10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

198. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 55 frá 30. mars 1987, tollalögum. Þetta frv. felur í sér að lækka hæstu tolla úr 80% í 30%. Það felur í sér afnám fjölmargra gjalda annarra og með því er að því stefnt að vöruverð á Íslandi standist betur samjöfnuð við vöruverð í útlöndum. Úreltar skilgreiningar tollalaga, þar sem daglegar neysluvörur eru flokkaðar sem hátollavörur, eru felldar niður. Af 6000 tollnúmerum bera 5000 engan toll. 40 mismunandi tollstig frá 0–80% falla niður. Í staðinn koma sjö jöfn þrep frá 0–30%. Tollar á matvörum eru nær undantekningarlaust felldir niður.

Þá er stigið lokaskrefið í þá átt að fella með öllu niður tolla á aðföngum íslensks samkeppnis- og útflutningsiðnaðar, tolla af hráefnum, vélum, tækjum o.s.frv. Fjölmargar vörutegundir, sem borið hafa háa tolla og vörugjöld, lækka stórlega í verði. Brenglun vöruverðs, sem tollar og vörugjöld hafa valdið, verður leiðrétt. Mörg dæmi eru um að heilu vöruflokkarnir lækka í verði um 20–40% og öll mun þessi breyting stuðla að því að verslunin flytjist í auknum mæli inn í landið.

Í grg. með frv. er þessi kerfisbreyting kynnt rækilega í heild sinni þar sem saman fer tollalækkun, samræmt lækkað vörugjald og söluskattsbreyting, gerð grein fyrir áhrifum þess á tekjur ríkissjóðs og á verðmyndun í landinu. Loks er í grg. ítarleg frásögn af þróun tolla og aðflutningsgjalda á Íslandi frá því áður en Íslendingar gengu í Fríverslunarbandalagið EFTA og gerðu fríverslunarsamning í fyrsta sinn við Efnahagsbandalag Evrópu árið 1973.

Á töflu á bls. 338 er rakið hvernig tollar hafa lækkað smám saman á undanförnum árum frá árinu 1975 úr 22% í 11% 1986, en með þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru má ætla að hlutfallið verði komið niður í 5%. Því næst er gerð rækileg grein fyrir því hvaða breytingar þetta frv. hefur í för með sér að því er varðar tollverðlagningu á hráefnum og efnivörum íslensks iðnaðar, vélum, tækjum og varahlutum og hver munur er á annars vegar samningsbundnum tollalækkunum gagnvart EFTA og EBE og þeirri stefnu sem áformað er skv. frv. að fylgja að því er varðar ytri tolla gagnvart innflutningi til Íslands frá þeim viðskiptasvæðum sem við höfum ekki fríverslunarsamninga við.

Þá er að finna í frv. mikinn fróðleik um áhrif nýrrar tollskrár á einstaka vöruflokka.

Loks er þess að geta að tollþjónustan mun eftir þessa breytingu fá mjög breytt verksvið sem leiðir til þess að þeirri hugmynd hefur verið hreyft að tollþjónustan muni þegar fram líða stundir annast undirbúning, framkvæmd og eftirlit með söluskatti og vörugjöldum þannig að unnt verði án aukins mannafla í þjónustu ríkisins að tryggja bætta framkvæmd á öllu kerfi tolla, vörugjalda og neysluskatta.