10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Kristín Halldórsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flm. þakka hv. þm. fyrir mikinn áhuga á þessu máli sem ég leyfi mér að túlka svo. Þetta mál er búið að vera til umræðu á a.m.k. tveimur ef ekki þremur þingdeildarfundum og vonandi lýkur þessari umræðu í dag svo að hægt sé að vísa málinu til nefndar, án þess að ég sé að draga úr því að menn tjái sig um það á alla enda og kanta. Það er okkur fagnaðarefni og ég endurtek það að mér virðist öll þessi umræða sýna að þm. hafa virkilega áhuga á því að þetta mál nái fram að ganga.

Þegar það var síðast á dagskrá var hv. 1. flm. ekki í salnum svo ég barði þá í borðið og hugðist svara ýmsum athugasemdum sem höfðu komið fram í ræðum þm. Nú er ég reyndar ekki með þá punkta sem ég hafði sett niður hjá mér á þeim fundi vegna þess að hv. 1. flm., Málmfríður Sigurðardóttir, ætlaði að svara þessum athugasemdum. Nú er hún einhvers staðar fjarri eins og er. Það er með þennan klukkutíma eins og ýmsa aðra klukkutíma í sólarhringnum að þeir eru dálítið tvístraðir og hún mun hafa þurft að bregða sér frá, en ég hygg að hún hafi búið sig undir að svara þeim athugasemdum sem fram hafa komið á fyllri hátt en ég get með stopulu minni mínu.

Ég man þó að hv. þm. Sturla Böðvarsson, sem hér sat þá, minntist á þá hlið sem að sveitarfélögunum snýr og hafði áhyggjur af því, ef ég man rétt, að þetta kynni að þýða kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Við höfum alltaf litið svo á að heimavinnandi fólk sparaði sveitarfélögum og ríki slíkar fjárhæðir að ekki væri horfandi í það fyrir sveitarfélögin og ríkið að koma til móts við það fólk sem svo gerir og sýna í verki að þau kunni að meta þetta framlag.

Það var ýmislegt fleira sem var minnst á, en nú sé ég að hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir er komin og mun þá væntanlega taka til máls á eftir. Ég vil aðeins geta þess að ef ég man rétt drap hv. 3. þm. Reykv., sem þá sat sem varamaður, Sólveig Pétursdóttir, á það hvort með þessu væri ekki verið að hvetja konur til að fara inn á heimilin aftur, ef ég man rétt, ég hef nú ekki ræðuna hjá mér. Það er vissulega okkar skoðun að lög og reglur þjóðfélagsins eigi að vera sem hlutlausust gagnvart því hvernig konur og karlar kjósa að haga umönnun sinna barna og heimila. Öll þau þingmál sem við höfum borið fram og snerta heimavinnandi húsmæður ber að sama brunni, þ.e. að reyna að bæta úr því réttindaleysi sem þetta fólk á við að búa.

Að svo mæltu held ég að ég hafi þessi orð ekki lengri. Ég hygg að Málmfríður hafi nú sótt í sinn sjóð það sem við þurfum að koma á framfæri hér sem svörum við þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið.