10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Herra forseti. Nú er svo komið eins og málum hefur verið háttað í dag að það er kannski ekki auðvelt að átta sig á hvar ákvarðanir hafi verið teknar. Þó hygg ég að sú lýsing sem hæstv. forsrh. hafði hér á fundi forseta og þingflokksformanna fyrr í dag hafi verið rétt og þar hafi einmitt legið í loftinu óákveðið hvernig taka skyldi á húsnæðismálunum. Á fundi sem haldinn var síðar í dag með forsetum deilda og þingflokksformönnum var málum fljótlega þannig komið að það var ákveðið að taka húsnæðismálin fyrir í kvöld.

Ég vil enn ítreka að ég margendurtók þar að mér fyndist óeðlilegt að málinu yrði skipt upp eins og hér hefur síðan verið lagt fram og ég vil aftur mótmæla því, herra forseti, sem forseti hafði tvívegis orð á, að um það hefði verið samkomulag. Í fyrra skiptið sagði hann að hefði verið samkomulag allra og í seinna skiptið ítrekaði hann að það hefði verið samkomulag þingflokksformanna stjórnarandstöðu. Ég ítreka enn að svo var ekki, enda var ekki gengið til atkvæðagreiðslu og ég sætti mig auðvitað við að meiri hlutinn sem þarna var viðstaddur vildi haga málum svona. En ég var ekki sammála því.

Hitt er svo annað mál að úr því sem komið var fannst mér eðlilegt að þetta mál væri tekið fyrir í kvöld og við hefðum betri forsendur til að taka það fyrir en mörg önnur. Það eru fjölmörg mál sem liggja enn óleyst og órædd, mörg stórmál sem eiga eftir að koma fyrir þingið og þetta mál er kannski það sem helst hefur verið til umfjöllunar því að langt er síðan þetta frv. var lagt fram. Það er sjálfsagt margbúið að fjalla um það í öllum þingflokkum og ég trúi ekki öðru en nefndarfulltrúar þingflokka skýri frá því í þingflokkum hvað fram fer í nefndum, bæði hvað þeir hafi lagt þar til mála og hvað aðrir hafi lagt þar til mála. Ég hélt því að menn væru a.m.k. í stakk búnir til að hlusta á nál., en að sjálfsögðu yrði svo málið tekið til áframhaldandi umræðu á laugardag. En ég áleit nú að það væri jafnvel heppilegra fyrir t.d. stjórnarandstöðu, sem væri að leggja þarna fram brtt. og sumar svo ítarlegar að þeir boðuðu að þeir þyrftu að gera það í löngu máli, að kynna sín mál í kvöld og menn hefðu þá aðstöðu til að hugleiða þau mál og fara yfir brtt. í tvo sólarhringa þangað til boðað væri til næsta fundar um húsnæðisfrv.

Að lokum vil ég svo þakka hv. 13. þm. Reykv. fyrir hennar orð og vona að hugsanir hennar hafi ekki átt við rök að styðjast.