10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Mér finnst að ýmislegt stangist á í því sem hv. þm. segja. Ég leyfði mér að taka orð forseta trúanleg um að þetta hefði verið sú málamiðlun sem menn hefðu komið sér saman um, orðið sú þrautalending sem menn hefðu komið sér saman um af því að skoðanir væru skiptar og ég ætla að halda mig við það þó að menn láti í ljós óskir um annað.

Ég skil ósköp vel að þegar menn hafa verið að fjalla um þessi mál hafa menn látið skoðanir sínar í ljós. Kvennalistinn var að því er mér skilst tilbúinn að taka málið í heild sinni í kvöld. Aðrir höfðu þá skoðun að það væri betra að taka málið í heild sinni á laugardag. En síðan stóðu menn í samningum og eins og gerist í samningum þá sömdu menn um eitthvað sem enginn var fyllilega ánægður með. Ég skil þetta þannig og ég vona að skilningur minn sé réttur. Og hvers vegna vona ég að skilningur minn sé réttur? Vegna þess að þetta er ekki bara mál alþm. Þetta er mál fólksins sem bíður úrlausnar. Við erum búin að vera með lokað húsnæðislánakerfi í marga mánuði. Ég held að ýmsir, ekki bara í þessum hóp heldur úti í þjóðfélaginu yfirleitt, séu orðnir gáttaðir á því hvað þetta þurfi að taka langan tíma.

Nú liggur fyrir að félmn. hefur komið sér saman um brtt. varðandi þetta, ekki bara meiri hluti nefndarinnar heldur eru líka tillögur frá minni hluta, og að því leytinu er okkur ekkert að vanbúnaði að taka þetta mál til umfjöllunar. Ég ætla að vona það þingsins vegna og þeirra vegna sem bíða eftir úrlausn, hvaða skoðanir svo sem menn hafa á málsmeðferð, að við greiðum nú fyrir því að þetta geti gengið almennilega fyrir sig, reynum að standa við það samkomulag sem hefur verið gert og vitaskuld að við sjáum til þess að málið í heild sinni komist sem fyrst í gegnum þingið fólksins vegna. Við verðum kannski að brjóta einhvern odd af oflæti okkar í þessu máli eins og ýmsir hafa greinilega orðið að gera.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta, en mér finnst brýnt fyrir þingið að halda nú áfram umfjöllun um málið eins og um hefur verið talað og að þetta geti gengið sem greiðlegast fyrir sig fólksins vegna.