20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

21. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð að segja að mér finnst ekki vera neinn rífandi gangur í þessu verki, en greinilega er eitthvað verið að gera og vonandi skilar það árangri. Hæstv. ráðherra lét að því liggja að von væri á frv. á þessu hausti. Vonandi er þá formaður nefndarinnar búinn að læra svo mikið undanfarnar vikur í Bandaríkjunum að það gangi eftir.

En ég verð að segja að það hefði mátt vænta þess að hæstv. ráðherra tæki rösklegar til hendinni en mér virðist vera. Ég hlýt að minna á mikilvægi þessa máls og gera þá kröfu til hæstv. ráðherra að hann fylgi fast eftir þessum málum. Hann hefur marglýst því yfir í mörgum liðum hversu handónýtt og í molum núverandi skattakerfi er og hvað gera þurfi til að bæta það og slíkt skattakerfi verður ekki reist úr rústum með hangandi hendi.

Ég vil nota þetta tækifæri líka til að geta þess að ég er ekki sammála hæstv. ráðherra og ríkisstjórn um að brýnna sé að leggja á og þyngja skatta á nauðþurftir fólks undir yfirskini einföldunar en að ráðast á ögn hærri garða. En það er aldrei of seint að bæta sig og taka til hendinni. Og hæstv. ráðherra: Í öllum lifandi bænum gleymdu ekki stóru orðunum um réttlætið. Því miður reynist mörgum einfaldara og auðveldara að segja stóru orðin en að standa við þau.

En ég ítreka að ég vona að þessi frumvörp verði lögð fram á þessu hausti og þau skili hugsanlega því sem nefnt var í nál. fulltrúa Alþfl. í fjh.- og viðskn. Nd. þegar lagabreytingin var afgreidd fyrir þinglok í vor fremur en þeirri tölu sem hæstv. ráðherra nefndi áðan.