10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þykir leitt að verða að segja það, en ég held að hæstv. félmrh. hafi tekist að misskilja næstum hvert einasta orð sem ég sagði áðan. Ég tók sérstaklega fram að ég teldi þetta ekki æskilega málsmeðferð og mín ósk hefði verið sú að þetta mál yrði alls ekki tekið á dagskrá og rætt með eðlilegum hætti þegar eðlilegur frestur væri liðinn frá því að nál. hefði borist sem hefði verið á morgun eða þá á næsta þingfundi á reglulegum tíma. En vegna þess að mér skildist að mikil áhersla væri á það lögð að málið kæmist á dagskrá og yrði rætt féllst ég að endingu á að láta það gott heita að mælt yrði fyrir nál. meiri hl. Það var ekki mín ósk. Það var ekki mín tillaga. Hún var ættuð annars staðar frá. En ég hygg að stjórnarandstaðan öll hefði talið æskilegast að málið yrði ekki rætt fyrr en á réttum tíma.