10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þessar umræður eru allar hinar undarlegustu, einkum ræða síðasta hv. ræðumanns. Það væri skrýtið ástand í þjóðfélaginu ef eitt og eitt sveitarfélag gæti þrátt fyrir lög hagað sér að eigin geðþótta og fengið Alþingi til þess að veita sér árlega undanþágu frá því að fara að lögum. (RH: Það eru lög sem Alþingi ætlar að samþykkja.)

Nú er það svo að þeir sem hafa átt aðgang að heilsugæslustöðvum hafa kunnað harla vel að meta þá þjónustu. Ekki alls fyrir löngu var okkur, nokkrum þm., boðið að skoða heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi. Ástandið í Reykjavík er á þann veg að heilsugæslustöðin á Seltjarnarnesi hefur orðið að þjóna stórum hverfum Reykjavíkurborgar, þ.e. Hagahverfinu og Melahverfinu. Nú tilkynntu yfirmenn þessarar stofnunar okkur að þeir gætu þetta ekki lengur vegna þess að þeir hafa gert einmitt það sem ætlast var til af heilsugæslukerfinu. Þeir hafa tekið inn alla heilbrigðisþjónustu í bæjarfélaginu. Þeir eru t.d. í áföngum að taka inn almenna skólaskoðun grunnskólabarna sem er stórlega vanrækt í Reykjavík ef hv. þingheimi er það ekki ljóst.

Ástandið í heilbrigðismálum grunnskólabarna í Reykjavík er ekki neitt til að hrósa sér af og þeir fáu hjúkrunarfræðingar, sem þar starfa enn þá, hafa kvartað sáran yfir því að ráða á engan hátt við þá almennu heilsugæslu sem lögbundin er í grunnskólum. Síðan hefur bæst við vaxandi vandi andlegs eðlis meðal skólabarna sem að sjálfsögðu á sér rætur í gjörbreyttum þjóðfélagsháttum þar sem samfélagið hefur á engan hátt komið til móts við þarfir barnanna í fjarveru foreldra allan daginn. Þetta þekkja borgarfulltrúar í Reykjavík mætavel og þetta ættu hv. þm., a.m.k. hv. þm. Reykjavíkur, að þekkja. Hér er um að ræða dynti meiri hluta borgarstjórnarinnar í Reykjavík en hann, með borgarstjórann, virðulegan, í fararbroddi, þrjóskast í lengstu lög við að fara að lögum um heilbrigðisþjónustu. Hið sama er uppi á teningnum í Garðakaupstað.

Nú vill svo til að hæstv. heilbrrh. er að þessu sinni ekki alveg slagsbróðir þeirrar stjórnmálastefnu sem hv. meiri hl. borgarstjórnar er fulltrúi fyrir. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrmrh.: Má vænta þess að hann taki af skarið og krefjist þess að samningar takist með þessum tveimur bæjarfélögum um að þau fari að þeim lögum um heilbrigðisþjónustu sem hið háa Alþingi hefur samþykkt eða ætlar hæstv. heilbrmrh. sér að breyta lögum í samræmi við duttlunga þessara manna? Ég hlýt, sem þm. Reykv., að krefjast afdráttarlauss svars. Ég vil ekki í tíð þess hæstv. heilbrmrh. sem nú situr á valdastóli þurfa að standa að afgreiðslu þessa máls einu sinni enn.