10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

196. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram allathyglisverðar umræður um skattamál, enda að vonum því að hér er stórt mál á ferðinni sem er frv. til laga um breytingu á lögum um söluskatt.

Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf. Hann talaði alllengi, en mér fannst óþarfi af hæstv. forseta að vera að víta fjmrh. sérstaklega, eins og hann gerði áðan, þó hann flytti alllanga ræðu. Það er eðlilegt þegar margs er spurt að þá þurfi ráðherrann að koma víða við og ekkert að því að finna þó að umræðan taki dálítinn tíma. Nefndarfundir eiga ekki að byrja fyrr en um níuleytið og menn eru ýmsu vanir þannig að það er engin ástæða til þess enn þá, að mínu mati, að kvarta undan þessari umræðu þó hún taki dálitla stund.

Ég ætla fyrst að víkja að því svari sem hæstv. fjmrh. gaf mér varðandi skattabreytingarnar í heild. Ég verð að játa að mér fannst niðurstaða ráðherrans í þessu efni ekki nægilega skýr, ekki þannig að ég næði því a.m.k. í þeim töluðum orðum, svo hratt sem þau voru flutt svo sem venja er til. Mér finnst að í grg. með frv. sé þetta óskýrt líka. Þess vegna hef ég lagt í það dálitla vinnu að reyna að átta mig á þessari skattabreytingu með hjálp þeirra gagna sem liggja fyrir í frv., með upplýsingum sem ég hef í nóvemberhefti Hagtalna mánaðarins, sem ég hygg að þm. hafi fengið núna síðustu daga, þar sem fjallað er um ríkisfjármálin eins og þau virtust standa eftir að fjárlagafrv. var lagt fram. Jafnframt þessu hef ég aflað mér upplýsinga frá Þjóðhagsstofnun. Menn geta auðvitað leyft sér eins og gengur að vera með léttúðugar athugasemdir bæði um Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka, en ég hygg þó að þegar við erum að fara yfir þessi mál, nú og áður hvað sem síðar verður, verðum við að notast við þau talnagögn sem frá þessum stofnunum koma nema annað skýrara komi fram. Ég skoðaði þessi mál með tvennum hætti, tveimur aðferðum má segja. Til að skýra það betur ætla ég að fara yfir þær.

Í fyrsta lagi: Þegar ríkisstjórnin var mynduð var tekin ákvörðun um 1000 millj. kr. skattlagningu á árinu 1987 sem þýddi 3700 milljónir á árinu 1988.

Í öðru lagi: Þegar fjárlagafrv. var lagt fram var gert ráð fyrir að bæta við þarna 2000 millj. kr. þannig að samtals var talan orðin 5700 millj. kr. í skattahækkun núv. ríkisstjórnar. Þá voru skattar ríkisins taldir 56 milljarðar 324 millj. kr., en heildartekjur ríkisins, sem sagt skattar og sértekjur, alls 59 milljarðar 564 millj. kr. Þannig stóð þetta þegar efnahagsráðstafanirnar miklu voru tilkynntar í upphafi þings og menn stóðu á öndinni af hrifningu, sumir hverjir, a.m.k. fjmrh., yfir því hvað þetta væru stórkostlegar efnahagsráðstafanir og mundu leysa allan vanda. Þá spáðum við því sum að þetta mundi ekki duga og það yrðu gerðar nýjar efnahagsráðstafanir og frv. yrði aftur tekið upp og það varð auðvitað raunin.

Þá kem ég að þriðja þætti þessara skattahækkana. Þar sem uppsetning mála í frv. ríkisstjórnarinnar og ræðum ráðherrans er ekki með þeim hætti að ég átti mig á henni kaus ég að taka niðurstöðutölur fjárlaganna eins og þau líta nú út fyrir að verða. Sú tala segir mér — og segir á blaði frá Þjóðhagsstofnun sent ég fékk í dag — að skattarnir verði, skattar og sértekjur, verði 26% af landsframleiðslu og hækki þess vegna miðað við þessar hlutfallsbreytingar frá því að fjárlagafrv. var lagt fram um 2880 millj. Samtals gerir þetta 8580 millj. kr., þ.e. 3700 plús 2000 plús 2880 millj. kr. Síðan gerist það að menn bæta nokkuð á niðurgreiðslur, bæta nokkuð á lífeyri og barnabætur. En ég hygg að heildarskattlagningin, fyrst og fremst í sköttum, 90% í sköttum, kannski eitthvert brot í sértekjum, aukist þarna um 8580 millj. kr., eða u.þ.b. 1,7 milljarða á mánuði frá því að ríkisstjórnin tók við. Þetta var niðurstaða eitt í þessu efni og ég varð ekki var við að fjmrh. væri með tölur sem vefengdu þetta í sjálfu sér.

Síðan er til önnur aðferð til að finna þetta fyrir þá sem ekki hafa aðgang að talnavélum fjmrn. sem mætti kalla sjóðvélar nú orðið reyndar. (DS: Lokaðar sjóðvélar.) Lokaðar, harðlæstar sjóðvélar. Og leiðin er sú, herra forseti, til að átta sig á þessu, að taka bráðabirgðatölur eins og þær liggja nú fyrir um heildartekjur ríkissjóðs á árinu 1987. Þær heildarskatttekjur ríkisins á þessu ári eru 45504 millj. kr. Frá þeirri tölu dreg ég síðan 1000 millj. kr. sem er skattaákvörðun núverandi ríkisstjórnar samkvæmt samþykkt sem var gerð hér í sumar eins og fyrr hefur verið upplýst á þessum fundi. Niðurstaðan verður þá sú að skatttekjurnar á þessu ári hefðu að óbreyttu og án tilkomu núverandi ríkisstjórnar orðið 44504 millj. kr. eða 21,6% af vergri landsframleiðslu. Skv. brtt. við fjárlagafrv. er nú gert ráð fyrir að skatttekjurnar verði 24,7% af vergri landsframleiðslu. Mismunurinn er 3,1% af vergri landsframleiðslu. Verg landsframleiðsla er 240 milljarðar og 500 millj. kr. 3,1% af því eru 7456 millj. kr.

Eins og ég tók fram áðan tel ég þessa síðarnefndu aðferð við að nálgast þetta ónákvæmari en hinar fyrri. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn til að fara í gegnum hvað eina af tölum í þessum efnum til að átta mig betur á þessu. En ég sé ekki betur en að þessi viðbótarskattlagning á næsta ári, miðað við ákvarðanir hinnar nýju ríkisstjórnar, sé 8000 millj. kr. a.m.k., sennilega 8500–8600 millj. kr. Ég er tilbúinn að taka við öllum talnagögnum sem fjmrn. kann að senda mér um þessi mál og ég mun óska eftir því í nefndinni að þetta verði gert upp þannig að nefndarmenn séu sammála um þann talnagrundvöll sem verið er að vinna með. Síðan munum við auðvitað sem nefndarmenn, eftir því sem ástæða er til, reyna að gera þinginu grein fyrir þessu því að menn verða að vita um hvað þeir eru að fjalla og vita hvað þeir eru að samþykkja eða synja. Ég er með þeim ósköpum gerður að ég hef gaman af því að lesa talnadálka þannig að fjmrn. þarf ekkert að vera feimið við að senda mér hauga af einhverjum svona pappírum, talnadálka já. (HBl: Það var þá lesning.) Já, formaður fjh.- og viðskn. Ed. gerir lítið með svoleiðis lesningu sem við höfum þó ekki orðið vör við í nefndinni. Þvert á móti hefur okkur fundist mikið til um áhuga hans á talnadálkum í hvívetna.

Þetta er um skattahækkanirnar. Og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. svari þessu atriði nú þegar við umræður um söluskatt nánar en mér fannst hann gera áðan.

Þá ætla ég næst aðeins að víkja að því atriði sem fjmrh. nefndi. Hann sagði: Þessar kerfisbreytingar allar skila sér í verðlagi alveg fortakslaust, fullyrti hann. Það er ekki hægt fyrir reynda stjórnmálamenn að tala svona. Hæstv. ráðherra þarf ekki annað en að fara t.d. yfir reynsluna af myntbreytingunni á sínum tíma. Það var að vísu um að ræða verulega verðbólgu á þeim tíma en þó ekki þegar myntbreytingin átti sér stað. Ég hygg að hún hafi ekki verið mikið meiri en er um þessar mundir. En ég er alveg sannfærður um að það er mjög hætt við að svona viðamiklar verðbreytingar á verðbólgutímum skili sér ekki. Þess vegna finnst mér yfirlýsing hæstv. ráðherra um að þetta muni skila sér alveg fortakslaust óvarleg yfirlýsing, enda segir í grg. með einu frv. sem liggja fyrir, með leyfi forseta, á þessa leið:

„Það segir sig sjálft að áhrif svo umfangsmikilla breytinga eru ákaflega vandmetin. Þetta á jafnt við um áhrifin á tekjuhlið ríkissjóðs og raunar ekki síður verðlagsáhrifin eins og þau koma fram í vísitölum framfærslukostnaðar og byggingarkostnaðar.“

Hér hafa starfsmenn fjmrn. vaðið fyrir neðan sig og slá engu föstu í þessu efni. Mér þykir líklegt að verðlagsáhrifin af þessu muni ekki skila sér til almennings vegna þeirrar verðbólgu sem hér er, vegna þeirra áhrifa sem verðbólgan hefur á verðskyn almennings og vegna þess að þessar breytingar, sem nú er verið að gera, eru flóknar og koma svo víða við. Þess vegna held ég að það sé óvarlegt af fjmrh. að hafa svo stórar fullyrðingar í þessu efni.

Ég vil varðandi hans ræðu fagna því sem hann sagði í sambandi við þær áhyggjur sem hann hefði af tilfærslu skattbyrðinnar innan árs, einkum hjá þeim sem eru með skuldir og hafa verið með verulega frádrætti af þeim ástæðum. Ég fer fram á það, þó málið sé ekki í þessari deild, að fjmrn. komi á framfæri við hv. fjh.- og viðskn. Nd., sem er með þetta mál, tillögu um útfærslu á því hvernig mætti flýta vaxtaafslættinum þannig að hann komi ekki bara á síðustu dögum ársins, heldur komi hann fyrr, helst frá byrjun ársins ef nokkur kostur er. Við skulum átta okkur á því að ef þessu verður ekki breytt frá gildandi lögum, þá mun vaxtaafslátturinn koma svona á hverju ári næstu árin af því að þetta eru ekki áhrif sem eingöngu eru á fyrsta ári staðgreiðslukerfisins heldur halda þau svona áfram. Og ég held að það sé vont, bæði fyrir launamenn en einnig fyrir ríkissjóð, að búa við þetta kerfi. Mér sýnist raunar að ríkissjóður muni á fyrri hluta ársins 1988 verða með mjög myndarlegar tekjur miðað við það sem hefur verið á undanförnum árum, en á síðari hluta ársins, þegar frádrættirnir fara að verka og þegar lánskjaravísitalan hefur mælt upp persónuafsláttinn, þá verði tekjur ríkisins miklu lakari en á fyrri hluta ársins að raungildi. Og ég held að það sé ekki skynsamlegt að vera með miklar sviptingar í tekjustofnum ríkisins innan ársins. Það kallar á alls konar ráðstafanir og vanda, eins og kunnugt er, sem getur haft önnur víðtæk efnahagsleg áhrif.

Mér fannst það einnig skynsamleg ábending hjá hæstv. fjmrh. að í tilefni af staðgreiðslukerfinu væri rétt að beina því til sveitarfélaganna að þau innheimti fasteignagjöldin miklu oftar. Mér fyndist jafnvel hugsanlegt að Alþingi gerði það með einhverjum hætti, beindi því til sveitarfélaganna. Það er jafnvel hugsanlegt að setja inn í lög ákvæði til bráðabirgða vegna staðgreiðslunnar um að fasteignagjöldunum verði skipt á a.m.k. 8, 9 eða 10 gjalddaga, hvernig sem menn vilja hafa það. En ég held að ábendingar fjmrh. í þessu efni hafi verið skynsamlegar og góðra gjalda verðar.

Hæstv. ráðherra var svo vinsamlegur að upplýsa mig um söluskattstekjur af nuddstofum og ég verð að segja það alveg eins og er, ég er ekki lífsreyndari maður en það, að það kom mér algjörlega á óvart að það væru 100 millj. kr. sem menn tækju inn af nuddstofum. Kom mér algjörlega á óvart. Soðningin skilar í ríkissjóð 400 millj. kr. og mér fyndist, það er a.m.k. mín skoðun, að til greina kæmi að fella niður söluskatt á soðningunni, en taka í staðinn upp gjöld á ýmsa aðra þætti, t.d. í tolli, umfram það sem gert er ráð fyrir í frv. ríkisstjórnarinnar um breytingu á tollalögum.

Svo var það þetta með afruglarana. Já, það kom í ljós ef einhver hefur verið orðinn lúinn hér í deildinni, sem er ótrúlegt, en það kom í ljós þegar menn hlustuðu grannt á ræðu ráðherrans að þetta var fyrst og fremst byggðamál með afruglarana. Það þurfti að tryggja það að blessað fólkið á Djúpavogi og Dalvík, Drangsnesi, Búðardal og Súðavík fengi afruglarana ódýrt. Ég segi það alveg satt að ég hef lengi leitað að byggðastefnunni í fari núv. hæstv. fjmrh. og þetta er í fyrsta sinn sem örlar á henni. Og ég segi alveg eins og er að mér finnst þetta sérkennileg byggðastefna þegar þess er gætt að sami ráðherra leggur núna fram fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir því að taka af Ríkisútvarpinu 300 millj. kr. af mörkuðum tekjustofnum Ríkisútvarpsins vegna aðflutningsgjalda af útvarps- og sjónvarpstækjum. Ég tek undir það með hv. 6. þm. Reykv., Guðrúnu Agnarsdóttur, að auðvitað er uppbygging Ríkisútvarpsins, m.a. dreifikerfis Ríkisútvarpsins, miklu stærra byggðamál en Stöð 2, jafnvel þó að á Stöð 2 séu merkir menningarþættir um eitt og annað eins og hæstv. fjmrh. örugglega þekkir og hefur horft á. (Gripið fram í: Og menningarvitar.) Og menningarvitar, já. Þetta er því svo fullkomlega á skjön a.m.k. við það sem ég hefði talið rökrétt í þessu efni. Þegar menn eru á annað borð að leggja það til að samræma söluskattinn, þá er það kostulegt að á sama tíma og menn ætla að leggja skatt á matvörur skuli menn fella niður skatt á afruglurum og svo að skera niður framlög til Ríkisútvarpsins um 300 millj. kr. Þetta er fullkomlega á skjön, hæstv. ráðherra.

Ég vil að síðustu hér að sinni þakka hv. 8. þm. Reykv. fyrir mjög fróðlega ræðu sem hann flutti. Mér fannst það náttúrlega einkar fróðlegt hvernig hann rakti aðdraganda þessara skattamála í Sjálfstfl. Athyglisvert. Hann sagðist hafa lent í því til að tryggja það að landið fengi starfhæfa stjórn að flytja tillögu um 1000 millj. kr. skatta á þessu ári. Ég veit nú að hann sér að þessi stjórn hefur eiginlega aldrei verið starfhæf þannig að þess vegna hefði tillagan auðvitað verið óþörf. Hún hefur aldrei verið starfhæf, þessi ræfill. En hann sagði: „Á öðru ber ég ekki ábyrgð.“ Mér þykir þetta nokkuð athyglisvert. Og þó verð ég að segja að umræða hans um niðurstöðu hallanefndarinnar var einkar fróðleg. Ég mun láta það verða mitt fyrsta verk í fjh.- og viðskn. á eftir að óska eftir því við hv. formann nefndarinnar, Halldór Blöndal, að skýrsla hallanefndar verði fengin inn á hennar borð. Ég tek undir það með hv. þm. og styð hann eindregið í því að ég vil fá að sjá þessa skýrslu áður en ég afgreiði þessi mál, eins og hann orðaði það. Það kom mér satt að segja ekki á óvart að hv. 8. þm. Reykv. væri sá maður í þingliði Sjálfstfl. sem tæki við sér þegar hann sæi þetta ofboð, þetta flóð af skattahækkunum sem nú eru að ganga yfir þjóðina.

Ég held hins vegar að það væri vissulega þörf á því, vegna þess að hér er staddur hæstv. fjmrh., að hv. 8. þm. Reykv. héldi strax í nótt nokkurt erindi hér í deildinni yfir ráðherranum um þessi mál því að ég er ekki með öllu viss um að hæstv. ráðherra hafi skilið þann fagnaðarboðskap sem fólst í rauninni í ræðunni og léttir af honum skattlagningarkvöðum verulegum, sem ég veit að eru þung spor fyrir hann, að leggja fram skattatillögur upp á 8580 millj. kr.

Ég tel því æskilegt að þessi mál verði skoðuð. Ég óska eftir að fjmrh. upplýsi það hér við þessa umræðu hvar þessi skýrsla hallanefndar er, jafnframt sem ég fer fram á það að hann svari ýmsum þeim öðrum spurningum og athugasemdum sem komið hafa fram í þessari ræðu minni sem ég er að halda nú. Því að til þess að umræðan geti haldið eðlilega áfram verður auðvitað upplýsingastreymið að vera sem greiðast þannig að ekki skapist misskilningur á milli manna vegna þess að upplýsingar liggi ekki fyrir. En það er sem kunnugt er hættulegt ef það verður stífla í upplýsingaflæðinu eins og hefur m.a. komið í ljós í hæstv. ríkisstjórn sl. sólarhring, þar sem einn ráðherrann sagði af sér í morgun þó hann tæki svo aftur til starfa seinna í kvöld.