10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það yrði að sjálfsögðu ekki þannig að við brytum lög þó að við breyttum þeim ekki til þess að Reykjavíkurborg bryti ekki lög. En ég tel það alveg einstaklega vel við hæfi að ræða heilbrigðismálin og hafa uppi umræður um það og frumvarp um heilbrigðislög opið hér á þinginu á sama tíma og í tengslum við þá manneldisstefnu sem birtist í tollafrv. hæstv. ríkisstjórnar þar sem aðallega á að lækka sælgæti, gosdrykki, sykurvörur og ýmislegt slíkt en hækka fisk, brauð, kornmeti og ávexti og aðrar hollustuvörur. Og það er auðvitað ekki illa varið þeim tíma yfirleitt sem menn taka til þess að ræða ofurlítið um heilbrigðisþjónustuna því að þar er um stóran málaflokk að ræða.

Ég kom þó aðallega upp til þess að leiðrétta það sem hv. 3. þm. Reykv. hefur augljóslega misskilið í mínu máli hér áðan að ég væri að taka dæmi úr einhverjum einmenningshéruðum eða strjálbýlum sveitahreppum norður í landi þegar ég var að tala um skipulag heilbrigðisþjónustu og hvernig ég teldi að því væri best fyrir komið í Reykjavík. Ég tel Akureyri til að mynda ekkert sérstakt strjálbýli, hv. 3. þm. Reykv. Þar starfar heilsugæslustöð með 10–11 læknum og þar er auk þess rekin sérfræðiþjónusta úti í bænum frá sjúkrahúsinu. En þar er komið á það skipulag fyrir Akureyri og nágrannahreppa að undir þessari sömu stofnun og út frá henni er öll hin skipulagða heilbrigðisþjónusta rekin fyrir utan sjúkrahúsarekstur. Allt eftirlit, allar skoðanir er þar samræmt og stjórnað frá einum stað og þar koma allir þeir aðilar sem þessum verkefnum sinna saman undir einni tiltekinni stjórn. Þetta held ég að sé til mikilla muna betra en það kerfi sem er hér í Reykjavík þar sem heimilislæknar eða þeir sem annast þá þjónustu eru oft og tíðum úr öllum tengslum við afganginn af hinni skipulegu heilbrigðisþjónustu. Niðurstaðan er líka sú að hér eru þúsundir manna án heimilislækna, nánast utan við grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Ef hv. 3. þm. Reykv. hefur áhyggjur af blessuðu frelsinu einu sinni enn í þessum efnum, að menn geti ekki valið sér lækna eða valið sér menn í þessum efnum, þá er það bara misskilningur, hv. þm. Það er nefnilega þannig að á heilsugæslustöðvum er nákvæmlega jafnauðvelt að koma því við að menn velji sér lækna. Það var nákvæmlega þannig fyrirkomulag sem Akureyringar tóku upp. Þar getur hver og einn bæjarbúi komið á heilsugæslustöðina og valið sér lækni eftir því sem hver og einn annar að taka við. Það var sem sagt sameinað að þessu leyti það kerfi sem fyrir hafði verið og það sem við tók að eftir sem áður gátu menn innan skipulags heilsugæslustöðvarinnar valið sér sína heimilislækna. Það er ekkert því til fyrirstöðu að koma því þannig fyrir. Hv. 3. þm. Reykv. þarf því ekki að hafa áhyggjur af blessuðu frelsinu sínu sérstaklega í þessum efnum.

Það er hins vegar öllum ljóst sem til þekkja að ýmiss konar tvíverknaður og sóun á sér stað vegna þess að heilbrigðisþjónustan á grunnþrepum er ekki nógu vel skipulögð. Það leiðir til aukins kostnaðar í efri þrepum inni á stofnunum og ég er alveg sannfærður um að sjúkrahúsareksturinn í Reykjavík er miklu dýrari en hann þyrfti að vera vegna þess hvað heilbrigðisþjónustan á lægstu þrepum er illa skipulögð. Ég leyfi mér að fullyrða það. Og ég spái því að ef hæstv. heilbrmrh. gerði á þessu rækilega úttekt hér á þessu svæði kæmist hann að þeirri niðurstöðu að bráðavaktir sjúkrahúsanna, sólarhringsvakt barnadeildar Hringsins og fleiri slík þjónusta á stofnununum hér á svæðinu er ásetnari, er dýrari vegna þess að skipulag heilbrigðisþjónustunnar á neðri þrepum er ekki nógu gott. Þetta þýðir kostnað, þetta þýðir lélegri þjónustu og það kemur öllum alþm. við sem eru að ræða hvort sem er heilbrigðismál eða að ganga frá fjárlögum.