20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

19. mál, erlend nöfn á íslenskum fyrirtækjum

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan um spurninguna um það hvort ég hygðist sporna við þeirri þróun að íslensk fyrirtæki beri erlend nöfn vil ég gera þetta. Ég sé því enga einfalda lausn á þessu máli og ítreka það álit mitt að lausnin liggi ekki í nýrri lagasetningu. Ég mun sannarlega leggja það fyrir skrásetjarana, sem eins og hv. 13. þm. Reykv. nefndi heyra ýmist undir viðskrn. eða dómsmrn., að framfylgja lögunum samviskusamlega. Ég hyggst líka kanna hugmynd Þórhalls Vilmundarsonar, formanns örnefnanefndar, um skiltaskyldu á íslensku. Það er mál sem ég er ekki viss um að þarfnist lagasetningar en varðar kannski frekar byggingarsamþykktir og skipulagsmál en skráningarlög.

Eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi snýst málið einatt ekki fyrst og fremst um nöfn á fyrirtækjum heldur um vörumerki sem fyrirtækin auglýsa og oft ber miklu meira á í auglýsingunum og annarri kynningu en nafni fyrirtækisins. Ég byggi þessa skoðun mína að vísu ekki á neinni könnun, en mér virðist að þetta fyrirbæri, auglýsingar og skilti með vörumerkjum til að auðkenna verslanir, sé stöðugt fyrirferðarmeira í verslunarlífinu.

Í Lesbók Morgunblaðsins birtist sl. laugardag athyglisverð grein um þróun verslunarheitanna við helstu verslunargötu borgarinnar og reyndar landsins. Þar kemur glöggt fram hjá Guðjóni Friðrikssyni sagnfræðingi, höfundi greinarinnar, að erlendum nöfnum á verslunum hefur fjölgað geysimikið við þessa götu. Af upptalningunni, sem hann sýnir, virðist mér mega ráða að þar gæti mjög vörumerkja fremur en verslunarheita, en vörumerkja sem verslunarheita og skilta. Greinin fjallar reyndar eingöngu um smásöluverslunina, en með leyfi forseta ætla ég að vitna í niðurlagsorðin hjá Guðjóni, en þau eru svona:

„Helsta niðurstaða þessarar samantektar er sú að fram undir 1910 voru verslanir yfirleitt kenndar við eigendur sína en frá um 1910 til 1935 fóru annars konar nöfn að tíðkast í auknum mæli, m.a. rómantísk og þjóðleg nöfn sem nú virðast fremur á undanhaldi. Erlend nöfn á verslunum hafa tíðkast frá því Laugavegur varð til en í litlum mæli fram til 1935. [Reyndar sýnist mér að það hafi verið innan við 5%.] Erlend áhrif á fyrri hluta aldarinnar komu einkum fram í því að eftirnafn eða föðurnafn kaupmannsins var notað í búðarheitinu. Nú er sá siður hverfandi en á móti kemur að um þriðja hver verslun heitir erlendu nafni (þetta hlutfall er enn þá hærra í Kringlunni)", eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi.

„Erlend heiti á verslunum við Laugaveg nú til dags eiga sér ýmsan uppruna. Flest virðast ensk en einnig bregður nokkuð fyrir nöfnum úr rómönskum málum og fáeinum af dönskum uppruna.

Enginn dómur verður hér lagður á hvort þróun í verslunarheitum er jákvæð eða neikvæð en óneitanlega hlýtur hún að vekja okkur til umhugsunar.“

Þetta bendir á það, sem ég sagði áðan, að lögin um nöfn fyrirtækja ná ekki til vörumerkja. Þannig selur rammíslenskt fyrirtæki, Vífilfell hf., drykkina Coea Cola, Tab og Hi-C sem í auglýsingunum eru látin fylgja enskum framburði. Önnur fyrirtæki með rammíslenskum heitum selja kjúklinga matreidda á sérstakan hátt undir vörumerkjunum Southern Fried Chicken eða Kentucky Fried Chicken. Svo eru það nöfn erlendra fatahönnuða, sem hv. 13. þm. Reykv. nefndi áðan, sem skreyta verslanir sem selja tískuvörur. Þannig fá menn á tilfinninguna að verslanirnar kenni sig við hina erlendu fatagerðarmenn. Þetta er fullkomlega leyfilegt samkvæmt íslenskum lögum og byggir reyndar, eins og ég sagði áðan, á alþjóðlegum skuldbindingum og vernd. En um notkun á svona skiltum og auglýsingum utan húss held ég að sé fremur við bæjaryfirvöldin að fást, skipulags- og byggingaryfirvöld, en lögin um skráningu fyrirtækja.

Þetta ætla ég að láta nægja til að tíunda sem dæmi um notkun erlendra heita í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi en sem betur fer eru líka til, bæði í fyrri og seinni tíð, dæmi um góð og gild íslensk nöfn á fyrirtækjum og vöruheitum á nýjum neysluvörum og verslunarstöðum sem virðast hafa í fullu tré við hin erlendu og njóta viðurkenningar í hugum almennings. Ég nefni t.d. Hótel Borg, Hótel Holt og vörumerkin Svala, Blöndu og Sopa. Ég held þess vegna að það sé hægt að snúa þessari þróun við, en það er ekki hægt að gera með lögum.

Ég vil að lokum ítreka að notkun erlendra heita á fyrirtækjum og atvinnustarfsemi er sannarlega mengun í íslensku málumhverfi og varnir gegn þeirri mengun eru sannkölluð þjóðþrif.