10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það hefur legið fyrir að ríkisstjórnin hefur frá því að þetta mál var lagt fram lagt áherslu á að það fengi afgreiðslu hið fyrsta. Um það varð ágreiningur. Hann hefur verið leystur í nefnd og það skiptir miklu máli, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, að málið nái fram að ganga vegna hagsmuna þeirra sem eiga viðskipti við Húsnæðisstofnun.

Á fundi í dag, sem ég sat ásamt með forsetum og formönnum þingflokka, lagði ég áherslu á að hér yrðu tekin til umræðu í kvöld tvö mál, það mál sem nú er á dagskrá og svo frv. sem lagt hefur verið fram um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, svo það komi alveg skýrt fram hvaða áherslur voru lagðar fram af minni hálfu á þeim fundi. Þá komu fram af hálfu þingflokksformanns Alþb. efasemdir um að það væri hægt að taka málið til umræðu, m.a. vegna þess að þá höfðu nefndarálit ekki öll borist, og því varð ekki niðurstaða um það á þeim fundi með hvaða hætti málið yrði tekið fyrir eða hvenær. Þegar ég kom í þinghúsið eftir kvöldmat tilkynnti forseti þessarar hv. deildar mér að um það hefði orðið samkomulag að hér yrði mælt fyrir áliti meiri hl. félmn. og umræðu yrði síðan fram haldið á fundi deildarinnar á laugardag. Það er ekki óalgengt að umræður séu slitnar í sundur og umræða fari fram á tveimur fundum. Það eru fordæmi fyrir því. Þetta sýnir að það er vilji fyrir því að afgreiða þetta mál, enda hygg ég að allir hv. þm. taki undir að hagsmunir þeirra sem þurfa að sækja til Húsnæðisstofnunar eru hér í veði.

Aðeins vegna þess að hér var vitnað til blaðaummæla um að hæstv. félmrh. hafði lýst því yfir að hann kæmi ekki til ríkisstjórnarfundar til að mótmæla framgangi þessa máls á þingi, þá vil ég taka fram að auðvitað hefur ríkisstjórn Íslands ekki í hótunum við Alþingi um framgang mála og það vita menn að það er starfsskylda ráðherra að sitja ríkisstjórnarfundi. Ríkisstjórnarfundur hófst í morgun. Honum var frestað þá og fram haldið kl. 7 í kvöld og hæstv. félmrh. sat síðari hluta þess fundar og hefur því gegnt ráðherraskyldum sínum á þeim ríkisstjórnarfundi sem öðrum. En það er óþarfi að blanda því saman við framgang málsins hér því að það er ekki háttur ríkisstjórnar að hafa í hótunum við hið háa Alþingi um framgang mála, en eindregin ósk ríkisstjórnarinnar að málið fái hér greiða meðferð. Ég vona að það samkomulag sem gert var um málsmeðferð standi og það verði nú mælt fyrir áliti meiri hl. hv. félmn. og umræðunni síðan fram haldið á fundi deildarinnar á laugardag.