10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Ellert Eiríksson:

Herra forseti. Ég ætla að stinga hér inn örfáum orðum í þessa umræðu og sérstaklega út frá þeim spurningum sem menn hafa verið að velta fyrir sér hvort ætti að meta vinnuframlag kvenna til króna og aura og hvort þetta sé hagstætt fyrir sveitarfélög og ríkið að taka upp lífeyrissjóð húsmæðra og greiða þar í.

Hv. 16. þm. Reykv. taldi að það gæti orðið torsótt að sækja þetta mál þar sem menn væru íhaldssamir, sérstaklega í sveitarstjórnum, og mundu kannski ekki taka það vel upp að taka þessa greiðslu á sig.

Ég nefni tvö dæmi sem eru mjög einföld. Kona sem tekur að sér að vera húsmóðir og að gæta barna á leikskólaaldri sparar sveitarfélagi fyrir hverja fjóra klukkutíma sem hún gætir barnsins heima 3000 kr. á mánuði. Það er niðurgreiðslan sem sveitarfélagið lætur af hendi til þess að gæta barnsins. Ef þetta barn er á dagheimili í átta stundir með fæði eru það 13 000 kr. á mánuði sem niðurgreiðslan er.

Í annan stað hafa menn velt fyrir sér við hvaða stétt manna eigi að miða þegar á að reikna út lífeyrisgreiðslur. Ég gat um það hér fyrr í umræðunni að það væri ekki óeðlilegt að miða við starfsstéttina fóstra eða fóstru og við skulum gefa okkur það að fóstra hafi 40 000 kr. í dagvinnulaun, það er svona meðalfóstra á þeim launum. Þá væri greiðsla sveitarfélags í lífeyrissjóð húsmæðra af launum fóstra 1600 kr., þ.e. 4% af 40 000 kr. Þannig að fyrir einn mánuð greiddi sveitarfélagið í lífeyrissjóð viðkomandi húsmóður 1600 kr. en ef hún gætti barns síns í hálfan dag mundi það spara sveitarfélaginu 3000 kr. útgjöld á hinn bóginn.

Ef við svo göngum lengra og skoðum hvað hinn þátturinn kostar sem er enn þá dýrari og margir þekkja, það er umönnun aldraðra sem ekki komast á stofnanir þar sem þeir virkilega þarfnast hjúkrunar. Það liggur á bilinu 3–6 þús. kr. sólarhringurinn og jafnvel dýrara. En bara stofnanir sem hafa umönnun sjúkra aldraðra fyrir sitt meginverkefni kosta samfélagið þetta. Og þær húsmæður, af því að hér er talað um kvenfólk og ég vil leyfa mér í öllu jafnréttistalinu að halda mig við það, sem taka það hlutverk að sér á heimilum, hvort það er til lengri eða skemmri tíma, spara með sínu vinnuframlagi stórfé þannig að lífeyrisgreiðslur fyrir þann tíma sem þær vilja vinna inni á heimilum er örugglega smámál ef allt dæmið er tekið.