10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Það er mér fjarri að vilja lengja þessa umræðu um þingsköp, en ég vildi taka undir með hv. 4. þm. Reykn. að það er auðvitað skylda Alþingis að marka sem allra fyrst skýra stefnu í húsnæðismálum og tefja ekki framgang þessa máls. Það er ákaflega brýnt hagsmunamál almennings að fá botn í húsnæðislánakjörin.

Það er ljóst af þeim orðum sem hér hafa fallið í kvöld að það má vera að umræður um þetta mál þurfi að taka lengri tíma en rúmast kann á þessum fundi. Um það hafði reyndar verið rætt á fundum forseta og forustumanna þingflokkanna í dag og gert um það samkomulag eða a.m.k. samkomulag að kalla um hvernig bregðast mætti við þeim vanda. Ég tel þarflaust að ræða það mál frekar, en bið eingöngu um það að til að flýta meðferð málsins verði þegar gengið til umræðu um dagskrármálið sjálft, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þannig má flýta meðferð málsins að menn fari eftir því samkomulagi sem til hefur verið vitnað. Kjarni málsins er sá að það er ekki nein ástæða til að tefja þetta mál lengur og auðvelt að skipta umræðunni ef svo fer að menn telja þess þörf.