10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Það er aðeins út af ummælum hv. 13. þm. Reykv. Hún spyr mig hversu lengi eigi að líðast að láta þau sveitarfélög sem hér um ræðir hundsa lög um heilbrigðisþjónustu. Ég reyndi að gera grein fyrir því þó framsagan væri kannski ekki ítarleg að við höfum þegar hafið viðræður við bæjarstjórn Garðakaupstaðar um þetta mál og ég vænti þess að um það náist samstaða fljótt á næsta ári að taka upp það heilsugæsluform sem lögin gera ráð fyrir. En ég hef ekki á undanförnum vikum og ekki enn haft tíma né tækifæri til þess að taka upp alvarlegar viðræður um það við borgaryfirvöld í Reykjavík hvernig málum skuli hagað hér, en gerði grein fyrir því áðan að ég persónulega legg áherslu á það að okkur takist að ná því fram en vakti einnig athygli á því, svo að mönnum sé það líka ljóst, að um þetta er ekki fullkomin samstaða. Hér gildir í raun tvenns konar form. Það kann að vera að við þurfum að leita einhvers samkomulags í því efni og þá getur svo farið að það kalli á lagabreytingu, en um það er ég ekki tilbúinn að tjá mig á þessu stigi frekar. Mín ósk eða skoðun er sú að það form sem lög nr. 59 frá 1983, um heilbrigðisþjónustu, gera ráð fyrir eigi að taka upp.