10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég er reyndar tvívegis í þessari umræðu búinn að lýsa skoðun minni á þessu máli og hvað ég hefði sjálfur haft áhuga á og vilja til að gera og ég mun auðvitað reyna að beita mér fyrir því að koma þeim vilja mínum fram. Ég hef líka gert grein fyrir því og þarf nú víst ekki að tíunda það oftar því að það hefur þegar komið fram í umræðunni að um þetta eru menn auðvitað ekki alveg sammála og ég hef áður sagt það hér að ég vildi leita leiða til þess að ná fram þeim sjónarmiðum sem lög um heilbrigðisþjónustu gera ráð fyrir og því formi á heilsugæsluþjónustunni en viðurkenni líka að það er auðvitað ekki allt ómögulegt með það form sem hér ríkir í dag. Mér dettur ekki í hug að halda því fram. Ég vil ekki og þori ekki og tel mig ekki hafa á því neitt mat, að segja að sú þjónusta sem menn veita hér í dag í læknamiðstöðvum og á heilsuverndarstöð sé ekki fullkomin þjónusta að gæðum. Ég vona að hún sé það og þykist vita að hún sé það. Ég tel hins vegar að margt og reyndar miklu fleira mæli með því að tekið sé upp það form sem almennt gildir og ég vænti að eftir samninga við Garðakaupstað, sem ég hef fulla ástæðu til að álíta að muni takast, verði það aðeins Reykjavíkurlæknishérað sem gegnir öðru máli með. Ég held ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta eða mínar skoðanir á því eða minn hug til málsins.

Út af fsp. hv. 4. þm. Norðurl. e. um úttekt á kostnaði verð ég að segja honum og öðrum hv. þm. að það hef ég ekki hér fyrir mér og ég veit ekki hvort sá samanburður hefur verið gerður. A.m.k. hefur hann ekki verið gerður nú nýlega og sjálfsagt yrði hann æði vandasamur. Það er margt sem þarf að taka inn í þann samanburð, t.d. þá skyldu ríkisins að leggja fram 85% af stofnkostnaði heilsugæslustöðva þegar þær eru upp byggðar. Sannleikurinn er nú sá að okkur hefur ekki tekist að standa nægjanlega vel við þá skyldu okkar hér í Reykjavík. Það ætti hv. þm. kannski ekki að vera ókunnugt um, síst nú í dag, vegna þess að ég hygg að um það hafi dálítið verið fjallað á göngum og kannski í gluggakistum, eins og stundum er sagt, hvernig eigi að skipta þeim milljónum sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að varið sé til byggingar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Við vitum það að einmitt sú umræða hefur farið fram í dag til undirbúnings afgreiðslu fjárlagafrv. á næstu dögum.

Hér er auðvitað um kostnaðarsama uppbyggingu að ræða. Það þekkjum við öll og vitum. Það þyrfti verulegt fjármagn til þess að ríkið gæti staðið við sinn hlut í því. Sums staðar hefur það form verið tekið upp að heilsugæslustöðvar hafa leigt húsnæði fyrir sinn rekstur, þó nokkrir staðir sem svo er háttað með í dag, og sjálfsagt væri hægt og væri eðlilegt að það gilti a.m.k. til að byrja með hér í Reykjavík einnig ef okkur tækist að ná um þetta fullu samkomulagi eins og heilbrigðisþjónustulögin gera ráð fyrir. En við höfum áreiðanlega ekki fjármuni á næsta eða næstu árum til þess að kaupa húsnæði eða byggja yfir heilsugæslustöðvar allar eins og þyrfti.

Í reksturskostnaði læknamiðstöðvanna sem hér eru reknar er gert ráð fyrir greiðslu frá ríki til að standa undir húsnæðiskostnaðinum og öðrum kostnaði sem þar er lagt út fyrir og ég hygg að geti verið mjög hliðstæður þeim kostnaði sem við þurfum að leggja út í heilsugæslustöðvunum án þess að ég hafi um það nákvæman samanburð og get þess vegna ekki svarað fsp. hv. þm. um það hvað sá samanburður kynni nákvæmlega að leiða í ljós. Ég skal hinsvegar gjarnan athuga það hvort eitthvað slíkt liggur fyrir í heilbrrn. og koma því þá til heilbr.- og trn. þegar hún fjallar um málið þannig að menn hafi þá allar þær upplýsingar sem ég get útvegað og ráðuneytið getur látið í té. Það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að verða við því. Ég vona hins vegar að það þurfi ekki að fara öllu meiri tími í umræður um þetta mál hér. Þetta er í raun ekki mjög stórt mál í eðli sínu. Okkur er það öllum ljóst að það verður ekki neitt samkomulag um breytingar á þessu kerfi sem hér gildir á þeim dögum sem eftir lifa til áramóta og ef við ætlum ekki að brjóta lög eins og hefur komið fram í umræðunni er nauðsynlegt að fá fram þessa lagabreytingu sem hér er gerð tillaga um.