10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég kom svo seint inn í ræðu hæstv. félmrh. að ég heyrði lítið annað en að líklega væri það Borgarafl. sem stæði fyrir því að þetta er nær banabiti, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, ríkisstjórnarinnar sem við ræddum í kvöld. Það er rétt. M.a. stendur Borgarafl. að því að þetta var ekki rætt fyrr en á eðlilegum tíma. Ég sé ekki hvers vegna hæstv. ráðherra leyfir sér að ýta óeðlilega á mál þannig að þau fái ekki eðlilega meðferð. Hér er um stórt mál að ræða. Nál. eru að koma á borð þm. núna. Borgarafl. hefur gert brtt. og á eftir að ræða þær. Þær eiga eftir að fara í nefnd til athugunar. Ég verð að vona að hæstv. félmrh. haldi áfram á sömu braut og hóti næst að mæta ekki á fundi Alþingis, og standi við það, og ef ekki er hægt að afgreiða mal hér á eðlilegan hátt með eðlilegum umræðum fari hún úr ríkisstjórn og fari af Alþingi, ég sé ekkert eftir henni, þannig að við getum rætt mál eins og hæstv. forsrh. segir opinberlega. Ég hef ekki lesið Morgunblaðið, en ég hef hlustað á hæstv. forsrh. í opinberum fjölmiðlum og hann gefur í skyn að það skipti eiginlega engu máli hvort hæstv. félmrh. mætir almennt eða ekki til starfa. Hún getur ekki verið mjög áríðandi ráðherra úr því að málin fá sama framgang hvort sem hún er eða er ekki í ríkisstjórn. Ég vil undirstrika að Borgarafl. óskar eftir því, eins og stjórnarandstaðan öll, að þetta mál verði ekki á dagskrá þessa fundar þó svo að stjórnarandstaðan, ég veit nú ekki hver í henni, en einhver sem hefur þá heimild til, hafi samþykkt í matarhléi að kynnt verði nál. meiri hl. og þar með verði málið ekki frekar rætt í kvöld.