20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

26. mál, heildarendurskoðun sóttvarnarlöggjafarinnar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 26 hefur hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir spurst fyrir um störf þeirrar nefndar sem skipuð var af fyrrv. hæstv. heilbrmrh. 27. nóvember 1986 til að gera heildarendurskoðun á sóttvarnarlöggjöfinni, eins og segir í fyrri lið fsp.

Nefnd sú sem hér er vitnað til var skipuð í lok sl. árs til þess að gera tillögur um samræmingu ýmiss konar laga sem gilda um smitsjúkdóma, t.d. laga um sóttvarnir, laga um farsóttir, berklavarnarlaga, laga um kynsjúkdómavarnir. Í nefndina voru skipaðir Sigurgeir Jónsson fyrrv. hæstaréttardómari, formaður, Guðjón Magnússon aðstoðarlandlæknir og Haraldur Briem læknir, sérfræðingur í smitsjúkdómum. Yfirlögfræðingur ráðuneytisins var nefndinni til aðstoðar við tiltekin störf, m.a. við upplýsingaöflun erlendis frá um smitsjúkdóma og lög og helstu hugmyndir sem uppi eru erlendis um slíka lagasmíð. Þessi gagnasöfnun tók um það bil tvo mánuði og liggja öll umbeðin gögn fyrir í ráðuneytinu og margvíslegar upplýsingar.

Formaður nefndarinnar hélt fjóra fundi í janúar og febrúar, en ákvað þá að segja sig úr nefndinni sem hann gerði með bréfi til ráðuneytisins í marsmánuði. Hæstv. fyrrv. heilbrmrh. leysti formanninn ekki formlega frá störfum og var þess sannarlega vænst að hann tæki til starfa með nefndinni að nýju, en svo hefur því miður ekki orðið.

Það er ljóst að nauðsynlegt er að halda áfram þeirri endurskoðun sem hér er hafin og margvíslegar upplýsingar eru þegar fyrir hendi og ég get tekið undir það sem kom fram hér í framsögu hv. fyrirspyrjanda um mikilvægi þessa starfs, en afstaða hefur ekki verið tekin til þess enn hver verður fenginn til að veita nefndinni forstöðu.

Þetta er því miður ekki nein afrekaskrá sem hér hefur verið gerð grein fyrir og þess vegna hlýtur svar við seinni lið fsp. hv. fyrirspyrjanda, „Hvenær hyggst nefndin ljúka störfum?", að verða stutt. Með tilvísun til þess sem ég hef áður sagt er ekki hægt að fullyrða nákvæmlega hvenær nefnd þessi getur lokið störfum. Ég veit hins vegar að þetta er mikilvægt og bráðnauðsynlegt starf. Mér er það ljóst. Ég mun því á næstu dögum skipa nýjan fulltrúa í nefndina og fela einhverjum þeirra þriggja að veita henni forustu, en þeir aðrir sem skipaðir voru, Guðjón Magnússon aðstoðarlandlæknir og Haraldur Briem læknir, eru báðir fúsir til að vinna að þessum störfum áfram og komast að niðurstöðu í málinu.

Það hefur verið í mörg horn að líta og við höfum nú í heilbrmrn. skipað ýmsar nefndir að undanförnu til að skoða þar ýmis málefni, misjafnlega viðamikil að vísu. En ég vænti þess sannarlega að þessi nefnd geti unnið sitt verk á næstu mánuðum og það verði hægt að leggja frv. fram um nýja löggjöf á þessu sviði fyrir þetta þing.