10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er margt sérkennilegt sem ber við í skipulagningu þingstarfa, verð ég að segja. Það er mælt úr forsetastóli sem svar við fsp. minni hvernig því sé varið að hér sé verið að taka á dagskrá stórt mál þar sem nál. og brtt. kunna að hafa verið að berast á borð þm. síðustu mínúturnar eða síðasta 1–11/2 klukkutímann. Það hefur enginn þingflokksfundur verið haldinn um þetta mál, ekki þar sem ég hef verið viðstaddur, og það hefur ekki verið kynnt neitt sérstakt samkomulag þar að lútandi. Og ég verð að segja það, hvernig svo sem að þessu máli er staðið, að ég tel það með miklum endemum ef á að fara að taka fyrir þetta umdeilda mál ríkisstjórnarinnar á kvöldfundi í hv. deild rétt um það leyti sem verið er að unga út nefndarálitum og breytingartillögum og þá með þeim hætti að það er aðeins meiri hl. félmn. sem ætlar að mæla fyrir sínu áliti og tala fyrir sínu máli hér. Ég gæti ímyndað mér að það væri efni í dagsfund að ræða um húsnæðismálin hér, ræða þau ítarlega, og ég hefði viljað sjá að þannig væri að þessu máli staðið. Ég held að það sé nokkur leitun að því að það sé verið að taka á dagskrá mál með þessum hætti eins og hér er að stefnt og ég mótmæli því að þannig sé að verki staðið og skora á hæstv. forseta að endurskoða þetta mál með tilliti til þess að sá laugardagsfundur, sem hefur verið kynnt að haldinn verði í hv. deild kl. 2, verði notaður til þess að hér fari fram eðlileg og væntanlega vönduð umræða um þetta þýðingarmikla mál sem við liggur að hafi riðið hæstv. ríkisstjórn að fullu.

Ég sá í Morgunblaðinu í morgun á bls. 2 nokkuð sem varðar þetta efni þar sem hæstv. forsrh. víkur að því verkfalli sem hæstv. félmrh. standi nú í gagnvart ríkisstjórninni vegna þessa máls. Hæstv. forsrh. gerir það með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Ég hef í raun lítið um þetta að segja“, sagði forsætisráðherra Þorsteinn Pálsson er Morgunblaðið bar ákvörðun Jóhönnu undir hann. „Þetta er í fyrsta skipti svo ég viti til sem ráðherra fer í verkfall gagnvart Alþingi. Ég vona að þetta sprell tefji ekki framgang málsins og vona að Alþingi láti það ekki hafa áhrif á störf sín þannig að frv. verði afgreitt eins og ekkert hafi í skorist. Hins vegar veit ég að mönnum er alveg ljóst að ekki er hægt að samþykkja lög með afturvirkri gildistöku“, sagði Þorsteinn.“

Nú hefur hæstv. félmrh. verið í meðferð í dag, það hefur ekkert farið leynt, og niðurstaðan úr þeirri sérstöku meðferð að hæstv. félmrh. láti af því sem hæstv. forsrh. kallar sprell í einu aðalmálgagni ríkisstjórnarinnar — niðurstaðan er sú að hér eigi að taka fyrir þetta stórmál, húsnæðismálafrv., nær banabita ríkisstjórnarinnar, með þeim hætti að ég held að verði að teljast nokkuð einstætt í þingsögunni að eigi að fara að taka það hér fyrir og mæla þar aðeins fyrir nál. meiri hl. og tillögum en stjórnarandstaða láti ekkert til sín heyra. Það er að sjálfsögðu með öllu óeðlilegt, hæstv. forseti, að þetta mál sé tekið upp hér þegar komið er langt fram á kvöld.