10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

197. mál, vörugjald

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú þegar viðurkennt að vörugjaldið er í raun 17%, þó að hann hafi í öllum fjölmiðlum fram til þessa talið það vera 14%. Það stafar að sjálfsögðu af 5. gr. frv. þar sem segir að það skuli leggja vörugjaldið á eftir að búið er að bæta við gjaldstofninn 25% áætlaðrar heildsöluálagningar. Ég held að það hefði verið eðlilegra að viðurkenna það strax opinberlega að vörugjaldið er 17,5%, en ekki 14% eins og hæstv. ráðherrann hefur talað um.

Vörugjaldið kom til sögunnar skömmu eftir Vestmannaeyjagosið eins og öllum er í minni og hét þá tímabundið vörugjald. En það er með það eins og aðra skatta sem lagðir eru á að þeir hafa tilhneigingu til að festast. Þetta „tímabundna“ gufaði einhvern tímann upp á lífsleiðinni fyrir nokkrum árum, og vörugjaldið er komið til þess að vera. Það virðist ekki vera hægt að losna við það með nokkru móti. Ég held samt sem áður að afar fróðlegt væri fyrir þingheim að fara yfir lista yfir þau númer sem verða með vörugjöldum og bera saman við þau númer sem verða án vörugjalda. Í sjálfu frv. eru númerin í 3. gr. talin upp án nokkurra skýringa. Ég held að það væri fróðlegt fyrir þingheim að sjá hvað þarna er á bak við. Og þó það taki dálítinn tíma held ég að það verði mjög fróðleg umræða og gæti varpað nokkru ljósi á með hvaða hætti hæstv. ráðherrann hyggst skattleggja fólkið hér í landinu.

Ef við byrjum eru dæmi um efni og tollflokka sem eru án vörugjalds, það er t.d. ryðvarnarolía, málning, þurrkefni, litir til listmálunar, skiltagerðar o.s.frv., innsiglislakk, aðrir prentlitir. Og mér þykir vænt um að hæstv. fjmrh. hugsar hlýlega til kvenþjóðarinnar vegna þess að ilmvötn, varalitur og alls kyns krem eru án vörugjalds og er það vel. Sömuleiðis er séð fyrir hárinu, hárþvottalögur og hárlakk eru án vörugjalds. Tannkrem er án vörugjalds og það er nú eins gott því það kom fram í umræðum áðan að tannheilsa Íslendinga er afleit. Svo það er nú gott að sjá það að tannkrem skuli verða án vörugjalds. Rakkrem og ilmefni í tengslum við rakstur eru án vörugjalds, og svo er um handsápu og raksápu og reyndar aðra sápu og þvottaefni. Þetta byrjar mjög vel vegna þess að það virðist svo að hæstv. ráðherrann hafi hugsað sér að allt sem lýtur að hreinlæti og þrifnaði landsmanna skuli vera án vörugjalds. En það er ekki víst að það verði svo gott þegar við höldum lengra áfram í listanum.

Það er margt fróðlegt sem kemur hér fram. Lím er án vörugjalds, púður og sprengiefni, það er án vörugjalds, það er nú mjög gott, og kveikiþráður og flugeldar, ekki skal lasta það. Eldspýtur og gas, filmur og fúavarnarefni, hleðslur fyrir slökkvitæki, þynnir, frostlögur, íblöndunarefni fyrir sement, ryðvarnarefni, slöngur og pípur úr plasti, gólfefni úr plasti, plötur í loft, klæðningar til bygginga.

Svo kemur næsti flokkur og þá er sett á vörugjald. Það eru baðker og salerni. Ef orðið heimili kemur nálægt, þá er vörugjald og það á eftir að verða eins og rauður þráður í gegnum allan þennan lista. Í hvert skipti sem heimili kemur nálægt vöruflokknum, þá er vörugjald. Hér eru í framhaldi vörur án vörugjalds. Það eru öngultaumar. Mér þykir mjög vænt um það því að ég nota öngultauma sjálfur þegar ég fer á laxveiðar, svo að mér var nú mjög létt þegar ég sá að þeir eru án vörugjalds.

Hjólbarðar, það er búið að hrósa sér mikið af því að hjólbarðar verða nú án vörugjalds. Túttur, það er gott fyrir blessuð börnin að tútturnar eru ekki með vörugjaldi. Ég veit ekki hvernig það hefði farið. (Gripið fram í: Segðu foreldrana.) Foreldrana, ég tek undir það. Ég hefði haft miklar áhyggjur ef ég hefði séð að túttur yrðu með vörugjaldi. Það eru strokleður og tappar og hettur, gúmmí til lækninga, það er vel. (Gripið fram í.) Ja, það heitir það í tollskránni, ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Ferðakostnaður, belti og þess háttar, vörur úr þörmum, stendur hérna, og timbur, parket, spónaplötur, trefjaplötur, krossviður, viðarrammar og þakspónn og borðbúnaður, innlagður viður, allt er þetta án vörugjalds, og herðatré og handföng og áhöld, korkvörur, korkhólkar. (Gripið fram í: Ertu búinn að byggja?) Ég held að ég verði að fara að byggja aftur, það er ekkert vörugjald á þessu.

Mottur og ábreiður og körfugerðarvörur, veggfóður, gólfklæðning, umslög, póstkort, dagbækur, stílabækur, skjalabindi. Það er gott fyrir Alþingi að það er ekki vörugjald á þessu. Póstkort og almanök, þakfilt úr flóka, spunaefni og gólfteppi, allt er þetta án vörugjalds, veggteppi, garðhlífar og þess háttar, göngustafir og steinar til bygginga.

Hér er reyndar einn hlutur sem tengist heimili sem er án vörugjalds og það hefur líklega sloppið í gegnum hreinsunareldinn. Þetta hefur væntanlega farið fram hjá hæstv. ráðherranum og hans aðstoðarmönnum. Ef þeir skyldu nú vilja lagfæra þetta með brtt., t.d. við 2. umr., er nr. 6802.2101, svo að þeir geti breytt þessu og sett vörugjald þarna á, en þetta eru búsáhöld og skinnvörur. Og reyndar eru hér búsáhöld úr granít og þess háttar. Það er þarna undir númerinu 6802, svo að hæstv. ráðherrann og aðstoðarmenn hans geti skrifað þetta hjá sér og lagað þetta í skyndi því að þarna hafa, eins og ég segi, orðið mistök að þessi búsáhöld sluppu í gegn án vörugjalds.

Gjallull og steinull í lausum þynnum eða rúllum er án vörugjalds, þaninn leir og þess háttar, hljóðeinangrunarplötur, þak- og veggjaasfalt, spónaplötur, spónaplötur með gifsi, pípur úr sementi, bremsuborðar, unninn gljásteinn, vörur úr steini, þakflísar. Það er vel séð fyrir byggingarvörum og ég fagna því að þeir sem fara að byggja á næstunni þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af vörugjaldinu nema ef eitthvað lýtur að hreinlæti innan húss. Nú er það svo að vísu, eins og kom fram í upphafi, að sápur og þess háttar er án vörugjalds, en hér koma tvö númer, vaskar og handlaugar, sem eru með vörugjaldi. Og það kemur aftur að því sem ég gat um að ef orðið heimili kemur nálægt þá er vörugjald.

Svo eru styttur og skrautvörur og vörur úr gleri, öryggisgler og glerspeglar. Það er nú reyndar tengt heimili. Ég held að þetta hafi líka farið fram hjá hæstv. ráðherranum og hans aðstoðarmönnum. Gangstéttarhellur, glerperlur og eftirlíkingar, glertrefjar, mottur, skartgripir. Ég er út af fyrir sig alveg sammála því því að það er eins og kom fram í upphafi að það er reynt að gera vel við kvenþjóðina og ég held að við getum allir, a.m.k. þm., verið sammála því.

Reyndar eru hér nefnd búsáhöld úr silfri og góðmálmum, þau sleppa við vörugjald. En það er líklega vegna þess að láglaunafólkið kaupir lítið af svoleiðis svo að það þarf ekki að hafa vörugjald á því þess vegna. Ef almenningur upp til hópa mundi kaupa mikið af búsáhöldum úr silfri og góðmálmum yrði væntanlega sett vörugjald á þetta.

Glysvarningur, svona ermahnappar og þess háttar, það er án vörugjalds. Síðan koma flatvalsaðar vörur úr járni og stáli, 600 millimetrar eða meira, það er án vörugjalds, flatvalsaðar vörur úr járni eða stáli, 600 millimetrar eða minna, það er líka án vörugjalds. En ég skil ekki af hverju vírstengur yfir 6 millimetrar að gildleika eru með vörugjaldi, og steypustyrktarstál er með vörugjaldi, það er mjög furðulegt. Nú prófílar og alls konar leiðslur og pípur úr járni, það er án vörugjalds, aðrar leiðslur og pípur, t.d. soðnar eða hnoðaðar, það er án vörugjalds.

En svo kemur hérna mjög einkennilegt. Það er gaddavír fyrir bændur með vörugjaldi. Það á ekki af aumingja bóndanum að ganga sem þarf að vera með söluskattskassann á heybindivélinni. Hann þarf líka að borga vörugjald af gaddavírnum.

Keðjur, hjólbarðakeðjur og hlífðarkeðjur hvers konar eru án vörugjalds, skrúfboltar og skrúfur, rær og aðrar rær, spennuskífur og þess háttar, hnoð, þetta er allt án vörugjalds.

Svo kemur hérna afar athyglisvert. Hér er um heimilistæki að ræða sem eru án vörugjalds og þá verður maður furðu lostinn þangað til maður fer að lesa betur. Það eru nefnilega eldavélar fyrir gas, og eldavélar fyrir fljótandi eldsneyti og eldavélar fyrir fast eldsneyti, það er án vörugjalds. En allar eldavélar eins og venjulegt fólk notar, sem notar rafmagn fyrir sín heimilistæki, eru með vörugjaldi. Sem sagt, ef þið viljið setja upp eldavél og kynda hana með kolum getið þið keypt hana án vörugjalds.

Hér er aftur tollnúmer yfir vaska, baðker og önnur hreinlætistæki. Það er allt með vörugjaldi því þó að sápan sé án vörugjalds á það að kosta að setja nauðsynlegan búnað til þess að nota sápuna. Hins vegar eru koparleiðslur og koparpípur án vörugjalds, naglar og boltar og teiknibólur og margt þess háttar. Hreinlætisvörur úr kopar eru með vörugjaldi því að hreinlæti kostar. Pípur úr nikkel og álplötur til bygginga, þetta er allt án vörugjalds, álleiðslur og pípur, álleiðsluhlutar.

Hreinlætisvörur heitir hér einn tollflokkur og hann er svona einn og dálítið einmana með vörugjaldi. Síðan koma álnaglar, leiðslur úr blýi, leiðslur úr sinki, handknúin tæki, hnífar, borðbúnaður. Það er gott að það er ekki vörugjald á því þannig að þess háttar vörur verða þrátt fyrir allt ekki með vörugjaldi. Síðan eru hér rakhnífar, rakvélablöð og þess háttar. Mér er tjáð að það hafi átt að vera með vörugjaldi en þá hafi einn þm. tjáð embættismönnunum sem voru að undirbúa þetta frv. að hann hefði keypt sér ársbirgðir af rakhnífum og rakvélablöðum á ferð sinni erlendis og komið með heim. Svo að hæstv. ráðherrann og embættismennirnir hafa líklega fallið frá því að setja vörugjald á rakvélablöð vitandi það að það væri auðvelt að birgja sig upp í útlöndum og koma með ársbirgðir með sér heim þá sjaldan að þm. skreppa til útlanda.

Ég get haldið svona áfram. Miðstöðvarkatlar eru án vörugjalds og forhitarar fyrir miðstöðvarkatla. Ég er nú mjög feginn því vegna þess að ég á sjálfur eftir að kaupa tvo forhitara fyrir hús mitt á Seltjarnarnesi, þannig að það er mikil huggun að sjá að þeir verða án vörugjalds.

Heimilisviftur eru með vörugjaldi, en loftjöfnunartæki fyrir glugga með kælibúnað og þess háttar, það er án vörugjalds. En kæliskápar fyrir heimili eru með vörugjaldi, og frystikistur eru með vörugjaldi. En kæliborð fyrir verslanir eru að sjálfsögðu án vörugjalds.

Síðan koma aftur heimilistæki með vörugjaldi. Gaskyntir hraðvatnshitarar sleppa við vörugjald, þannig að það kynni að vera að maður ætti að setja upp gaskynta hraðvatnshitara til að sleppa við vörugjaldið. En þurrkarar til heimilis eru með vörugjaldi, og uppþvottavélar til heimilis eru með vörugjaldi.

Síðan sé ég hér eitt númer og það eru sjálfknúnir bergskerar. Það er náttúrlega mikil huggun að þeir skuli ekki vera með vörugjaldi því að við ætlum jú að fara að bora tugi kílómetra af jarðgöngum þannig að það var nú annað hvort að sleppa sjálfknúnum bergskerum við að vera með vörugjaldi.

Og áfram er haldið. Um leið og heimilið kemur nálægt kemur vörugjaldið, þvottavélar, þvottavélar með vindu, þvottavélar fyrir 10 kg eða minna, þurrhreinsivélar, þurrkarar, strauvélar, allt er þetta með vörugjaldi og svo önnur heimilistæki með vörugjaldi. Rafhlöður eru án vörugjalds.

Önnur heimilistæki, ryksugur, bónvélar, eldhússorpkvarnir, hrærivélar, önnur tæki, allt er þetta með vörugjaldi. Heimilisstraujárn eru með vörugjaldi, að sjálfsögðu, eldavélar, ofnar og kaffivélar. Ég er sjálfur ekkert á móti því að kaffivélar séu með vörugjaldi. Ég held að við þm. drekkum allt of mikið kaffi og þjóðin öll, þannig að það getur vel verið að það ætti að vera dýrara að búa til kaffi. Ristar og hraðsuðukatlar. Síðan eru hér hljóðnemar og hátalarar, heyrnartól, hljóðmagnarar, plötuspilarar og þess háttar. Hér er reyndar einn hlutur með vörugjaldi sem ég er mjög sáttur við. Það er það sem Ameríkumenn kalla „jukebox“, og er mér ósárt um það þó að það sé með vörugjaldi. Segulbandstæki eru með vörugjaldi og símsvarar en það er athyglisvert að símar eru ekki með vörugjaldi. Ég er nú að verða búinn ef hv. þm. eru orðnir þreyttir á þessu. En ég held að það sé mjög nauðsynlegt til að skilja hvernig vörugjaldið er hugsað og hvernig hæstv. ráðherrann og hans aðstoðarmenn hafa valið að leggja þetta vörugjald á.

Segulbönd eru án vörugjalds, og hljómplötur eru án vörugjalds. Það er lítið um það að segja, en hins vegar eru útvörp og fjarstýribúnaður fyrir leikföng með vörugjaldi. Litsjónvörp fyrir sjónvarpsstöðvar eru án vörugjalds en önnur litsjónvörp til heimila eru með vörugjaldi, og loftnet og tengdir hlutir eru með vörugjaldi, það sem heimilin nota.

Allur vír er með vörugjaldi og er engin sérstök skýring á bak við það. Reiðhjól sluppu og vonandi hafa menn orðið sammála um það að það væri af hinu góða að reiðhjól væru án vörugjalds, enda man ég eftir umræðu hér í þinginu fyrir nokkrum árum um að afnema aðflutningsgjöld af reiðhjólum sem þótti gott mál. Barnavagnar eru án vörugjalds og getum við öll tekið undir það að ekki megi leggja álögur á blessaða foreldrana og börnin.

Bátar, seglbátar, vélbátar, eru án vörugjalds. Sjóngler fyrir annað augað eða bæði augu eru án vörugjalds. Úr og klukkur eru án vörugjalds og öll hernaðarvopn eru án vörugjalds. Það er mesti munur að vita af því, þannig að ef það kæmi nú til stríðs er ódýrt að flytja inn hernaðarvopn, svo sem marghleypur og skammbyssur og önnur skotvopn og þess háttar. Hlutir og fylgihlutir í skotvopn, þetta er allt án vörugjalds. Sprengjur og skothylki, það er líka án vörugjalds, og sverð og höggsverð eru án vörugjalds, sæti í flugvélar er án vörugjalds, sæti í bíla, bólstruð, snúningsstólar með hæðarstillingu eru án vörugjalds og tannlæknastólar. Flest húsgögn eru án vörugjalds, ef ekki öll. Leikföng eru án vörugjalds, samkvæmisleikir hvers konar eru án vörugjalds og sjónhverfingahlutir eru án vörugjalds. Og reyndar er 0% tollur á samkvæmisleikjum að auki. Við getum komið inn á það betur seinna í nótt. Íþróttavörur eru án vörugjalds og tek ég heils hugar undir það og eins veiðistengur. Ég er mjög ánægður með það því ég ætla að kaupa mér veiðistöng næsta sumar. Hringekjur fyrir farandleikhús eru án vörugjalds og unnið fílabein. Mikið er ég feginn að vita að unnið fílabein skuli vera án vörugjalds. Handsíur eru án vörugjalds og kúlupennar og blýantar, skólatöflur og þess háttar. Það er nú gott því að það væri vont ef ætti að fara að skattleggja sérstaklega hluti sem við þurfum á að halda fyrir skólabörnin okkar.

Þessi langi listi, sem ég taldi rétt að lesa upp, sýnir mjög glöggt að það var hægt að gera annað tveggja. Það var hægt að leggja 3% vörugjald á allt og þá þurfti enginn að hafa áhyggjur af þessu meir. En velja þá leið að draga fram allar heimilisvörurnar og setja vörugjald á þær en sleppa öllu öðru við vörugjöld sýnir hug hæstv. ráðherra og embættismanna hans til almennings í landinu, til heimilanna, til hins almenna manns sem þarf að borga 25% söluskatt fyrir soðninguna. Hann á líka að fá á baukinn fyrir þær vörur sem hann þarf að kaupa til heimilisins. Hefði ekki verið einfaldara, hæstv. ráðherra, að leggja 3–5% vörugjald á öll númerin og e.t.v. fá inn miklu meiri tekjur? Ég hefði a.m.k. gjarnan viljað fá svör við þeirri spurningu hvað þyrfti að leggja hátt vörugjald á öll þessi númer til að ná inn sömu tekjum og að leggja 14% eða öllu heldur 171/2% vörugjald á alla hluti til heimilis, en sleppa næstum því, öllu öðru.

Ég kom að því aðeins áðan í ræðustóli að hæstv. ráðherrann hefur talað mikið um hvað vöruverð muni lækka á Íslandi við þessar aðgerðir og ég tók tvö dæmi um hið gagnstæða þar sem ég gat sýnt fram á að Glasgow-verðið svokallaða verður eftir sem áður svo lágt að verð flestra hluta hér á landi mun ekki geta keppt við það. Við skulum kannski taka fleiri slík dæmi. Ég er hér með reiknuð dæmi um verðmyndun á smáraftækjum og öðrum svokölluðum smyglnæmum vörum, en hugtakið „smyglnæmar vörur“ kemur fyrst fram í nokkuð gamalli greinargerð frá fjmrn. þar sem verið er að fjalla um fjáröflunartolla.

Ef við tökum aftur hliðstæð dæmi eins og þau sem ég rakti áðan getum við tekið meginland Evrópu. Innkaupsverð vöru cif verður 105 kr., tollur 0%, vörugjald 0%, álagning, bæði heildsölu- og smásöluálagning, er að jafnaði 60%. Varan er þar með komin í 168 kr. hafi hún byrjað í 105 og söluskatturinn 15% sem er algengt á meginlandi Evrópu nema að sjálfsögðu í því landi sem hæstv. ráðherra sótti upplýsingarnar til, þ.e. í Danmörku þar sem söluskattur er mun hærri, en víðast hvar annars staðar er hann lægri, þ.e. ef maður færir sig út fyrir Norðurlöndin, þ.e. 15%, og varan kostar þá 193 kr. Ísland 1987: 105 kr. innkaupsverð og 40% tollur gefur vöruverðið 147 kr. 30% vörugjald 44 kr. og 60% heildsölu-smásöluálagning kemur vöruverðinu upp í 306 kr. 25% söluskattur kemur vöruverðinu upp í 383 kr. Ég tek þetta dæmi til þess að vera ekki leiðinlegur við hæstv. ráðherra því að hér er þó dæmi um að vöruverð lækki verulega og er það vel. Ísland 1988, gósenland hæstv. ráðherra: Varan kostar 105 kr., cif-verðið. Tollur er 15%, mikil lækkun. Vöruverðið er komið í 121 kr. 14% vörugjald 17 kr. Ég hefði reyndar átt að setja 171/2% vörugjald eins og er í raun og veru þannig að þetta dæmi er sennilega vanreiknað en látum það vera. Síðan kemur 60% heildsölu-smásöluálagning og varan er komin í 221 kr. Síðan er 25% söluskattur og varan kostar reyndar ekki nema 276 kr. Varan er 43% dýrari á Íslandi en á meginlandi Evrópu. Látum það vera. Hæstv. ráðherra heldur því fram að þetta dugi til þess að húsmæður og Íslendingar yfirleitt hætti að fara til útlanda, kaupa þar inn og taka með sér, en ég held því miður að það verði lítið lát á því.

Ég get að lokum rifjað upp og tekið dæmi um hvað er að gerast í sambandi við svokallaðar Glasgow-ferðir, en ég þykist hafa rakið það hér með mjög góðum og gildum rökum að það eru allar líkur á því að Glasgow-ferðir verði áfram vinsælar hjá almenningi á Íslandi, að komast burtu frá því landi þar sem vöruverð er hæst í öllum heiminum, bæði matur og aðrar vörur, til nágrannalandanna þar sem vöruverð er eðlilegt, þar sem vöruverð er í einhverju samræmi við tekjur almennings. Finnst hv. þm. ekki einkennilegt að ef menn fara í helgarferð til Glasgow eða London nægir að kaupa 3–4 góða hluti, þá er búið að borga allan ferðakostnaðinn og meira til?

Nú um daginn komu með einni ferð frá Glasgow 13 ryksugur þannig að það er ýmislegt sem fólk tekur með sér frá Glasgow sem það telur hag í að kaupa þar frekar en á Íslandi. Að maður tali nú ekki um öll smáraftækin, þessi svokölluðu smyglnæmu tæki. Útvörp, plötuspilarar, kaffikönnur, straujárn — allt kemur þetta inn á hverjum einasta degi núna frá Glasgow.

Ég hef ekki nokkra trú á því að Glasgow-ferðum muni linna. Flugvélarnar munu áfram koma fullar af ryksugum, plötuspilurum, útvörpum, kaffikönnum og straujárnum. Það er kannski til huggunar fyrir hæstv. ráðherra að það er erfitt að bera með sér heimilisþvottavélar og uppþvottavélar, en áreiðanlega mundi fólk gera það ef það gæti. Og þannig mun verða áfram því að ég fæ ekki séð að sú tollabreyting og sú breyting sem er lögð til grundvallar í frv. til 1. um vörugjald muni breyta nokkru. Allar nauðsynjavörur almennings, heimilisvörurnar, munu áfram verða mjög dýrar og miklu dýrari hér á landi en í nágrannalöndunum og fólk mun streyma til Glasgow eftir sem áður.