10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

196. mál, söluskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Það er svona heldur að draga úr þessum umræðum, heyrist mér, ekki eins mikill fítonskraftur og þær hófust með. Ég leyfi mér samt sem áður að vona að stjórnarandstaðan sé vel vakandi.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir kvartaði undan því að ég hefði ekki svarað með viðunandi hætti öllum þeim spurningum sem til mín var beint. Hún spurði hvers vegna fulltrúi frá fjmrn. hefði ekki sótt fund hjá manneldisráði. Svar: Ég hef ekki hugmynd um það. Hún spurði hvort samráð hefði verið haft við fjölskylduhóp sem starfar á vegum ríkisstjórnarinnar áður en ákvarðanir voru teknar um tolla, vörugjald og söluskatt. Svar: Það var ekki gert. Hv. þm. spurði hvort sá sem hér stendur hefði ekki áhyggjur af fjárhag Ríkisútvarpsins. Svar: Jú, og af ærnum ástæðum. Þá held ég að ég hafi svarað þeim spurningum.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flutti hér athyglisverða ræðu og vék að því hvernig mál hefðu staðið hér þegar þessi stjórn var mynduð að því er varðaði vitneskju manna um skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Af því tilefni vil ég leyfa mér að rifja upp að í því kveri sem sumir kalla starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun, en stundum var gantast með í stjórnarmyndunarviðræðum að héti Jónsbók, segir svo, með leyfi forseta:

„Helstu þættir í hinu nýju skattakerfi verði:

1. Staðgreiðsla beinna skatta einstaklinga kemur til framkvæmda í ársbyrjun 1988.“

Þetta var vitað. Að þessu vinnum við. Þetta verður vonandi.

„2. Tekjuskattsálagning atvinnurekstrar verði jafnframt endurskoðuð og einfölduð og að því stefnt að ný skipan taki gildi á árinu 1988.“

Starfshópur var settur til þessa verks í ágústmánuði á liðnu sumri. Hann hefur nú skilað til ríkisstjórnar frv. að breytingum. Það frv. hefur verið rætt á tveim ríkisstjórnarfundum og hefur á ríkisstjórnarfundi í dag verið vísað til þingflokka til umfjöllunar og fékk að mínu mati jákvæðar undirtektir í ríkisstjórninni.

„3. Launaskattur og tryggingagjöld atvinnurekenda vegna launþega verði einfölduð og samræmd og leggist sem jafnast á allar atvinnugreinar.“

Þarna var hugmyndin sú að lækka launaskatt á þeim greinum atvinnulífs sem nú bera 31/2% launaskatt. Hugmyndirnar voru um að launaskattur yrði 1 eða 11/2%. Niðurstaðan varð ekki alveg sú. Niðurstaðan er sú að fyrir liggur á Alþingi frv. til laga um 1% launaskatt í þeim greinum sem áður báru hann ekki eftir breytingarnar vegna kjarasamninganna í febr. 1986, en eftir sem áður bera verslun og þjónustufyrirtæki 31/2% launaskatt þannig að í besta falli getum við sagt að þarna hafi verið stigið skref í átt til samræmingar en ekki til fulls. Og rökin eru þau að menn telja að of mikillar þenslu gæti hér, einkum á höfuðborgarsvæðinu og þá einkum og sér í lagi í verslun og þjónustu sem lýsir sér m.a. í þeim áhyggjum sem menn hafa með réttu út af sívaxandi viðskiptahalla.

„4. Athuguð verði skattlagning fjármagns- og eignatekna og samhengi slíkrar skattlagningar og eignarskatta og skatta af öðrum tekjum.“

Það gildir um þetta mál eins og önnur að starfshópur var skipaður til þess innan ráðuneytis með samráði við sérfræðinga ríkisskattstjóraembættis og reyndar valinkunna endurskoðendur aðra að fara í gegnum þetta mál. Þetta er flóknasti þátturinn í skattalöggjöfinni, sá þáttur íslenskrar skattalöggjafar sem kannski er með stærstu gati. Þess má geta að einn helsti sérfræðingur fjmrn. í skattamálum fór á þessu hausti í sex vikna kynnisferð til Bandaríkjanna til þess að kynna sér einkum og sér í lagi skattalöggjöf Bandaríkjanna að lokinni endurskoðun að því er varðar fyrirtæki og fjármagns- og eignatekjur. Hann hefur skilað skýrslu um þær athuganir. Sömuleiðis hefur þessi starfshópur lagt nokkra vinnu í upphaf þessa máls, en það hefur ævinlega verið tekið fram af minni hálfu að þetta mál sé þess eðlis að hjá því verði ekki komist að leggja í það meiri vinnu og þess sé ekki að vænta að niðurstöður af því starfi verði lagðar fram og kynntar í ríkisstjórn og þingflokkum fyrr en á næsta ári. Að nokkru leyti tengist þetta líka þeirri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem var þáttur í efnahagsráðstöfunum hennar í október, að gera ráðstafanir til þess að draga úr þeim mun sem er annars vegar á ávöxtunarkjörum verðbréfa, spariskírteina opinberra aðila, banka, verðbréfamarkaðar og hins vegar hlutafjáreignar í fyrirtækjum. Þarna ber einnig að taka tillit til þeirra sjónarmiða að síst af öllu vakir það fyrir mönnum að draga úr sparnaði. Engu að síður verður að leggja þá grundvallarreglu til hliðsjónar þessari endurskoðun að allar tekjur, hvernig sem þeirra er aflað og af hvaða rótum sem þær eru runnar, verði skattlagðar út frá jöfnum sjónarmiðum þannig að þetta mál er í athugun, enda segir hér í stefnuyfirlýsingu að það skuli athugað.

„5. Tekin verði upp ný, samræmd og einfölduð gjaldskrá aðflutnings- og vörugjalda sem gæti komið til framkvæmda á árinu 1988.“

Mikið starf hefur verið í þetta lagt og nú stöndum við hér á kvöldfundi í hv. Ed. og ræðum ávöxtun. Og þar er m.a. um að ræða aðför að hafnarbakkaverðbólgunni sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur með mestum fítonskrafti varað við á undanförnum árum og ég er honum innilega sammála um það. Þetta er að því leyti vissulega skref í rétta átt og einhver merkasta bylting sem orðið hefur í skattamálum á Íslandi, sennilega í sögu lýðveldisins, þó að einstaka úrtölumenn og íhaldssamar sálir úr flokkum sem kenna sig við vinstri amist við því.

„6. Virðisaukaskattur, eða nýtt og endurbætt söluskattskerfi, verði komið í varanlegt horf 1989. Undanþágum frá núverandi söluskatti verður fækkað í áföngum sem aðdraganda að breyttu skattkerfi. Fyrsta skref í þessa átt kemur til framkvæmda um mitt ár 1987 og annað í ársbyrjun 1988.“

Við þetta hefur verið staðið.

Þetta voru helstu stólparnir í þeirri skattayfirlýsingu sem ríkisstjórnin lét frá sér fara og ég fæ ekki betur séð en að menn geti nú sagt: Þarna var sjókortið gert klárt. Þetta var það sem menn lýstu yfir. — Þetta er reyndar í fullu samræmi við málflutning a.m.k. míns flokks fyrir kosningar og á þessi mál lögðum við mikla áherslu. Ég fæ því ekki séð að neitt í þessum aðgerðum eigi að koma mönnum á óvart. Þvert á móti held ég að það verði ekki annað sagt en að stjórnarflokkarnir, ríkisstjórnin, hafi á tiltölulega stuttum starfstíma reynt af fremsta megni og með mikilli vinnu að koma í framkvæmd og leggja fyrir Alþingi frumvörp um breytingar á skattakerfinu í samræmi við þessa stefnuyfirlýsingu.

Að því er varðar ábyrgð á þessu fæ ég ekki varist því að segja einfaldlega: Við berum sameiginlega ábyrgð á þessari stefnuyfirlýsingu, þessari starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Við berum sameiginlega ábyrgð á því fjárlagafrv. sem lagt var fram. Ég vek á því athygli að í viðtali við formann Sjálfstfl. hefur hann látið þess getið að hann hafi í byrjun októbermánaðar, þegar sýnt þótti að fyrstu aðgerðir hefðu ekki skilað nægum árangri og áhyggjur manna af vaxandi viðskiptahalla fóru vaxandi, haft frumkvæði að því að við þessar aðstæður ætti þessi ríkisstjórn að leggja fram fjárlagafrv. með fullum jöfnuði, stíga skrefið stærra en við áformuðum í upphafi, nefnilega að sætta sig ekki við halla í fjárlagafrv. upp á 1/2% af landsframleiðslu eða 1200 millj. kr., heldur bæri að leggja það fram með jöfnuði og gera það að meginstólpa í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar við ríkjandi aðstæður. Þetta var gert. Í því fólst að þessi 1200 millj. kr. halli var jafnaður með tvennum hætti, með lækkun ríkisútgjalda upp á tæpar 600 millj. kr. og tekjuöflun upp á um það bil 600 millj. kr. eða rúmlega það.

Ég hlýt að sjálfsögðu að trúa því að þessi áform hafi verið kynnt jafnt í öllum þingflokkum og ég veit ekki betur, ég er fullvissaður um það af forsvarsmönnum stjórnarflokkanna, en að svo hafi verið og að með þeim hætti hafi fjárlagafrv. fengið eðlilega málsmeðferð sem stjfrv. samþykkt af stjórnarflokkum. Virðulegi forseti. Það var spurst fyrir um skýrslu hallanefndar svokallaðrar. Því er hægt að svara stutt og laggott, mín vitneskja um störf hallanefndar er af skornum skammti. Ég vissi satt að segja ekkert af tilvist þeirrar virðulegur nefndar fyrr en upp hófust ritdeilur nokkrar milli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar og starfsmanns Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, skrifstofustjóra hennar, Gunnars Hall, sem fram fóru í dagblöðum fyrir nokkrum vikum. En af þeim má ráða að hallanefnd er skipuð nokkrum valinkunnum embættismönnum og sérfræðingum úr fjmrn., Seðlabanka, Háskóla og annars staðar og er skipuð, að mér skilst, að frumkvæði forvera míns, hæstv. núv. forsrh. og hefur allviðamikil verkefni, nefnilega að vinna hinn íslenska þátt heildarathugunar sem fram fer á vegum EFTA til samræmingar fjárlaga.

Það kom fram í þessum skoðanaskiptum í blöðum að hallanefnd hefði ekki lokið störfum og ég hef ekki nýjar upplýsingar að flytja um það hvort hún er eitthvað nær því. Ég mun að sjálfsögðu verða við tilmælum hv. þm. og grennslast fyrir um það og víst skal ég reyna að leggja því lið ef ég get að ýta undir það að hún ljúki störfum því hér er um að ræða fróðlega athugun.

Hinu er ekki að neita að hv. þm. og formaður nefndarinnar eru ekki alveg sammála um niðurstöður nefndarinnar í starfi hennar hingað til. En meginsjónarmiðið er það að breyta eigi reikningsfærslu og bókhaldi í ríkisfjármálum og þá á þann veg að millifærslusjóðir verði teknir inn í A-hluta ríkisfjármála. Og þá er sjónarmiðið það að á móti framlögum ríkisins til sjóða eins og húsnæðislánasjóðanna, Lánasjóðs ísl. námsmanna, Byggðasjóðs o.s.frv. beri einnig að gjaldfæra á móti innkomnar tekjur þessara millifærslusjóða af endurgreiðslum og að það megi líta svo á, ef við lítum á tímabilið 1980–1985, að þessi uppsetning hefði breytt niðurstöðutölum fjárlaga að verulegu leyti. Þá er hins vegar á það að líta að endurgreiðslur mjög margra þessara sjóða eru með þeim hætti að þessir sjóðir rýrna árlega að eigin fé og fá ekki endurgreiðslur á raunvöxtum. Frægasta dæmið um það er að sjálfsögðu Lánasjóður ísl. námsmanna. Gott dæmi um það nú er það að í fjárlögum á þessu ári voru framlög til hans af ríkisframlögum stóraukin og eru, ef ég man rétt, 600–700 millj. kr. þar sem byggt er á því að auka eigin framlög því sem næst sem því svarar sem sjóðurinn þarf að endurgreiða af áður teknum erlendum lánum. En þó að með ríkisframlögum sé þannig reynt að stuðla að eiginfjáruppbyggingu þessa sjóðs breytir það ekki því að endurgreiðslur sjóðsins bera að sjálfsögðu enga vexti, eru verðtryggðar að nafninu til en endurgreiðsluákvæðin eru skert þannig að í raun og veru má áætla að endurgreiðslur séu ekki nema á bilinu 40–50% af raunvirði endurgreiðslna. Þetta á við um Lánasjóðinn. Sama á við um byggingarlánasjóðina, sama á við um marga aðra millifærslusjóði hins opinbera sem lána út fé á niðurgreiddum vöxtum. Þegar til lengri tíma er litið yrði því niðurstaða þessa dæmis ekki sú sem mér hefur virst að hv. þm. geri ráð fyrir, fyrir utan það að niðurstöðurnar virðast vera aðrar eftir bráðabirgðaskoðun á árunum 1986 til dagsins í dag og það er á þeim árum sem snerist á verri veg að því er varðaði halla í ríkisfjármálum. Reyndar er það partur af starfi þessarar nefndar að hún hefur gert á því bráðabirgðaathugun hvert hefði stefnt með halla á ríkissjóði ef áfram hefði haldið sá, við getum sagt kerfishalli sem byggði á hinum veiku tekjustofnum, vaxandi halla og þeirri staðreynd að raunávöxtun lána hefur verið mjög há. Þess vegna má draga af því þá ályktun að þessi halli hefði orðið illviðráðanlegur hefði hann vaxið og væri þá reyndar sama á hvern veg við hefðum hagað reikningsfærslu sjóðanna.

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson var ekki alveg sannfærður af þeim tölum sem ég fór með um þá skatta sem lagðir hafa verið á í tíð núv. ríkisstjórnar, en þar sýndi ég fram á það að nettóskattarnir sem ríkisstjórnin hefur staðið að eru 5700 millj. kr. Þær tölur sem ég fór með voru þessar og þar ber reyndar ekki mikið í milli: Þeir skattar sem voru ákveðnir með fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar en koma inn í fjárlög ársins 1988 eru áætlaðir upp á 3700 millj. kr. Og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um aðra skattheimtu og birtast í niðurstöðutölum fjárlaga og tengjast fjárlagafrv. eru metnar á rúmlega 2000 millj. kr. þannig að niðurstaðan er 2700 millj. kr.

Þær aðgerðir eða sú útfærsla sem varðar tekjuhlið fjárlagafrv. sem felst í þeirri kerfisbreytingu sem hér er til umræðu, þ.e. tollalækkunin og vörugjaldslækkunin en breikkun söluskattsstofnsins í 25% söluskatti felur í sér auknar tekjur tekna megin upp á 2050 millj. kr. Þá ber þess hins vegar að geta að þessi upphæð er greidd út jafnharðan, annars vegar vegna niðurgreiðslna og hins vegar vegna millifærslna lífeyristrygginga og barnabóta.

Um frekari tekjuáform er ekki að ræða umfram það að við lok fjárlaga til 2. umr. hefur tekjuáætlun verið endurmetin í samráði við Þjóðhagsstofnun vegna veltubreytinga um 600 millj. kr. og þar er gert ráð fyrir bættum skattaskilum upp á 400 millj. kr. Aðrar tölur um aukna skattlagningu lúta þá að öðrum stjórnvaldsaðilum, þ.e. hækkun útsvars umfram verðlagsbreytingar og hækkun fasteignagjalda sem áætluð hafa verið.

Hv. þm. hélt því fram í fyrstu ræðu sinni að vegið á mælikvarða landsframleiðslu hefði hlutur ríkisins í heildarskatttekjum aukist mjög, þ.e. í 24,7% en hefði verið hæstur áður á árinu 1982 24,5% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hvers tíma. Það er rétt að hlutfallið hefur hækkað og ástæðan er auðvitað sú, og ég er ekkert að neita því, að tekjuöflun hefur verið aukin til þess að eyða hallarekstri ríkissjóðs. En þær tölur sem ég hef hér undir höndum um hlutfall ríkisins af vergri landsframleiðslu eru þessar — það er best að hafa formálann réttan. Ég er annars vegar að ræða um hlutfall ríkisins af landsframleiðslu í heildartekjum. Fyrst, heildartekjur ríkisins af vergri landsframleiðslu eru þessar:

Árið 1986 24%, þar af skatttekjur 22%. Árið 1987, fjárlög, 24,4%. Endurskoðuð áætlun 1987 23,2%, þar af skatttekjur 22%. Frv. 1988 24,8%, þar af skatttekjur 23,5%. Ef við vegum þetta á gjöld, og segjum fyrst heildargjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, þá eru tölurnar þessar: 1986 25,2%, fjárlög 1987 26%, endurskoðuð áætlun haust 1987 24,2%, frv. 1988 24,8%. En ef við lítum á þessi gjöld án vaxta eru tölurnar þessar af því að hv. þm. óskaði eftir talnaflóði: 1986 22,7%, endurskoðuð áætlun 1987 22,5%, frv. 1988 22,8%.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Júlíus Sólnes hafði áhyggjur af ferðamannaþjónustu og taldi að litlar líkur væru til þess að við gætum lokkað menn af framandi þjóðum til þess að sækja okkur heim á þessu góða og glæsta eylandi sem við byggjum ef fram færi sem stefndi um virðisaukaskattinn. Þetta kemur mér nokkuð á óvart. (Gripið fram í: Og aðra skatta.) Og aðra skatta, já. Það vill nú svo til að erlendir þegnar eru ekki skattskyldir í þessu landi. En þeir verða að greiða að sjálfsögðu óbeina skatta, þann virðisaukaskatt sem við stefnum að. (Gripið fram í: Og vörugjald.) Já, já, það er ekki hátt og tollar núna mun lægri. Sannleikurinn er sá að þessi breyting mun m.a. leiða til þess að íslenskir ferðamenn sem gjarnan hafa stundað nokkur innkaup í útlöndum eru nú mun líklegri til þess annað af tvennu að láta af kaupum á mörgum vörum sem þeir hafa sóst eftir af því að þær hafa verið svo hátollaðar hér eða að verðmunurinn verður svo lítill vegna þess að verðhlutföllin verða miklu líkari að í þeim fáu tilvikum þar sem það kynni að borga sig eru þeir mun líklegri til þess að fara í gegnum rauða hliðið og telja þessar vörur fram vegna þess að álögur á þær væru óverulegar.

Í annan stað, að því er varðar ferðamannaþjónustu. Virðisaukaskattur hentar ferðamannaþjónustu ákaflega vel. Og nú vill svo til að mesta ferðamannaþjóð í Evrópu er vafalaust Ítalía, það gullna land sækja heim fleiri einstaklingar af öðrum þjóðum en nokkurt annað land og mun fleiri en landið byggja. Ekki veit ég til þess að virðisaukaskattur, flókinn nokkuð og allhár á Ítalíu, hafi flæmt ferðamenn þar úr landi og sama má eiga við gjarnan um helstu ferðalönd álfunnar. Það hefur ekki verið neinum vandkvæðum bundið, hvort heldur er á Ítalíu eða á Spáni að byggja upp ferðamannaiðnað þótt þar væri virðisaukaskattur sem er fyrst og fremst það mál, tollar og virðisaukaskattur, sem varðar ferðalög. Ábending hv. þm. um það að taka upp það kerfi að ferðamenn sem hér mundu vilja gera innkaup fengju endurgreiddan virðisaukaskatt er reyndar sjálfsagður hlutur og eðlilegt að stefna að því.

Að því er varðar umræðuna um hugsanlega óhagstæð áhrif á skattbyrðina innan ársins og ummæli hv. þm. um það efni tek ég aðeins fram að þær hugmyndir sem ég reifaði hér eru niðurstaða af umræðum sem fram fóru í þingflokki Alþfl. um það mál og við munum að sjálfsögðu verða við því að koma þeim hugmyndum á framfæri við hv. þingnefnd.

Fleiri athugasemdir held ég að hafi ekki komið fram í þessari seinni lotu. Ég vona að þessi umræða hafi með nokkrum hætti upplýst málið. Það er kannski ekki hvað síst athyglisvert við þessar breytingar, þótt þær virðist viðamiklar og flóknar, að hugmyndirnar sem við erum að byggja á eru einfaldar. Þær eru afar einfaldar. Og að sjálfsögðu erum við hér að ræða um mjög mikið framfaraspor við endurskoðun á skattakerfi sem flestum bar saman um satt að segja að væri orðið óbeysið. Minni ég þar á ummæli oddvita hæstv. fyrrv. ríkisstjórnar sem sögðu það fullum fetum í kosningabaráttunni að skattakerfið íslenska væri í molum, eins og annar orðaði það, og hinn að það væri í brotum.

Við erum hér að lækka tolla úr 80% í 30%. Við erum að afnema fjölmörg gjöld önnur. Við erum að hverfa frá úreltum skilgreiningum úreltra tollalaga þar sem daglegar neysluvörur fólks voru flokkaðar sem hátollavörur. Við erum að færa 6000 tollnúmer þannig til að 5000 beri engan toll. Við erum að afnema alla tolla á innfluttum matvælum. Við erum að stíga lokaskrefið í því að afnema alla tolla á aðföngum, vélum, tækjum og hráefnum til atvinnuveganna. Og af því að ég sé að hv. þm. Egill Jónsson er genginn í salinn er rétt að minna á það að því er varðar landbúnaðarmálin að þarna er stigið stórt skref í þá átt að lækka tolla og lækka vörugjöld og tilkostnað, aðflutningsgjöld af aðföngum landbúnaðarins. Ekki hvað síst á þetta við t.d. um margvísleg og þörf handverkfæri. Ef ég lít á gróðurhúsabændur þá er þar um að ræða stórfelldar breytingar í átt til lækkunar á útgjöldum þess atvinnurekstrar til aðfanga. Við erum að gera íslenskt atvinnulíf samkeppnishæfara en áður. (Gripið fram í: Þetta er af tækjum sem voru notuð um aldamót, ráðherra.) Nei, nei, þau eru í fullu gildi við Djúp og víðar. Við erum að breyta verðhlutföllum til samræmis við það sem ríkir í grannlöndum okkar. Við erum að stuðla að því að færa verslunina inn í landið. Við erum m.ö.o. að framkvæma hugmyndir sem mikil samstaða er um. Við erum að stíga stórt skref í þá átt að eyða hafnarbakkaverðbólgunni og ég hef reyndar reifað hugmyndir um það að við gætum gengið skrefinu lengra í þá átt.