10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

168. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl. hefur nú sagt ýmislegt af því sem ég vildi hér sagt hafa og ég hyggst ekki endurtaka það. Ég vil hins vegar leyfa mér að taka nokkru dýpra í árinni varðandi þetta frv. en hann gerði.

Ég gæti aldrei greitt frv. sem þessu atkvæði mitt og rök mín eru þessi: Það er ekkert eins mikilvægt samstarfi Norðurlandaþjóða eins og að hver þjóð líti á aðra sem jafningja. Hér segir í grg. að við séum í þessu tilviki gagnvart Færeyingum og Grænlendingum stóri bróðir. Ég hygg að við sem í Norðurlandaráði sitjum viljum ekki láta segja slíkar setningar við okkur sem væri ástæða til í öllum öðrum tilvikum. Vissulega eigum við að eiga gott samstarf og e.t.v. styðja betur við bakið á Grænlendingum og Færeyingum þar sem þurfa þykir en öðrum Norðurlandaþjóðum en þó einungis í örfáum tilvikum. Það höfum við raunar sýnt í verki með þeirri þingmannanefnd sem hv. 2. þm. Austurl. minntist á áðan.

Þegar kemur að sameiginlegum hagsmunum Grænlendinga og Íslendinga varðandi fiskveiðar eigum við ekki að gera neinar undantekningar varðandi Grænlendinga og Færeyinga. Ég vil minna á og ekki síst vegna þess að ég hef bæði á þingum Norðurlandaráðs og á öðrum vettvangi þar og hér á hinu háa Alþingi gagnrýnt Grænlendinga fyrir óbilgirni þegar þeir hafa leigt sameiginlega fiskistofna sína og Íslendinga Efnahagsbandalaginu án þess að sjá minnstu ástæðu til að ræða við íslensk stjórnvöld.

Ég minni á að nú í nýlegum leiðangri Hafrannsóknastofnunar, nánar tiltekið Bjarna Sæmundssonar og áhafnar hans, kom í ljós að öll sú loðna sem nú er að finna er raunar í grænlenskum höfum. Við megum ekki gleyma því eitt augnablik að við höfum lagt á það mikla áherslu, og þess hygg ég að hæstv. fyrrv. sjútvrh. sem hér er staddur minnist, og reynt að fylgja þeirri stefnu að nýta sameiginleg auðæfi hafsins í bróðerni á jafnréttisgrundvelli. Þar eigum við engar undanþágur að gefa einum eða neinum. Slík mál verða að vera samningsatriði hverju sinni að mínu viti.

Ég hef stundum sagt við þá grænlensku bræður, systur eru því miður engar í Norðurlandaráði, að Grænlendingar megi ekki ætlast til að við tölum annars vegar við þá eins og misviturt fólk talar við fatlað fólk vegna þjóðfélagslegs ástands þar og hversu skemmra þeir eru komnir en við á mörgum sviðum sem er fullkomlega eðlilegt, en á hinn bóginn geti þeir hagað sér eins og stórveldi sem ráðskast með sameiginlega hagsmuni beggja þjóðanna. Þetta vil ég leggja mikla áherslu á og hingað til hafa þeir grænlenskir starfsbræður mínir ekki tekið þetta sérlega óstinnt upp og hafa skilið þetta sjónarmið.

Ég hef hins vegar oft minnst á það hér í þingsölum, úr því að við erum farin að tala um samskipti þessara þjóða, að það er á margan annan hátt sem Íslendingar hefðu átt og ættu, og því fyrr því betra, að aðstoða Grænlendinga þar sem við höfum yfirburði, svo sem á sviði tæknimenntunar. Við höfum stofnað fyrir nokkrum árum styrktarsjóð, svokallaðan Grænlandssjóð, sem átti að vera til þess, ef ég man rétt, að vinna að samstarfi Íslendinga og Grænlendinga, og að mínu viti hefur heldur vandræðalega til tekist um þennan sjóð. Ég gerði það einhvern tímann að tillögu minni, óformlega að vísu, hér í þingsölum að við byðum Grænlendingum aðstoð við að verkmennta nokkra Grænlendinga árlega. Við hefðum efni á því og við getum það, og það er alkunna að slíkar starfsstéttir vantar á Grænlandi. Þar held ég að við gætum, vitaskuld að höfðu samráði við þá, komið þeim til aðstoðar en við skulum einnig gæta þess vel að vera ekki að ráðskast með málefni Grænlendinga án þess að hafa samráð við grænlensk yfirvöld.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt enda þm. farnir að þreytast og enn eftir langir fundir, en ég verð að lýsa því yfir að frv. sem hv. 2. þm. Vestf. hefur flutt og, eins og hér kom áður fram, eflaust af góðum hug, get ég ekki undir neinum kringumstæðum stutt nema því verði breytt verulega. Ég held að það hljóti að brjóta í bága við þá grundvallarafstöðu að á Norðurlöndum og í Norðurlandasamstarfi er enginn stóri bróðir. Þar erum við öll jöfn.