það eigi að gera með því að vinna þannig í ríkisbúskapnum að ríkið reyni að vanda til verka á þeim sviðum þar sem það er alveg fortakslaust hlutverk ríkisins að halda uppi öflugri samneyslu, en það eigi einmitt þá um leið að vera hin hliðin á þeirri skiptimynt að menn fallist á að ríkið dragi saman seglin á öðrum sviðum, eins og er stefnan í þessu fjárlagafrv., m.ö.o. draga saman seglin, lækka útgjöld um 20% til millifærslna og styrkja til atvinnuvega, einmitt þannig, til þess að hafa eitthvað ögn meira fé til ráðstöfunar til þess sem við köllum velferðarkerfi eða til verklegra framkvæmda á vegum opinberra aðila án þess að fjármagna það með lánum.

Áður en við ljúkum þessari umræðu um skattana, um skattbyrðina, um hlut ríkisins í heildartekjunum og um hin góðu og fögru orð um nauðsyn samneyslunnar kemst ég ekki hjá því að vekja athygli á því í þessum umræðum að það eru mjög þýðingarmiklar staðreyndir sem hv. talsmenn stjórnarandstöðunnar kjósa að þegja um og leiða hjá sér. Það eru t.d. staðreyndirnar um það að sú kerfisbreyting sem hér er boðuð og kynnt í þessum þremur frv. mun ekki leiða til neinnar hækkunar á framfærsluvísitölu og þar af leiðandi ekki neinnar hækkunar á útgjöldum meðalfjölskyldu, engrar. (SvG: Þú veist ekkert um það.) Og í annan stað, ef spurt er sérstaklega um það, að slepptum meðaltölum, hver verði hlutur barnafjölskyldna og hver verði hlutur hinna öldruðu, liggur það fyrir að það verður varið umtalsverðu fé til þess að bæta þeirra hlut enn frekar. Ég get því alveg leyft mér að fullyrða það eins og menn geta fullyrt nokkurn skapaðan hlut að það er ekki með þessari kerfisbreytingu verið að vega að framfærslu heimilanna, alls ekki. Þvert á móti er reynt að sjá til þess að þeir sem helst þurfa á stuðningi að halda fái hann.

Það var spurt sérstaklega um hliðarráðstafanir. Ég vék að því máli í ræðu minni áðan, en það er rétt að árétta það nokkrum orðum.

Í fjárlagafrv. er miðað við hækkun bóta lífeyristrygginga frá 1. janúar til samræmis við fyrirliggjandi launabreytingar samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna um 3%. Í þeim hliðarráðstöfunum sem nú eru í undirbúningi en ekki lokið og tillögur verða settar fram um í hv. fjh.- og viðskn. er við það miðað að bætur lífeyristrygginga hækki um 7% eða um 4% umfram það sem gert hefur verið ráð fyrir, jafnmikið og nemur áætlaðri hækkun matvælaliðar framfærsluvísitölu. Kostnaður við þetta er áætlaður 280 millj. kr. Það er á verksviði hæstv. heilbr.- og trmrh. að undirbúa reglugerð um nánari útfærslu þessa þannig að ég get ekki svarað því nánar en þetta að okkar hugmyndir eru þessar um útgjöldin.

Í annan stað er spurningin um barnabætur. Til hækkunar barnabóta og barnabótaauka er áætlað að verja 320 millj. kr. Tillögur eru um það að þær skiptist þannig: 250 millj. verði varið til sérstakrar 10% hækkunar barnabóta og barnabótaauka, 40 millj. verði varið til hækkunar skerðingarmarka ef börn eru fleiri en eitt. Barnabótaaukinn er eins og kunnugt er tekjutengdur, en hingað til hafa skerðingarmörkin verið hin sömu hvort heldur börnin eru eitt eða fleiri. Barnabætur eru, eins og fram kom í máli mínu áðan, greiddar með 65 þús. börnum og hækkunin er því samkvæmt þessu 5 þús. kr. á ári á hvert barn, hækkunin ein sér. Þá er þess að geta að barnabætur verða greiddar út á tímabilinu 15.–20. janúar. Það liggur fyrir samkvæmt frv. um tekju- og eignarskatt í staðgreiðslu sem hér liggur fyrir og er unnið að í nefnd. Þær verða greiddar út fyrir fram, miðað við framtöl liðins árs, 15.–20. jan. Fyrir hjón með tvö börn, annað yngra en 7 ára, yrði janúargreiðslan tæplega 16 þús. kr. án barnabótaaukans sem eðli málsins samkvæmt kemur einkum og sér í lagi að góðum notum fyrir einstæða foreldra með börn á framfæri.

Um niðurgreiðslurnar hef ég þegar sagt nóg. Það er upplýst að 1250 millj. kr. verður varið til þess þáttar og það er til þess að tryggja að það verði engin verðhækkun, alls engin verðhækkun á helstu afurðum hefðbundins íslensks landbúnaðar og ef það er manneldisstefna, þá er það ágætt.

Enn fremur var haldið fram ákveðnum fullyrðingum um skattbyrði í beinum sköttum. Um það er ekki margt að segja annað en þetta: Það liggur fyrir og það hefur verið fjallað um það í þaula í góðu samráði við stjórnarandstöðu, sem þátt tók og átti ágætan þátt í starfi milliþinganefndar um staðgreiðslukerfið, hverjar staðreyndirnar eru í því efni. Eins og frv. liggur nú fyrir er niðurstaðan sú að því er varðar hinn staðgreidda tekjuskatt einstaklinga að skattbyrðin er óbreytt frá því sem áformað var þegar staðgreiðslufrv. var samþykkt á hinu háa Alþingi á sl. vori, þ.e. miðað við óbreytta skattbyrði frá árinu 1986, 4,2% af heildartekjum einstaklinga. Og þá spyrja menn: Já, en af hverju er ekki miðað við árið 1987 þegar skattbyrðin varð miklum mun lægri í reynd en áformað var, þ.e. fór niður í 3,4%, og af hverju var skattbyrðin svona lítil á yfirstandandi ári og af hverju voru tekjur ríkissjóðs af tekjusköttum svona óverulegar á yfirstandandi ári, sérstaklega í samanburði við tekjur sveitarfélaga af útsvari? Það var vegna þess að menn höfðu gert ráð fyrir 20% launahækkunum sem urðu í reynd 38%. M.ö.o., menn eru að segja sem svo: Á verðbólgan að ráða því hver á að vera skattbyrði í tekjuskatti?

Staðreyndin er ósköp einfaldlega sú að skattbyrði í tekjuskatti yfirstandandi árs varð óvenjulega lítil af ófyrirséðum ástæðum og um það var bærileg samstaða að því er varðaði staðgreiðslukerfið þegar það var samþykkt hér á hinu háa Alþingi á sl. vori að eðlilegt væri að miða við óbreytta skattbyrði en ekki slíkar sveiflur. Við erum einmitt að hverfa frá því kerfi að eiga það undir tilviljanakenndum hlutum hver hin endanlega skattbyrði verður, sbr. þá staðreynd að í gamla tekjuskattskerfinu, þótt jaðarskatturinn væri í reynd skráður sem hærri prósentutala, liggur það alveg ljóst fyrir að ef við erum að miða við 20–25% verðbólgu er raunveruleg skattbyrði í efsta þrepi gamla kerfisins lægri en í núv. kerfi.

Það er eitt atriði sem ástæða er til að staldra við og hafa áhyggjur af að því er varðar skattbyrði í beinum sköttum á næsta ári og það hefur með réttu verið bent á það atriði í ræðum sumra hv. stjórnarandstæðinga. Það er spurningin um tilfærslu á skattbyrði innan árs hjá sumum hópum. Þá er fyrst og fremst um að ræða spurninguna um það að vaxtafrádráttur hins nýja kerfis kemur ekki til útborgunar að óbreyttu frv. fyrr en eftir á, eins og verið hefur að sjálfsögðu um þá sem leggja út í kostnað, húsnæðiskaup, og fá þá vaxtafrádráttinn til frádráttar tekjuskatti sínum eftir á. Þegar þetta kemur heim og saman við að það er fyrirséð gífurleg hækkun á fasteignamati og fasteignagjöldum sveitarfélaga og sú venja hefur skapast að innheimta það á fyrstu þremur mánuðum ársins — staðgreiðslukerfið gerir að sjálfsögðu ráð fyrir því að menn greiði skatta af launum sínum, það er eðli þess kerfis, alla mánuði ársins, því næst bætist þetta við, þá er ástæða til að staldra við það og athuga það mjög vel og nákvæmlega í nefnd. Í milliþinganefndinni voru umræður um þetta mál og það eru uppi hugmyndir um það hvernig unnt verði að leysa þetta með vaxtafrádráttinn þótt það sé mjög flókið að gera það, en það er unnt. Það eru ýmsar hugmyndir uppi um það og ég vil vekja athygli á því að af hálfu einnar sveitarstjórnar hér í nágrannasveitarfélagi, Kópavogi, hefur það verið samþykkt að því er varðar fasteignagjöldin og innheimtu þeirra að dreifa innheimtunni á 10 mánuði og fella niður innheimtu í janúar til þess að reyna að laga innheimtu fasteignagjalda sveitarfélaga að hinu nýja kerfi. Þetta held ég að væri mjög góð hugmynd ásamt með því ef hægt væri að vinna einstaklingsbundið framtöl þeirra eitthvað rúmlega 20 þúsund einstaklinga eða framteljenda sem ætla má að hafi haft hærri vaxtabyrði frá sl. tveimur árum en nam 10% frádrættinum og hvort þá mætti fara eins að. Ég vildi a.m.k. gjarnan að sú hugmynd væri könnuð í þaula í þessu efni eins og gert er að því er varðar barnabætur og barnabótaauka sem eru greiddar út í upphafi janúar miðað við framtöl fyrra árs, þá bráðabirgðagreiðsla sem hægt væri að ljúka þegar framtöl liggja fyrir og búið er að vinna úr þeim fyrir mitt ár. Þetta er raunveruleg gagnrýni og réttmæt og mér finnst að sjálfsögðu að það eigi að reyna að taka jákvætt á því þegar gagnrýni er málefnaleg og réttmæt og tel að eðlilegt sé og sjálfsagt að skoða þetta mál nánar.

Herra forseti. Það var beint til mín nokkrum spurningum sem ég skal leitast við að svara eftir því sem ég get. Hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson spurði: Hvað kostar matarskatturinn? Skattstofninn á öllum matvælum, innlendum og innfluttum, er 28 milljarðar kr. og 25% skattur þýðir þá brúttó 7 milljarðar. En þá er þess að geta að í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir niðurgreiðslum á vöruverði upp á 1587 millj. kr. og því næst hafa þær verið auknar upp á 1250 millj. þannig að frá þessari upphæð dragast 2800 millj. Skattlagning í söluskatti, 25% á öllum matvælum, innlendum og erlendum, er þá nettó 4200 millj. kr. Þetta breytir hins vegar engu um það að kjarni málsins er þessi að því er varðar útgjöld fjölskyldna sem við nefndum, við fórum yfir þær tölur í umræðunni hér í dag. Vísitölufjölskyldan hefur úr rúmlega 100 þús. kr. að spila á mánuði, 113 þús. kr. á mánuði. Matarútgjöld hennar eru um fjórðungur og niðurstaðan er sú að útgjaldaauki fjölskyldunnar af þessum sökum er 1800 kr. á mánuði sem er hins vegar að fullu bættur þegar vegna þess að aðrir útgjaldaþættir vegna þessara kerfisbreytinga lækka samsvarandi þannig að framfærslukostnaður hennar er óbreyttur. Ef hér er um að ræða annars konar fjölskyldu, barnafjölskyldu eða fjölskyldu einstæðra foreldra með fleiri börn á framfæri, liggur það fyrir að hennar hagur verði betur bættur með barnabótum, barnabótaauka og þvílíkum hliðarráðstöfunum.

Það var góð skemmtan að heyra hjartanlegan hlátur manna, hláturinn hefur ekki alveg yfirgefið mannskapinn á alvarlegum stundum, út af áformuðum söluskatti á heybindivélar. Ekki get ég nú upplýst hv. fyrirspyrjanda um það hvað hann gefur í ríkissjóð á næsta ári, en nuddstofurnar ... (HBl: Telur fjmrh. að bændur muni telja þetta fram?) Ég verð að segja í fullri einlægni við hv. fyrirspyrjanda að hingað til hefur verið mjög rækilega fyrir því séð í skattalögum og af mikilli hagkvæmni að bændur landsins eru skattlaus stétt. Og ég hef ekki trú á því að óbreyttum tekjuskattslögum lögaðila að það verði á því nein breyting. (Gripið fram í: Þetta er nú í áttina.) Hitt er annað mál að til kunna að vera þær heybindivélasamstæður sem reknar eru af stórum „stassjónum“ að það mætti kannski hafa með þeim örlítið eftirlit til þess að kennarinn í viðkomandi hreppi verði ekki sá eini sem leggur eitthvað til sveitarfélagsins. Það er nú það, herra forseti.

Það var spurt um nuddstofurnar, „massasið“ og ljósaböðin og það dirrindí allt saman og samkvæmt mati hinna vísustu manna er það talið munu gefa hugsanlega um 100 millj. kr. í ríkissjóð á næsta ári og mætti kannski verja þeim til þarfra hluta, svo mjög hefur þessi ljósabúnaður og massas-iðnaður eflst í tíð fyrrv. ríkisstjórnar.

Skatturinn á soðninguna sem menn töluðu um og spurðu, ja, hvað gefur hann? Það er mat manna að hann kunni hugsanlega að gefa um 400 millj. kr. Af hverju er nú verið að leggja söluskatt á soðningu? Óttalega er þetta eitthvað lítilfjörlegt, 400 millj. Ástæðan fyrir því eins og svo mörgu öðru er sú að það hefur orðið ansi mikil bylting í íslensku þjóðfélagi, breyting á mörgum sviðum, breyting á neysluvenjum, breyting á verslunarháttum frá þeirri tíð þegar við vorum drengstaular að alast upp á bryggjusporðum og það var til siðs kannski að menn sæktu soðninguna beint um borð þegar bátar komu að landi, að bryggjum. Það mun vera svo að helmingur a.m.k., mér er reyndar sagt að taka því varlega, mér er sagt að það sé meira, af soðningunni sé nefnilega kominn í verslun í stórmörkuðum. Því miður er það mjög að breytast víða og má vel harma það, af því að ég heyri að margir hv. þm. eru mjög íhaldssamir á hið góða og gamla kerfi sem þeir eru aldir upp við, ef fisksalar verða aldauða. Það vona ég að verði aldrei. Ástæðan er einfaldlega þessi að 50–60% af þessari verslun fer fram í stórverslunum og við erum einu sinni að taka upp þá breytingu að við ætlum að losna við allt skattafúskið, allar reiknireglurnar, allan tilbúninginn, og koma þessu bara ósköp einfaldlega á þannig að það sé í lagi og þá er nú þessi kostur valinn.

Hlut aðgöngumiða að íslenskum kvikmyndum í söluskatti held ég að enginn treysti sér til að meta í krónum og aurum.

Spurt var um það hvað gert verði til að tryggja lækkun vöruverðs, að verðlækkanirnar, þessar miklu verðlækkanir, komist til skila til almennings, og hv. 7. þm. Reykv., Svavar Gestsson, spurði einmitt: Hvers vegna var fallið frá upphaflegum áformum um að lækka söluskattsprósentuna í 22–23%? Hann vitnaði til þeirra ummæla hæstv. viðskrh. sem hefði átt að segja í blöðum í dag eða einhverjum fjölmiðlum að ein ástæðan fyrir því hefði verið sú að menn hefðu treyst því varlega að söluskattslækkunin, ekki meiri en þessi, 2–3 söluskattsstig, kæmist til skila til almennings.

Nú ætla ég ekki að gera mönnum upp orð eða skoðanir, en ég neita því ekki að við undirbúning þessa máls á undanförnum vikum höfum við að sjálfsögðu, ég sjálfur og mínir starfsmenn, rætt við fjöldann allan af talsmönnum atvinnulífs, þar á meðal verslunar og þjónustu og það er ekkert launungarmál að við tókum upp þau vinnubrögð þegar tillögur lágu fyrir, bæði að því er varðar tollskrá og vörugjald, að gefa slíkum aðilum kost á að kynnast þessum tillögum til þess að hjálpa okkur við að koma fram með praktískar ábendingar, leiðréttingar og annað slíkt. Þetta reyndist mjög þarft og skilaði okkur ágætu gagni. En ég get ekki leynt því að í nánari viðræðum, og skoðun, við marga talsmenn, reynda menn úr verslun og þjónustu, vöruðu þeir við því, af því að við erum að tala um söluskattsbreytingu sem aðeins á að standa í eitt ár áður en við hverfum yfir í nýtt virðisaukaskattskerfi, að taka þann kostinn að lækka söluskattinn lítillega og sögðu sem svo að við núverandi eftirspurnaraðstæður í þjóðfélaginu væru því miður mjög miklar líkur á því að við endurmat vörubirgða um áramót og í framhaldinu yrði tækifærið um of freistandi að nota það með líkum hætti og þegar myntbreytingin varð sællar minningar í tíð ríkisstjórnar Gunnars heitins Thoroddsens, sem hv. 7. þm. Reykv. er kannski ekki alveg búinn að gleyma, að þessi verðlækkun mundi ekki komast til skila nægilega vel. Menn töldu hins vegar allt annað mál þegar um er að ræða slíka uppstokkun verðmyndunarkerfisins og jafnmiklar verðbreytingar eins og leiðir af þessum byltingarkenndu breytingum um lækkun tolls og vörugjalds þar sem verðlækkanirnar eru mjög verulegar.

Það er spurt: Hvað á að gera til þess að tryggja þetta? Það er margt og í mínu máli kom ýmislegt fram um það. Menn skemmtu sér mikið vel yfir hugmyndaauðgi og, hvað eigum við að segja, „svækiskum“ húmor hv. 7. þm. Reykv. þegar hann dró upp málverkið af búðarkössunum og heybindivélinni. Engu að síður er það nú svo að hv. þm. Ragnar Arnalds, sem eitt sinn var fjmrh. og lagði að vísu ekki í stórar breytingar, gerði þó þetta. Hann skipaði nefnd til þess að skoða með hvaða hætti mætti tryggja betri söluskattsskil með því að skylda smásöluaðila, ekki heybindivagna, til þess að hafa búðarkassa um borð. Málið komst ekki í framkvæmd. (Gripið fram í.) Já, hvað hét þetta? (SalÞ: Lokuð sjóðvél.) Lokuð sjóðvél, það er einmitt það. Málið komst ekki í framkvæmd og nefndin sá öll tormerki á því. Af hverju? Einfaldlega vegna þess að það sem í gegnum sjóðvélina hefði farið var allt annað en söluskattsstofninn vegna þess að undanþágurnar voru endalausar þannig að það hefði ekki komið að neinu gagni. Nefndin lagði á það áherslu að því aðeins kæmi þetta töfratæki að verulegum notum að við værum að tala um einfaldan undanþágulausan söluskatt, helst einstiga. Hann gæti að vísu verið tvö stig, tæknilega er það viðráðanlegt út af fyrir sig, tæknilega séð, en því miður, það varð ekki af framkvæmdum.

Þriðja atriðið sem ég nefndi um bætt skil var hugmyndin um það að fela tollþjónustunni, sem nú hefur miklu minni verkefni við að fást, að taka að sér eftirlit og framkvæmd söluskatts og síðan virðisaukaskatts að danskri fyrirmynd. Allt í einu telja menn að fyrirmynd Dana sé ekki nógu góð, menn eigi að sækja þær helst annað. Ég held að menn eigi bara að láta frændur okkar njóta sannmælis þegar þeir gera góða hluti og þeir hafa gert góða hluti þarna.

Þetta eru allt dæmi um slíka hluti. En stærsta einstaka atriðið sem tryggir bætt skattskil er auðvitað það sem er rauði þráðurinn í öllum tillögum skattsvikanefndarinnar. Það er ekki að fjölga fólki í eftirliti. Það er ekki í því fólgið að gera annan hvern Íslending að löggæslumanni með hinum. Það er fólgið í því að löggjöfin sjálf verði svo einföld og auðveld í framkvæmd að það sé hægt að beita ódýru eftirliti. Svo sagði einhver hér í umræðum, mig minnir að það hafi verið hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, að í Evrópubandalaginu væru menn ekkert þeirrar skoðunar að það væri nauðsynlegt að hafa eitt þrep, nei, nei. Og ég hef verið sakaður um það hér af ýmsum að vera katólskari en páfinn og vilja hafa einfaldara og hreinna kerfi en jafnvel þeir hjá Efnahagsbandalaginu. Jahérna. Hver skyldi nú vera katólskari en páfinn? Heyra má ég erkibiskups boðskap. Er Efnahagsbandalagið orðið mönnum fyrirmynd í skattamálum? Er Ítalía orðin mönnum fyrirmynd í skattamálum? Er Frakkland orðið mönnum fyrirmynd í skattamálum? Er Spánn orðinn mönnum fyrirmynd í skattamálum? Ég veit að hv. þm. Júlíus Sólnes trúir mjög á skattlaus kotríki, tilbúin dvergríki hér og þar um álfuna, sem lifa á því að vera eins konar verðbréfamarkaður og skattsvikaraparadís til ávöxtunar á svartamarkaðsfé og sviknu fé og það er út af fyrir sig bisness og vel lítandi á það. (Gripið fram í.) Út af fyrir sig. En Evrópubandalagið er engum fyrirmynd í þessu efni frekar en landbúnaðarpólitík er öðrum mönnum fyrirmynd þar um slóðir vegna þess að Evrópubandalagið er að fara á hausinn af bruðli og vitleysu. Yfir 90% af allri „budgett“ Evrópubandalagsins fer í niðurgreiðslur á keti og sméri og mjólk og öðru slíku. Þeir framleiða mjólkurstöðuvötnin, þeir framleiða smjörfjöllin og þeir framleiða kjötfjöllin og þeir framleiða vínstöðuvötnin og mestallt nota þeir þetta til þess að gefa þetta austur fyrir sveltandi sósíalismann til þess að ala rauða herinn. (Gripið fram í.) Það er hálfu vitlausara, það er enn þá vittausara, miklu vittausara, það er þúsund sinnum vitlausara og það er ekki til fyrirmyndar. Og það liggur einmitt ljóst fyrir, auðvitað er Evrópubandalagið ekki að gera eitt eða neitt, miðað við að það eru sex þrep í virðisaukaskatti á Ítalíu og það vita allir að það kerfi er ónýtt, allir, og Ítalir manna best sjálfir. Eina þjóðin í Evrópubandalaginu sem er með „effektívt“ kerfi er nefnilega Danir. Það er að vísu nokkuð vel framkvæmt hjá Þjóðverjum, en þó ýmsir erfiðleikar. Þeir viðurkenna að þetta kerfi er hrunið. Þess vegna kemur býrókratíið með tillögur og segir: Við þurfum nú að gera eitthvað í að ná þessu a.m.k. í tvö þrep úr sex. En þeir geta það ekki af þeirri einföldu ástæðu að ef ætti að gera Dönum þetta væri það það sama og að segja við danska ríkið undir hægri stjórn Schluters: Afsalið þið ykkur hér með a.m.k. þriðjungnum af ríkistekjum Dana. Auðvitað gerist það ekki og auðvitað verður þetta í nefnd fram yfir aldamót. (SvG: Fiskveiðistefnan?) Já.

Ég held, frú forseti, að ég hafi svarað þeim meginatriðum sem til mín var beint, einkum og sér í lagi frá hv. þm. Svavari Gestssyni, um staðreyndirnar um skattana, um skatta þessarar ríkisstjórnar, um skattbyrði, um fyrirtækjaskatta, um verðlagsáhrif, um áhrif á hag fjölskyldna, um hvað hægt er að gera til þess að mæta tilfærslu í skattbyrði sumra hópa innan ársins, um skilvirknina í kerfinu, um aðgerðir til þess að draga úr skattsvikum og tryggja bætt skil, um hliðarráðstafanir og reyndar um framkomuna við þingið. Ég á, eins og ég segi og viðurkenni, minn hlut í því að það tókst ekki að koma þessum málum fram fyrr. Ég hef beðist velvirðingar á því og ég fellst ekki á að þetta sé gert af illum hug í garð stjórnarandstöðu eða af neinni forakt á þingræðinu.

Frú forseti. Það var spurt sérstaklega og þótti nokkur skemmtan: Hvers vegna er nú það að mennirnir sem boða hið hreina og tæra og undanþágulausa kerfi gera ekki ráð fyrir að leggja söluskatt á afruglara? Já, það er rétt að svara því. Hvers vegna ekki það? Það felst nú ekki bara í því sú skoðun að sumum sé mjög nauðsynlegt að hafa aðgang að afruglara, það er ekki það. Nei, þetta mál er ósköp einfaldlega um spurninguna um samkeppnisaðstöðu opinberrar ríkisrekinnar sjónvarpsstöðvar og um samkeppnishæfni hinnar nýju stöðvar. Ég minni á: Alþingi Íslendinga hefur samþykkt að afnema einokun ríkisfjölmiðlanna. Það hefur samþykkt lög og sett upp ákveðnar reglur um starfshætti og starfsskilyrði frjálsra útvarps- og sjónvarpsstöðva. Að sjálfsögðu var það svo að meðan var verið að byggja upp búnað og dreifikerfi ríkissjónvarpsins var það undanþegið öllum opinberum gjöldum, að sjálfsögðu. Afruglararnir eru því miður dæmi um kerfi sem er eins konar dreifingarkerfi þessarar stöðvar. Ef ekki væri fyrir þessi tæki væri þessi stöð ekki til. Þessi tæki kosta núna milli 15 og 16 þús. kr., er mér sagt, og ef á þetta væri lagður tollur, vörugjald og söluskattur færi verðið upp í 27 þús. kr. Nú skilst mér að þorri þjóðarinnar, þéttbýlisþjóðarinnar, hafi þegar aflað sér þessara tækja. Mér skilst að þetta sé í hverju húsi t.d. í byggðarlagi hv. þm. Júlíusar Sólnes. (JúlS: Ég kannast ekki við það.) Nei, en mér skilst það nú samt. Það er verið að byggja upp þetta dreifingarkerfi úti um land. Stöð 2 er að reyna að hasla sér völl úti um land, á Austfjörðum, á Norðurlandi, á Vestfjörðum. Eru hv. þm. að segja að þeir séu orðnir katólskari en páfinn ég í hinu undanþágulausa kerfi, að þeir vilji segja: Við skulum leggja þennan skatt á núna, þegar þéttbýlisþjóðin hefur notið skattleysisins, þá skulum við leggja hann á Austfirðinga, Norðlendinga og Vestfirðinga, rétt mátulega? Eða eru þeir að segja, t.d. talsmenn Borgaraflokksins sem ég hélt að væru umburðarlyndir og frjálslyndir menn sem teldu sig vera unnendur frjálsræðis í viðskiptum og ekki allt of mikla ríkisforsjármenn, að þeir séu tilbúnir í nafni kerfisins að kollvarpa gersamlega í einu vetfangi rekstrarskilyrðum frjálsra sjónvarpsstöðva? (Gripið fram í.) Allt í lagi. Það er ágæt skoðun og það er meira að segja göfug skoðun að vilja hafa söluskattslausan fisk, mjög göfug. En menn skulu hins vegar vera sjálfum sér samkvæmir og segja það fullum fetum, viðurkenna það fullum fetum að sá maður sem segir: Ég vil leggja söluskatt á þessa afruglara, er um leið að segja tvennt: Sérstakan skatt á landsbyggðarfólk og í öðru lagi að kippa fótunum undan starfrækslu þessara stöðva. (SvG: Þetta er byggðastefna.) Já, það má segja það, partur af byggðastefnu. Síðan er þess að geta, virðulegi forseti, að þessi undanþága er enn byggð á heimild. Sú heimild er að vísu færð úr fjárlögum og flutt þangað sem hún á heima, inn í söluskattslög. Þetta er heimild til fjmrh. að beita þessari undanþágu. Það mun hann gera meðan sá sem hér stendur er fjmrh. ef tryggt er að af verði lögð þau einokunarviðskipti að umrædd tæki séu aðeins seld af einu fyrirtæki, en það lít ég á að sé brot á eðlilegum viðskiptaháttum, en mér er kunnugt um að verslanir sem versla með sjónvörp, vídeó og hvað það nú heitir hafa óskað eftir því að fá að hafa þetta til sölu eins og aðrir. Það er að sjálfsögðu algjört skilyrði fyrir því að heimildin verði veitt.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Júlís Sólnes gerði mjög að umtalsefni virðisaukaskatt sem verður til umræðu hérna á seinni hluta ársins. En það liggur fyrir að þessi ríkisstjórn hefur boðað það að þessi kerfisbreyting að því er söluskattinn varðar sé tímabundin og við stefnum að því að virðisaukaskatturinn taki gildi á næsta ári. Og hver voru rök hv. þm. fyrir því að vera andvígur virðisaukaskatti fyrir utan það að Danir hefðu sett upp virðisaukaskatt? Þau eru fyrst og fremst tvenns konar:

Í fyrsta lagi: Þeir aðhyllast hugmyndina um söluskatt í tolli. Það hefur margsinnis komið fram að þessi hugmynd er allrar umhugsunar verð. Það er bara margsinnis búið að kanna að hún gengur því miður ekki upp. Reyndar kom fram viðurkenning á því í máli hv. þm. þegar hann sagði að þá yrði sá söluskattur að fara upp í 28%. Ég held reyndar að hann hefði orðið að vera hærri. Þá væri spurningin um hvað ætti að vera við hina 2500 samkeppnisaðila sem hann nefndi svo.

En aðalatriðið er þetta: Virðisaukaskattur er söluskattur í tolli. Hann er það. Hann leggst á allan innflutning í tolli. En kostir hans eru þeir, og það hélt ég að hv. þm. Júlíus Sólnes mundi hreinlega viðurkenna eftir nokkra skoðun, að við getum ekki búið við söluskattskerfi sem er nothæft nema þá á kostnað þess að gera íslenskan samkeppnisiðnað, ekki bara íslenskan iðnað, íslenskan útflutningsiðnað, ósamkeppnishæfan. Af hverjum þurfum við raunverulega að bora öll þessi göt, tryggja allar þessar undanþágur, fyrir landbúnað, fyrir sjávarútveg, fyrir fiskvinnslu, fyrir samkeppnisiðnað? Og líti menn á það. Menn hafa sagt: Það er ekki verið að fella niður allar undanþágur frá söluskatti. Það er rétt. Það eru taldar upp allar þarfir íslensks atvinnulífs vegna þess að ef við legðum á söluskatt án undanþága værum við að gera þessi fyrirtæki ósamkeppnishæf. Við þurfum að fá söluskatt, hann heitir virðisaukaskattur, sem fullnægir því skilyrði að leggjast á innflutning í tolli, en án þess að grafa undan samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Og lokarökin eru auðvitað þau sem fram komu í máli hv. þm. sjálfs. Hann sagði: Við erum ekki eins og iðnaðarþjóðfélagið þar sem 80% af þjóðarframleiðslunni eru fyrir innlendan markað. Nei. Við erum með galopið hagkerfi, við framleiðum tiltölulega mjög fáar, einhæfar vörur til útflutnings og við flytjum inn allar þarfir okkar. Og einmitt af því að við erum slíkt samkeppnisþjóðfélag og af því að við erum svo stórir útflytjendur getum við ekki haft kerfi óbeinna skatta sem eyðileggur samkeppnishæfni þessara útflutningsgreina. Svo einfalt er það.

Virðulegi forseti. Ég hef þá svarað því sem fram kom í máli hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur um afrugl. Hv. þm. fór einnig fram á að fá nánari upplýsingar um útfærslu á hliðarráðstöfunum. Ég tel mig einnig hafa gert það eftir því sem mér er fært. Hv. þm. tók líka dæmið af Efnahagsbandalaginu um hin mörgu þrep og ég hef svarað því. Spurningin sem ég ætti þá ósvarað væri þetta með neyslustýringuna og manneldisstefnuna. Reyndar lýsti ég mínum skoðunum og mínum sjónarmiðum að því er það varðar í minni framsöguræðu og hef litlu við það að bæta. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk stjórnvalda að ráða neyslu fólks, alls ekki. Ég er þeirrar skoðunar að fólk eigi að ráða því sjálft. Svo einfalt sé það. Það á ekki að vera neitt meginsjónarmið þegar menn eru að ákvarða tollakerfi eða söluskatt að það eigi að endurspegla skoðanir hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur eða einstakra ráðherra eða einstakra stjórnmálamanna hvað mönnum sé fyrir bestu. Ég treysti fólki til að taka þær ákvarðanir sjálft.

Að vísu er því ekki að neita að tillit hefur verið tekið til manneldisstefnu í þessum aðgerðum og dæmi um það hef ég nefnt mýmörg, sbr. það að greiða niður hollustuna af landbúnaðinum, sbr. að tryggja það í þessu kerfi að lækka mjög margvíslegan varning til fjölskyldunnar sem byggir á útivist og íþróttaþátttöku og barnauppeldi. Allt eru þetta manneldissjónarmið. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ef einhverjir eru uppi í þjóðfélaginu sem hafa á því mjög djúpstæða sannfæringu að þetta sé óhollt fyrir þig og þetta sé hollt og þú eigir að vera svona en ekki hinsegin og borða þetta en ekki hitt, þá eigi viðkomandi að hafa fyrir því að boða þær skoðanir sínar sjálfir og ástunda fræðslutrúboð, þetta trúboð. Ég sé m.ö.o. enga ástæðu fyrir því að ríkisvaldið eigi að hafa vit fyrir fólki í því hvað það lætur ofan í sig. Reyndar hafa tískuhugmyndirnar á því sviði verið svo sveiflukenndar að það er varla fyrr búið að koma þeirri skoðun til skila hjá fólki hvað það eigi nú að borða að það er orðið viðurkennt að það er tóm vitleysa.

Virðulegi forseti. Þá telst mér svo til að ég hafi af einlægri virðingu fyrir málflutningi stjórnarandstæðinga reynt að svara öllum þeim spurningum sem til mín var beint og veita þær upplýsingar sem á mínu færi er að gefa. Ég þakka fyrir fróðlega og málefnalega umræðu.

2