10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að bera upp fyrirspurn til hæstv. félmrh. Þannig er að fyrir þinginu í fyrra lágu nokkur mál um þetta efni og þá var afgreidd till. frá félmn. sameinaðs Alþingis. Till. var þar m.a. frá hæstv. núv. félmrh. um þetta efni, um lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks. En till., sem samþykkt var 19. mars á þessu ári, var þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um lífeyrisréttindi þeirra sem eingöngu sinna heimilis- og umönnunarstörfum og leggja þær fyrir Alþingi eigi síðar en 1. nóv. 1987.“

Ég rifja þetta upp vegna þess líka að hæstv. ráðherra átti þá sæti í félmn. sameinaðs Alþingis og væri eðlilegt að það kæmi fram hvernig ráðherra hefur unnið að þessu máli.

Það voru fleiri mál sem lágu þá fyrir Alþingi um þetta efni og m.a. það frv. sem við erum nú að fjalla um. Þess vegna væri eðlilegast að það væri komið með fsp. um þetta mál eins og ég hygg að hafi komið hér áður fram í umræðum.

En ég þekki þetta mál vegna þess að ég var einn af þeim sem áttu sæti þá í félmn. sameinaðs Alþingis og fjallaði um þetta efni. Formaður hennar var Gunnar G. Schram og aðrir sem áttu sæti í þessari nefnd voru Árni Johnsen, Friðjón Þórðarson, Guðrún Helgadóttir og Jón Kristjánsson. Það var niðurstaðan í þessari nefnd á þessu máli sem ég gat um. Þar sem hæstv. ráðherra er hér ekki óska ég eftir því að það verði komið spurningu til hennar um hvað þessu máli líður.

Þetta var erindi mitt upp í ræðustólinn um þetta efni. Það er afskaplega undarlegt þar sem hæstv. ráðherra flytur þetta mál í fyrra, stendur að samþykkt þess á þennan hátt að síðan heyrist ekkert um málið. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé og að liggi fyrir upplýsingar um það áður en þetta mál er rætt meira því að það er búið að fela ráðherranum að gera þetta.