10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyt. á lögum nr. 84/1986, um breyt. á l. nr. 59 frá 1983, um heilbrigðisþjónustu.

Frv. þetta er ekki stórt í sniðum og er reyndar ef svo má segja gamall kunningi hv. þm., a.m.k. þeirra sem setið hafa á þingi undanfarin ár, því að fyrir jólahlé Alþingis á hverju ári að undanförnu hefur verið flutt frv. samhljóða þessu sem fjallar um það að fresta gildistöku laga nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, hvað varðar Reykjavíkurlæknishérað og heilsugæsluumdæmi í Garðakaupstað.

Eins og menn vita er í þessum tveimur læknisumdæmum enn starfað eftir eldri lögum um heilsuvernd og gildir því í reynd tvenns konar kerfi í landinu. Það er viðbúið að það taki enn nokkurn tíma að koma á heilsugæslukerfinu eins og lögin um heilbrigðisþjónustu gera ráð fyrir og reyndar er rétt að það komi hér fram að um þetta eru nokkuð skiptar skoðanir. Ég hef hins vegar fullan hug á að reyna til þrautar að taka upp það form sem lög um heilbrigðisþjónustuna gera ráð fyrir, en það hefur ekki á undanförnum vikum unnist tími til þess að ræða það við hlutaðeigandi aðila hjá Reykjavíkurborg. Við höfum hins vegar verið í viðræðum við bæjarstjórn Garðakaupstaðar um þessa kerfisbreytingu og vænti ég þess að náðst geti um það samkomulag fljótlega á næsta ári að taka upp það heilsugæsluform sem lögin gera ráð fyrir.

Ég ítreka það að við höfum ekki enn hafið viðræður við Reykjavíkurborg um þetta efni, en reiknað er með því að gera það fljótlega á næsta ári. Hins vegar er ljóst að þetta tekur nokkurn tíma, ekki síst vegna þess að um það er ekki fullt samkomulag og það er hugsanlegt að við þurfum að leita eitthvað annarra leiða í þessu efni. Þess vegna er gert ráð fyrir að lögin taki ekki gildi fyrr en í árslok 1988. Um það hljóðar þetta frv. Það er aðeins í tveimur greinum. Fyrri grein frv. hljóðar svo:

„1. gr. laga nr. 84/1986 orðist svo:

Í Reykjavíkurlæknishéraði og heilsugæsluumdæminu í Garðakaupstað skal frestur þessi standa til ársloka 1988.“

2. gr. er: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég vænti þess að það þurfi ekki að taka langan tíma að afgreiða þetta mál hér í hv. Alþingi að þessu sinni þar sem hliðstætt frv. hefur oft verið til umfjöllunar áður og hvernig svo sem fer með málið á næsta ári eigi það ekki að þurfa að hafa áhrif á afgreiðslu málsins nú. Ég vænti þess að allir séu sammála um það að nauðsynlegt sé að veita þennan frest á gildistöku laganna.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.